Ríkið hafnar fjölgun rýma á Sólvangsreit

Friðþjófur Helgi Karlsson, fulltrúi Samfylkingarinnar er undrandi á vinnubrögðum meirihlutans í málinu.

Friðþjófur Helgi Karlsson, fulltrúi Samfylkingarinnar er undrandi á vinnubrögðum meirihlutans í málinu.

Í bréfi heilbrigðisráðherra til Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að ríkið muni ekki taka þátt í endurbótum á gamla Sólvangshúsinu. Ráðuneytið hafnar sömuleiðis hugmyndum um fjölgun hjúkrunarrýma. Tillögur meirihluta bæjarstjórnar um breytingar á skipulagi Skarðshlíðar koma í veg fyrir að hægt sé að fara þar í uppbyggingu hjúkrunarheimilis til framtíðar. Engin kostnaðaráætlun liggur enn fyrir vegna byggingar hjúkrunarheimilis á Sólvangsreit.

Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs í þessari viku var tekist á um uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis á Sólvangsreitnum. Í upphafi þessa kjörtímabils var vikið frá þeim áformum að byggja nýtt hjúkrunarheimili í Skarðshlíð en um þá uppbyggingu höfðu Hafnarfjarðarbær og ríkið undirritað samkomulag. Ef þau áform hefðu haldið hefði nýtt hjúkrunarheimili opnað í Skarðshlíð í lok árs 2015 eða í upphafi þessa árs. Af því hefur ekki orðið og því búa íbúar á Sólvangi áfram við aðstæður sem allir virðast sammála um að séu óviðunandi.

Útboð án þess að kostnaðaráætlun liggi fyrir
Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs í vikunni var lagður fram listi yfir innsend tilboð í hönnun og ráðgjöf vegna hjúkrunarheimilis við Sólvang. Í bókun, sem fulltrúar minnihluta Samfylkingar og VG lögðu fram um þetta á mál á fundinum, kemur fram að rök meirihluta bæjarstjórnar fyrir því að hætta við uppbyggingu í Skarðshlíð og stefna frekar að uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis á Sólvangsreitnum séu brostin. Ástæðan er sú að með bréfi Velferðarráðuneytisins frá 30. nóv. sl. hafi ráðuneytið alfarið hafnað því að farið verið í endurbætur á Sólvangi þar sem markmiðið var að koma fyrir 20 hjúkrunarrýmum. Einnig kemur fram að minnihlutinn telji það mjög óábyrgt að fara í útboð án þessi að kostnaðaráætlun hafi legið fyrir.

Friðþjófur Helgi Karlsson á sæti í  Umhverfis- og framkvæmdaráði

Friðþjófur Helgi Karlsson á sæti í Umhverfis- og framkvæmdaráði

Undrandi á vinnubrögðum meirihlutans í málinu
Friðþjófur Helgi Karlsson, fulltrúi Samfylkingarinnar er undrandi á vinnubrögðum meirihlutans í þessu máli.

„Það kemur manni óneitanlega á óvart að í útboðsgögnum, sem send voru út eftir að bréf ráðuneytisins hafði borist, var sérstaklega farið fram á að skoða yrði eldra húsnæðið með tilliti til þeirra 20 hjúkrunarrýma sem til stóð að yrðu staðsett þar. Á þeim tíma lá þegar fyrir að ráðuneytið myndi ekki koma að endurbótum á því húsnæði og að það samþykkti ekki fjölgun hjúkrunarrýma. Og það vekur óneitanlega athygli manns að bæjarstjóri gerir ekki grein fyrir bréfi ráðuneytisins fyrr en á fundi verkefnastjórnar hjúkrunarheimilisins að Sólvangi þann 7. janúar sl. En það sem veldur manni mestum áhyggjum í þessum máli er að þessi vinnubrögð eru þess valdandi að aldraðir í Hafnarfirði, sem þurfa á þjónustu hjúkrunarheimilis að halda, verða nú að bíða enn lengur eftir hjúkrunarrýmum sem mæta nútímakröfum um aðbúnað og aðstæður. Það er einfaldlega óásættanlegt að Hafnfirðingar verði að sætta sig við það að flestir á Sólvangi þurfi að búa á fjölbýlum eins og kemur fram í bréfi ráðuneytisins“.
Í bókun meirihlutans á sama fundi kemur fram að viðræðum við ríkið um framtíðarnýtingu Sólvangs verði haldið áfram.

Möguleiki á hjúkrunarheimili í Skarðshlíð útilokaður
Þrátt fyrir að nú liggi fyrir að ríkið ætli ekki að taka þátt í endurbótum á gamla Sólvangshúsinu, sem var ein af meginforsendum þess að hætta við byggingu hjúkrunarheimilis í Skarðshlíð, virðast engin teikn á lofti um endurskoðun þeirrar ákvörðunar. Á fundi skipulags- og byggingaráðs sem einnig var haldinn í þessari viku lögðu fulltrúar meirihlutans til breytingar á skipulagi Skarðshlíðar sem gera endanlega út um möguleika til byggingar hjúkrunarheimilis þar. Tillögunni var vísað til bæjarstjórnar sem mun taka afstöðu til hennar á fundi sínum þann 3. febrúar nk.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: