Hafnarfjarðarhöfn: Innanríkisráðuneytið gerir athugasemdir

Innanríkisráðuneytið hefur krafið Hafnarfjarðarbæ skýringa á breyttri hafnarreglugerð.

Innanríkisráðuneytið hefur krafið Hafnarfjarðarbæ skýringa á breyttri hafnarreglugerð.

Með bréfi dags. 10. nóvember sl. gerir Innanríkisráðuneytið athugasemdir við þá ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar að breyta rekstrarformi Hafnarfjarðarhafnar úr sjálfstæðu fyrirtæki í svið sem heyri beint undir bæjarstjóra.

Hart var deilt um breytingarnar í bæjarstjórn þann 16. september sl. Þar lagði meirihlutinn fram drög að breytingum á rekstrarfyrirkomulagi hafnarinnar sem meðal annars felur í sér að stjórn hafnarinnar er sett undir bæjarstjóra. Töldu fulltrúar minnihlutans þær fyrirætlanir stangast á við meginákvæði hafnarlaga sem geri ráð fyrir stjórnunarlegu sjálfstæði hafna sem eru í samkeppnisrekstri.

Bæjarfulltrúar minnihlutans gerðu einnig athugasemd við að ekki lægju fyrir skýr markmið með breytingunum en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til fyrirspurna og umræðna kom lítið fram í bæjarstjórn sem skýrði tilgang þess að draga úr sjálfstæði hafnarinnar.

Drög að nýrri hafnarreglugerð voru samþykkt með atkvæðum meirihlutans í bæjarstjórn og send til Innanríkisráðuneytisins til staðfestingar. Á fundi bæjarráðs í gær voru lagðar fram athugasemdir ráðuneytisins. Kemur þar fram að ráðuneytið gerir athugasemdir við nákvæmlega sömu atriði í drögunum og fulltrúar minnihlutans höfðu vakið athygli á að væru í ósamræmi við gildandi lög.

Á fundi bæjarráðs í gær ítrekuðu fulltrúar minnihlutans bókun sína frá 16. september sl. og vöktu athygli á að enn hefði ekkert komið fram sem skýrði tilgang breytinganna.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: