Er herskár í eðli mínu

Það var svo alveg í lokin, einhvern tímann á milli sjötta og sjöunda bjórs, þrettándu sígarettunnar og tuttugasta frammíkallsins, sem ég lagði til að við myndum búa til eitthvað sem héti Marskálkur.

Það var svo alveg í lokin, einhvern tímann á milli sjötta og sjöunda bjórs, þrettándu sígarettunnar og tuttugasta frammíkallsins, sem ég lagði til að við myndum búa til eitthvað sem héti Marskálkur.

Valur Grettisson gaf út sína fyrstu skáldsögu á árinu sem ber heitið Gott fólk. Á sínum unglingsárum var Valur virkur í starfi Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði þar sem hann gegndi stöðu marskálks, hélt menningarkvöld, barðist fyrir menningarhúsi ungs fólks, og las upp ljóð á börum bæjarins. Bærinn okkar tók þetta rómaða Hafnarfjarðarskáld tali.

Fyrsta bókin þín, Gott fólk, fjallar um mann sem er sakaður um kynferðisbrot og þarf að ganga í gegnum „ábyrgðarferli“, einskonar réttarhöld utan réttarkerfisins. Hver var kveikjan að þessari sögu?

„Einfalda svarið er að segja að kveikjan að sögunni hafi verið fréttir sem ég las fyrir nokkrum árum hér á landi um ábyrgðarferlið. Það væri þó frekar gróf einföldun. Því bókin fjallar á engan hátt um raunverulega atburði eða fólk. Hún fjallar um þessi ógreinilegu átök sem við upplifum og verðum svo oft vitni að án þess að festa fingur á þau. Mörg okkar fara í gegnum allt lífið án þess raunverulega að skilgreina þessi átök sem birtust í umræddu máli þar sem ung kona þvingaði mann til þess að gangast í gegnum ábyrgðarferlið. Sem voru í raun óljósar háttvísisreglur. Einhverskonar umgengniseglur eða krafa um virðingu fyrir tilfinningalífi manneskjunnar. Þessi átök urðu svo skýr með tilkomu samskiptamiðlanna þar sem við rífumst og skeytum engu um tilfinningar eða skoðanir annarra.“ 

Finnst þér mikilvægt að fjalla um málefni líðandi stundar í verkum þínum?

„Það er í sjálfu sér ekki mikilvægt. Það er frekar gert af praktískum ástæðum. Ég er einfaldlega ekki nægilega áhugasamur né fróður um fyrri tíð, og hef meira gaman af framtíðarkvikmyndum en Sci-fi bókum, þó auðvitað séu undantekningar þar á. Samtíminn hefur það þó umfram fortíðina, svona oftast allavega, að vera ókannaður. Jafnvel jarðsprengjusvæði ef vel er að gáð. Þar líður mér oftast best, í miðju stríðinu. Annars fjalla allar góðar sögur um hið sammannlega. Þannig það skiptir ekki öllu máli hvenær sögurnar gerast.“

Hvernig hafa viðtökurnar verið?

„Það er varla hægt að segja annað en að þær hafi verið góðar. Ef við setjum kapítalíska mælistiku á velgengnina þá hefur bókin selst vel og vonandi vonum framar að mati útgefandans. Ef við lítum á bókina út frá afþreyingargildinu, þá hefur bókin fengið góða dóma. Ef við lítum til innihaldsins þá er sagan kennd við menntaskóla á höfuðborgarsvæðinu. Ég er stoltur af því, það þýðir að bókin innihaldi einhverskonar merkingu, einhvern athyglisverðan fróðleik. Í það minnsta athyglisvert sjónarhorn á veröldina. Eins hefur ókunnugt fólk verið duglegt að hrósa mér fyrir söguna. Mér þykir það eiginlega skemmtilegast. Þá er ekki verra að Þjóðleikhúsið heillaðist af bókinni og mun setja hana upp sem leikrit á næsta leikári. Það er mikill heiður.“

Ertu skáld eða blaðamaður?

„Skáldskapurinn er í raun útrás sem ég fæ fyrir hávaðanum í hjartanu og höfðinu. Því stundum virka hugleiðingarnar, setningarnar og sögurnar eins og hávær síbylja. Maður verður að setjast niður og skrifa þær. Slík skrif eru meira í ætt við sáluhjálp. Og stundum þarf sálin sinn fréttaritara.
Blaðamennskan hinsvegar heldur mér á tánum. Hún skerpir öll vit. Það má segja að hún brýni pennann. Stundum er maður heppinn, og nær að stinga á kýlum. Þá fær maður ákveðinn frið í huganum í nokkurn tíma. Svo ágerist hávaðinn á ný og maður fer að leita að næstu frétt, næstu sögu, næstu orrustu, eins villuráfandi rándýr. Því þannig virkar hungrið, það er óseðjandi. Þá hefur maður allavega vel brýndan penna til þess að reka skepnuna á hol, hver sem hún verður.“

Þú berð víst ennþá titillinn marskálkur, hvaða hlutverki gegndi hann í ungliðastarfinu? Ertu pólitískur í dag?

„Er það? Er ég ennþá Marskálkur? Ég vissi það ekki. Eg stofnaði vissulega embættið fyrir um áratug síðan. Þá vorum við á einhverju enn einu fylleríinu í gamla Alþýðuhúsinu. Ég fékk orðið á einhverjum aðalfundi, draugfullur að vísu, og hélt, að því mér skilst, einhverja lengstu ræðu sem hefur verið haldin í húsinu. Það var svo alveg í lokin, einhvern tímann á milli sjötta og sjöunda bjórs, þrettándu sígarettunnar og tuttugasta frammíkallsins, sem ég lagði til að við myndum búa til eitthvað sem héti Marskálkur. Bæði vegna þess að ég var herskár í eðli mínu, en einnig vegna þess að einhver yrði að samræma aðgerðir í neyðarástandi í landinu. Líklega var það samt bara til þess að þagga niður í mér sem tillagan var samþykkt, en það breytti því ekki að við vorum ansi stoltir af titlinum. Því við skárum okkur verulega úr að þessu leyti. Tiltillinn gaf til kynna að værum tilbúnir fyrir næstu byltingu. Í það minnsta næsta bjór. 
En ég er vinstrisinnaður. Það er staðreynd sem ég fel ekki né ræð við. Ég er ekki pólitískur í þeirri merkingu að ég sé að stunda eitthvað flokkastarf. Ekki frekar en að ég horfi á línulegt sjónvarp. Flokkshollusta, og þessi íslenska flokkatrú, er löngu dauð, og óskiljanleg fyrir mína kynslóð. Ég iðka hinsvegar pólitík alla daga í mínu lífi. Ég reyni að ala drengina mína upp í þeirri trú að þeir eigi að vera góðir við náungann, en ekki að líta svo á að ef við getum ekki hjálpað öllum, þá eigum við að sleppa því að hjálpa. Ég held með fólki, ekki peningum. Það er birtingamynd minnar pólitíkur.“ 

Hefurðu fundið efni í næstu bók?

„Ég átta mig ekki á því. Ég er með efni í næstu tuttugu bækur og tvö leikrit, en það er eins og ekkert þeirra hafi náð að hertaka hjarta mitt. Stundum líður mér eins og mig vanti einhverskonar samhengi. Hina stundina líður mér eins og ég sé með þetta allt saman á hreinu. Akkúrat núna er ég einhvern veginn mitt á milli. Og það er ágæt tilfinning; því það er hljóðlátt í logninu.“ Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: