Skref í átt að lægri útgjöldum barnafjölskyldna

Tillögur til lægri útgjalda fyrir barnafjölskyldur í Hafnarfirði

Tillögur til lægri útgjalda barnafjölskyldna í Hafnarfirði

Á fundi fræðsluráðs í dag voru teknar til umræðu tillögur starfshóps um breytingar á gjaldskrám og niðurgreiðslum á fræðslu- og frístundasviði.

Hópurinn var settur á laggirnar í kjölfar tillögu Samfylkingar og Vinstri grænna frá 27. júní 2014. Hann var formlega skipaður í september sama ár, fulltrúum allra flokka bæði úr fræðslu- og fjölskylduráði.

Verksviðs hópsins var nokkuð viðamikið en honum var m.a. ætlað að endurskoða gjaldskrár, stuðning bæjarins við íþrótta- og tómstundastarf ásamt starfsemi frístundaheimila.

Starfshópurinn sendi frá sér tillögur um frístundaheimili sl. vor sem margar hverjar eru nú þegar komnar til framkvæmda.

Þær tillögur sem starfshópurinn sendi frá sér nú varða gjaldskrár og frístundastyrki. Helstu breytingarnar eru þær að systkinaafsláttur verði aukinn úr 30% í 50% fyrir annað barn og úr 50% í 75% fyrir þriðja barn. Með því að hækka systkinaafsátt er leitast við að draga úr kostnaði fjölskyldna við skólagjöld og frístundaþjónustu, að því er segir í rökstuðningi, en afslátturinn gildir á milli þjónustustiga eins og verið hefur.

Önnur breyting varðar frístundastyrki. Starfshópurinn leggur til að frístundastyrkur verði kr. 3.000 á mánuði og aldursmörk hækkuð úr 16 í 18 ár. Í rökstuðningi kemur fram að hækkun frístundastyrks tryggi þátttöku og jafnan aðgang barna að skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og hækkunin í 18 ár sé leið til að vinna gegn brottfalli.

Starfshópurinn leggur til að tillögurnar komi til framkvæmda 1. september nk.

Í lokaorðum kemur fram að starfshópurinn leggi áherslu á að gjaldskrá Hafnarfjarðarbæjar verði hófleg, ábyrg og taki mið af kröfum samfélagsins. Þá er einnig bent á mikilvægi þess að haldið verði áfram á þeirri braut að lækka enn frekar útgjöld barnafjölskyldna strax við gerð næstu fjárhagsáætlunar.

Hægt er að kynna sér frekari tillögur sem og skýrslu starfshópsins á heimasíðu bæjarins.

Í fundargerð fræðsluráðs kemur fram að jákvætt hafi verið tekið í tillögurnar og óskað eftir kostnaðarmati.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: