Fjölgun leiguíbúða: Tillaga Samfylkingar og VG samþykkt í bæjarstjórn

asiBæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti í gær samhljóða tillögu Samfylkingar og VG um að hefja viðræður við ASÍ um samstarf um uppbyggingu leiguhúsnæðis á viðráðanlegum kjörum. Í tillögunni felst einnig að leitað verði eftir samstarfi við aðra aðila, m.a. Búseta um byggingu búseturéttaríbúða. Byggir tillagan m.a. á húsnæðisfrumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi.

Í greinargerð með tillögunni segir að langur biðlisti sé til staðar hjá Hafnarfjarðarbæ eftir félagslegum íbúðum en fjöldi þeirra sem er á biðlista eftir íbúð og er skilgreindur í forgangi er yfir 250 einstaklingar og fjölskyldur.  Alls eru um 240 félagslegar íbúðir í Hafnarfirði og fyrirliggjandi er að sérstaklega ungt fólk á í miklum erfiðleikum með að fóta sig á húsnæðismarkaði eins og hann er í dag.

Stefnt er að því að niðurstöður viðræðna við ASÍ liggi fyrir áður en ráðist verður í úthlutun þeirra fjölbýlishúsalóða sem Hafnarfjarðarbær á til ráðstöfunar.

 Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: