Símamálið: Hafnarfjarðarbær braut lög

Bæjarstjóri ber því við að um rannsókn á alvarlegu öryggismáli hafi verið að ræða.

Bæjarstjóri ber því við að um rannsókn á alvarlegu öryggismáli hafi verið að ræða.

Persónuvernd hefur úrskurðað í máli þriggja bæjarfulltrúa sem kvörtuðu við stofnunina vegna yfirlýsinga bæjarstjóra um að símtöl úr símum þeirra og starfsmanna bæjarins hefðu verið skoðuð í tengslum við mál sem snerti starfsmann Hafnarfjarðarhafnar. Niðurstaða Persónuverndar er sú að Hafnarjarðarbær hafi farið gegn 21. grein laga um persónuvernd þegar ákveðið var að skoða umræddar símtalaskrár án vitundar málsaðila. Telur Persónuvernd hins vegar að lögmæt sjónarmið hafi legið að baki þeirri ákvörðun Vodafone að senda Hafnarfjarðarbæ umbeðnar upplýsingar. Þá telur Persónuvernd að vinnsla upplýsinganna að hálfu Hafnarfjarðarbæjar hafi verið í samræmi við lög.

Eins og fram kemur í úrskurði Persónuverndar má rekja tildrög kvörtunarinnar til þess að bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar upplýsti á fundi bæjarráðs þann 12. febrúar sl. að fram hefði farið rannsókn á símtölum úr símum á vegum Hafnarfjarðarbæjar, þar á meðal símtölum úr símum bæjarfulltrúa. Töldu bæjarfulltrúar að slík rannsókn væri ekki heimil nema með vitund þeirra sjálfra og vildu fá úr því skorið hvort bæjarstjóri hefði brotið gegn 21. grein laga um persónuvernd nr.77/2000. Í úrskurði sínum hefur stjórn Persónuverndar staðfest að kvörtunin átti að styðjast og umrædd könnun á farsímanotkun hafi ekki verið í samræmi við 21. grein laganna.

Eins og fram kemur í úrskurðinum kom það í ljós á síðari stigum rannsóknar Persónuverndar að í þeim gögnum sem símafyrirtækið sendi Hafnarfjarðarbæ hafi eingöngu verið upplýsingar um farsímanotkun eins bæjarfulltrúa en ekki allra þriggja eins og talið var í upphafi. Í athugasemdum bæjarfulltrúanna kemur þó fram að því hafi aldrei verið mótmælt að hálfu bæjarstjóra að kanna átti símnotkun þeirra allra. Í úrskurðinum kemur einnig fram að auk eins úr hópi kvartenda hafi könnunin náð til níu einstaklinga til viðbótar. Fræðsla til þeirra er sömuleiðis ekki talin hafa uppfyllt skilyrði 21. greinar laganna.

Í yfirlýsingu frá bæjarfulltrúunum þremur segir að þeir tjái sig ekki um aðra þætti sem Persónuvernd ákvað að eigin frumkvæði að kanna í tengslum við rannsókn sína á málinu en tengdust ekki kvörtun þeirra, s.s. er varðar miðlun upplýsinga milli símafyrirtækis og Hafnarfjarðarbæjar og um lögmæti þeirra sjónarmiða sem sögð eru hafa legið til grundvallar þeirri ákvörðun að kanna símanotkun starfsmanna og kjörinna fulltrúa.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: