Sátt við þjóðina mikilvægari en sátt við sérhagsmunaöflin

gra_forsGuðmundur Rúnar Árnason yfirgaf hafnfirska bæjarpólitík þar sem hann hafði gegnt ábyrgðarstörfum um árabil og vinnur nú að þróunarmálum í einu af fátækustu ríkjum heims. Hann segir þá reynslu hafa breytt honum sem manneskju, fjarlægðin hafi gefið honum nýja sýn á lífið og pólitíkina.

Eftir að hafa verið virkur í bæjarmálunum um langt árabil og bæjarstjóri í Hafnarfirði á síðasta kjörtímabili skiptir þú má segja algjörlega um starfsvettvang og fluttir til Afríku. Hvað kom til?
„Það stóð þannig á því, að ráðningarsamningur minn um starf bæjarstjóra rann út á miðju ári 2012 og ég var farinn að líta útundan mér á atvinnuauglýsingar um vorið. Það var reyndar ekki ekki um margt að ræða á þessum tíma, fá störf auglýst. Ég sá auglýsingu í Fréttablaðinu, í apríl að mig minnir, um starf verkefnisstjóra hjá Þróunarsamvinnustofnun í Malaví. Ég hugsaði samt ekki mikið um hana til að byrja með. Mér fannst þetta eitthvað svo fjarlægt – ekki bara landfræðilega. En af einhverjum ástæðum lét þessi auglýsing mig samt ekki í friði og varð ágengari eftir því sem tíminn leið. Eftir að hafa ráðfært mig við konuna mina og ráðningastjóra ráðningarstofunnar sem hafði með málið að gera, sendi ég inn umsókn. Margir hæfir einstaklingar sóttu um. Ég tók að minnsta kosti fjögur skrifleg próf og fór í nokkur viðtöl um sumarið, en það var ekki fyrr en daginn eftir verslunarmannahelgi sem framkvæmdastjóri hringdi í mig og bauð mér starfið.“

Það er ekki óalgengt að skólastofan sé undir tré á skólalóðinni.

Það er ekki óalgengt að skólastofan sé undir tré á skólalóðinni.

Mannslíf í húfi
Í hverju felst starf þitt í Malaví?
„Starf Þróunarsamvinnustofnunar í Malaví felst í að aðstoða stjórnvöld við uppbyggingu grunnstoða. Við vinnum í einu fátækasta héraði landsins, Mangochihéraði, þar sem um ein milljón manna býr. Verkefnin eru á sviði heilbrigðismála, grunnmenntunar og vatnsveitu, á tímabilinu frá miðju ári 2012 til 1. júlí 2016. Í stórum dráttum fjármögnum við uppbyggingu og endurbætur í tólf grunnskólum (af um 250), 350 ný eða endurbætt vatnsból og margvíslegar framkvæmdir og þjálfun í heilbrigðismálum, þar á meðal fimm fæðingardeildir, allmargar heilsugæslustöðvar, fimm nýja sjúkrabíla og þar fram eftir götum. ÞSSÍ sér ekki um framkvæmdirnar, heldur héraðsstjórnin í Mangochi. Auk þess að fjármagna höfum við eftirlit með framkvæmdum og því að fjármunir séu nýttir í það sem ætlað er. Mitt starf er ekki síst í eftirlitinu. Ég fer að jafnaði tvisvar í mánuði til Mangochi, en það er um 350 km. akstur frá höfuðborginni Lilongwe. Yfirleitt er ég 2-4 daga í hverri ferð, fer á milli staða þar sem framkvæmdir eru í gangi og sannreyni að áætlunum sé fylgt. Í flestum tilvikum hitti ég einhverja af lykilstarfsmönnum héraðsins í þessum ferðum. Auk þess hef ég umsjón með umfangsmiklum rannsóknum á viðhorfum og sjónarmiðum íbúanna á svæðinu, í tengslum við það sem verið er að gera, og það sem er framundan.

Þetta er ótrúlega gefandi og skemmtilegt starf. Það er sérstaklega ánægjulegt þegar maður sér árangur af starfinu, árangur sem felst í auknum lífsgæðum, minni mæðradauða, minni ungbarnadauða, betri heilsu og þar fram eftir götum. Þetta eru allt mælanlegir hlutir og tölurnar tala sínu máli. Svona nokkuð gerist auðvitað ekki á einni nótttu, en ég held að ég geti leyft mér að fullyrða að íslenskir skattpeningar hafi bjargað ótal mannslífum í Malaví. Það er góð tilfinning.“

Nýja stjórnarskrá til að bæta stjórnmálin
Ísland og stjórnmálin – Hvernig blasir þetta við þér?
„Það er dálítið öðru vísi að horfa á íslensk stjórnmál úr fjarlægð, en þegar maður er í hringiðunni. Vissulega fylgist ég sæmilega með, en get leyft mér að láta gjamm og gaspur dagsins renna framhjá, án þess að það hafi mikil áhrif á mig. Ég er mjög bjartsýnn á framtíðina – hef reyndar alltaf verið mjög bjartsýnn maður. Ég held að í ekki svo fjarlægri framtíð séu stórkostleg tækifæri – ef menn koma auga á þau og ber gæfa til að lesa rétt í skilaboðin í skoðanakönnum og samtölum við fólk. Margir kjósendur urðu fyrir gríðarlegum vonbrigðum með uppgjör hrunsins og það er enn bakslag hjá þjóðinni vegna þess.

Það er mikil gerjun í gangi í þjóðfélaginu, mikil umræða og fjölbreytt. Það hefur margt breyst í fjölmiðlun, svo dæmi sé tekið, frá því að ég stúderaði fjölmiðlafræði fyrir margt löngu. Þá var internetið til dæmis ekki komið til sögu. Áður var hægt að hafa umtalsverð áhrif á umræðu í gegnum prentmiðla með því að þegja um suma hluti. Mogginn hafði heilmikil áhrif með því að segja ekki frá sumu – stundum jafnvel meira en í gegnum það sem hann sagði frá. Ef það er ekki í Mogganum – þá gerðist það ekki var stundum sagt. Núna skiptir Mogginn hér um bil engu máli, í samanburði við fyrri tíð. Menn hafa verið að kaupa miðla í seinni tíð, augljóslega til að reyna að stýra umræðu. Ég hef enga trú á að þetta virki til lengri tíma litið. Fólk lætur ekki bjóða sér svona nokkuð lengur. Núna erum við með þúsundir virkra blaðamanna og ritstjóra á samfélagsmiðlunum á hverjum degi. Það er auðvitað ekki allt gáfulegt sem þar er borið á borð, en framboð af heilbrigðum sjónarmiðum er meira og fjölbreyttara en áður. Þau finna sér leið til lesenda, þótt hefðbundnir miðlar þegi eða matreiði eftir uppskriftum eigendanna.“

En fyrir utan breytt fjölmiðlaumhverfi, af hverju ertu bjartsýnn?
„Ef maður ýtir til hliðar deilum um keisarans skegg og minni háttar dægurmál, þá er einn gegnumgangandi klofningsás í pólitíkinni. Annars vegar erum við með sérhagsmuni – og þá sem beita sér fyrir þeim. Hins vegar erum við með almannahagsmuni – og þá sem beita sér fyrir þeim. Ef þau öfl sem láta sér annt um almannahagsmuni koma sér saman um það, undanbragðalaust, að þau ætli að klára nokkur lykilmál – t.d. stjórnarskrármálið, láta kjósa um framhald ESB viðræðna og auðlindamálin, þá er mikið unnið. Ég er þess fullviss að íslensk stjórnmál breyttust til hins betra í kjölfarið. Ný stjórnarskrá er lykilatriði í því að betrumbæta íslensk stjórnmál og draga úr valdi sérhagsmunahópa. Almennt er ég talsmaður samráðs og sátta, en það má ekki ganga svo langt að færa talsmönnum sérhagsmuna neitunarvald. Sátt við þjóðina er svo miklu mikilvægari en sátt við þingmenn sérhagsmunanna. Þetta er ekki bara tækifæri fyrir talsmenn almannahagsmuna, heldur ber þeim beinlínis skylda til að leiða þessi mál til lykta og setja flokkadrætti til hliðar.“

Excelráðgjöf í stað sáttar
Hvað með hafnfirsk stjórnmál?
„Það er mikilvægt, að þeir sem taka við keflinu fái frið til að vinna sína vinnu, án þess að fyrrverandi forystumenn séu að anda ofan í hálfsmálið hjá þeim. Tvennt rennur mér þó sérstaklega til rifja. Mér fannst dapurlegt að horfa upp á að núverandi stjórnarflokkar keyptu sér excelráðgjöf til að kasta fyrir róða þeirri sátt í bænum sem hafði verið byggð upp í kringum nýtt hjúkrunarheimili. Margir höfðu lagt á sig miklu vinnu vegna þess. Hitt málið er framkoman við fjölmarga starfsmenn bæjarins. Þetta tvennt hryggir mig meira en orð fá lýst, en lýsir ákveðnu viðhorfi til viðfangsefnisins – og kemur mér reyndar ekki mjög á óvart.“

———————————————————————–

Í jólablaði Samfylkingarinnar var viðtal við Guðmund Rúnar Árnason, fyrrum bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar og bæjarstjóra í Hafnarfirði. Við birtum hér hluta viðtalsins og bendum áhugasömum jafnframt á að hægt er að lesa viðtalið í heild í jólablaðinu.

Viðtalið í heild má finna hérFlokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: