Fulltrúi ungs fólks í Strasbourg

„Efla þarf lýðræðisvitund og lýðræðislega þátttöku þessa hóps til muna. Til þess þurfum við sameiginlegt átak skólakerfisins, fjölmiðla og stjórnmálamanna. "

„Efla þarf lýðræðisvitund og lýðræðislega þátttöku þessa hóps til muna. Til þess þurfum við sameiginlegt átak skólakerfisins, fjölmiðla og stjórnmálamanna. „

Óskar Steinn Ómarsson fyrrverandi formaður Bersans – Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði, var fulltrúi ungs fólks á Sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins í Strasbourg sl. haust. Hann var valinn úr hópi fjölda umsækjenda frá þeim 47 löndum sem aðild eiga að Evrópuráðinu. Hann segir ungt fólk vannýtta auðlind og kallar eftir lækkun kosningaaldurs á Íslandi.

„Ég var svo heppinn að fá að fara á Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins í Strassborg í haust. Ég fór sem fulltrúi ungs fólks og fékk að starfa með hópi ungmenna frá öllum löndum sem aðild eiga að þinginu. Eðlilega voru málefni flóttafólks ofarlega í huga þingfulltrúa, enda er þjónusta við flóttafólk að miklu leyti á ábyrgð sveitarfélaga.“

Lækkum kosningaaldurinn
Óskar Steinn segir að á þinginu hafi meðal annars verið kynnt skýrsla um kosti og galla þess að veita 16 og 17 ára ungmennum kosningarétt til sveitarstjórna. „Niðurstöður skýrslunnar sýna að tilraunir evrópskra sveitarfélaga með lækkun kosningaaldurs hafa gefist vel. Ýmis rök eru færð fyrir lækkun kosningaaldurs, t.a.m. að í dag hefur ungt fólk mun meiri aðgang að upplýsingum en áður og því betri forsendur til að taka upplýstar og sjálfstæðar ákvarðanir. Þá sýna rannsóknir að því yngra sem fólk er þegar það kýs í fyrsta skipti, þeim mun líklegra er að það haldi áfram að kjósa.“

Hópur ungmenna frá þeim 47 löndum sem aðild eiga að Evrópuráðinu ásamt forseta sveitarstjórnarþingsins.

Hópur ungmenna frá þeim 47 löndum sem aðild eiga að Evrópuráðinu ásamt forseta sveitarstjórnarþingsins.

„Ungt fólk hefur heldur betur látið til sýn taka undanfarin misseri. Byltingar á borð við #freethenipple og #égerekkitabú hafa verið umfangsmiklar í þjóðfélagsumræðunni og haft mikil áhrif á samfélagið. Ljóst er að íslensk ungmenni hafa sterkar skoðanir, mikla orku og ríka réttlætiskennd. Ekkert á að vera því til fyrirstöðu að gefa þessum ungmennum réttinn til að kjósa í samræmi við skoðanir sínar.“

Ungt fólk vannnýtt auðlind
Óskar Steinn segir ungt fólk og kraft þess vera vannýtta auðlind í íslensku samfélagi. „Orkuna sem við sjáum á Twitter væri hægt að beisla í svo miklu meiri mæli á öllum sviðum samfélagsins. Efla þarf lýðræðisvitund og lýðræðislega þátttöku þessa hóps til muna. Til þess þurfum við sameiginlegt átak skólakerfisins, fjölmiðla og stjórnmálamanna.“

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins kemur saman tvisvar á ári. Ungt fólk frá öllum aðildarlöndum ráðsins getur sótt um að taka sæti á þinginu með málfrelsi og tillögurétt. Þingið hefur nýlega auglýst eftir umsækjendum fyrir árið 2016. Frétt þess efnis má finna hér.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: