Örlög Kató ráðast í dag

Leikskólinn Kató á sér langa sögu. Rætur hans liggja allt til ársins 1930 en þá stofnuðu St. Jósefssystur barnaskóla í Hafnarfirði.

Leikskólinn Kató á sér langa sögu. Rætur hans liggja allt til ársins 1930 en þá stofnuðu St. Jósefssystur barnaskóla í Hafnarfirði.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hittist í dag til síðari umræðu um fjárhagsáætlun næsta árs. Töluverður ágreiningur hefur verið um bæði forsendur áætlunarinnar og tillögur meirihlutans sem leggur til áframhaldandi niðurskurð í grunnþjónustu, fækkun kennara á leik- og grunnskólastigi, lokun starfsstöðva og niðurskurð í rekstri félagsþjónustu.

Lokun leikskólans við Hlíðarbraut, starfsstöð sem í daglegu tali gengur undir heitinu Kató, er ein af þeim tilögum meirihlutans sem mest viðbrögð hefur vakið. Íbúar í Suðurbæ hafa mótmælt tillögunni harðlega og bent á að í henni felist óréttlætanleg skerðing á grunnþjónustu í því hverfi. Foreldrar leikskólabarna hafa ritað fræðsluráði erindi vegna málsins, mætt á fund ráðsins og á fund bæjarstjóra og lagt sitt af mörkum til að tryggja upplýsta umræðu um málið. Tillaga minnihlutans í fræðsluráði um að falla frá fyrirhugaðri lokun leikskólans fékkst ekki afgreidd á fundi ráðsins í síðustu viku. Meirihlutinn samþykkti hins vegar að vísa tillögunni til umræðu og afgreiðslu í bæjarstjórn. Fulltrúar minnihlutans hafa óskað eftir því að tillagan verði rædd og afgreidd sérstaklega. Ekki er útilokað að meirihlutinn fallist á rök og óskir foreldra og íbúa í Suðurbæ og dragi tillöguna til baka.

Breytilegar ástæður fyrir lokun
Í greinargerð með tillögu minnihlutans segir m.a. að upphaflega hafi staðið til að loka starfsstöðinni við Hlíðarbraut á þeirri forsendu að húsnæði leikskólans væri ónýtt. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir fulltrúa minnihlutans tók það heilt ár að fá faglega úttekt á ástandi húsnæðisins. Í millitíðinni var ákveðið að hætta að innrita börn í leikskólann og foreldrum synjað þar um pláss síðastliðið haust. Ekkert samráð var haft við hagsmunaaðila um þá ákvörðun og hún hvergi rædd formlega eða kynnt. Þegar úttekt umhverfis- og framkvæmdasviðs sýndi að húsnæði leikskólans væri í ágætu lagi og viðhaldsþörf innan eðlilegra marka var brugðist við með því að leggja til að starfsstöðinni yrði lokað í sparnaðarskyni.

Ekkert horft til fjölda leikskólaplássa í Suðurbæ
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins virðist engin tilraun hafa verið gerð til að meta þörfina fyrir leikskólapláss í umræddu hverfi áður en ákvörðun um lokun starfsstöðvarinnar var tekin. Eftir beiðni fulltrúa minnihlutans í fræðsluráði voru þær upplýsingar teknar saman nú á haustdögum. Helstu niðurstöður þeirra voru:

• Í Suðurbæ búa 214 börn á aldrinum 2-5 ára.
• Í hverfinu hafa verið 2 leikskólar en samanlagður fjöldi leikskólaplássa þeirra eru 152 pláss.
• Verði starfsstöðinni við Hlíðarbraut lokað verða 116 leikskólapláss í þessum bæjarhluta og hverfið skera sig úr í samanburði við önnur hverfi hvað fá leikskólapláss snertir.
• Í Suðurbæ verður þá aðeins einn leikskóli starfandi af þeim fimmtán leikskólum sem starfandi eru í Hafnarfirði.
• Að óbreyttu mun nokkur fjöldi leikskólaplássa verða ónýttur næsta haust í Hafnarfirði. Miðað við búsetudreifingu eru þau pláss nær öll í Norðurbæ.

Í greinargerðinni segir jafnframt að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um fjölda leikskólaplássa í ólíkum hverfum bæjarins og dreifingu barna eftir hverfum sé fullljóst að ef ekki verði unnið að fjölgun leikskólaplássa í Suðurbæ þá muni stór hluti þeirra barna sem þar býr þurfa að sækja leikskóla þar sem plássin eru flest og töluvert umfram fjölda barna, þ.e. í Norðurbæ. Slíkt muni ekki aðeins valda óhagræði og skerðingu á grunnþjónustu íbúa Suðurbæjarar heldur muni það einnig auka bílaumferð í Norðurbæ, sérstaklega í nánasta umhverfi þeirra leikskóla sem þar eru starfandi.

Þvert á hugmyndir um þéttingu byggðar
Sé litið til nýsamþykkts svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og áherslna i skipulagsmálum er ljóst að lokun grunnþjónustu getur dregið mjög úr fýsileika þess að þétta byggð. Á það hefur verið bent að fremur þurfi að huga að því að tengja saman íbúabyggð og þjónustu, nýta betur innviði og draga úr þörf fyrir bílaumferð innanbæjar. Það sé grundvöllur betri lífsgæða borgaranna og ein af mikilvægustu forsendum eflingar almenningssamgangna.

Dregur úr samfellu milli skólastiga
Foreldrar hafa lýst yfir eindreginni afstöðu gegn lokun leikskólans og meðal annars bent á mikilvægi þess að börn fari á milli skólastiga með börnum sem hafa alist upp saman í leikskóla. Er það talið sérstaklega mikilvægt fyrir börn sem búa við einhverskonar skerðingu, hvort sem er vegna þroska eða félagslegra aðstæðna að tilheyra vinahópi sem þau þekkja og sem þekkja til þeirra aðstæðna.

Áhyggjur af áhrifum á fasteignaverð
Þá hafa íbúar í Suðurbæ lýst áhyggjum af því að boðuð skerðing á grunnþjónustu muni hafa neikvæð áhrif á uppbyggingu í hverfinu og leiða til lækkaðs fasteignaverð á þessu svæði. Um þúsund íbúar skrifuðu undir áskorun til bæjarstjórnar um að falla frá tillögunni og huga frekar að því að styrkja innviði hverfisins.

Málamiðlunartillaga minnihluta
Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja til að lokun starfsstöðvar Brekkuhvamms við Hlíðarbraut verði dregin til baka og þess í stað fundnar leiðir til að fækka plássum í hverfum sem betur þola slíka framkvæmd. Með því móti myndu sparast um 30 milljónir króna á ársgrundvelli, sem er sá hluti áætlaðs sparnaðar sem tengist fækkun leikskólaplássa og er óháð því hvar sú fækkun á sér stað. Þannig væri komið í veg fyrir þá skerðingu á grunnþjónustu sem fækkun leikskólaplássa mun að óbreyttu hafa í för með sér í Suðurbæ og komið til móts við eindregnar óskir foreldra um að frekar verði unnið að því að fjölga leikskólaplássum í þeim bæjarhluta en fækka þeim. Þá verði jafnframt unnið að áætlun um byggingu nýs leikskóla við Öldugötu í samræmi við gildandi skipulag svæðisins og skilgreinda þörf fyrir aukin fjölda leikskólaplássa í Suðurbæ.

Fundur bæjarstjórnar fer fram í Hafnarborg og hefst kl. 16:00.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: