Fæst leikskólapláss í Suðurbæ

leikskolar2Samkvæmt upplýsingum um fjölda barna á leikskólaaldri eftir skólahverfum og fjölda leikskólaplássa í viðkomandi hverfum er mikill munur eftir því hvaða hverfi innan Hafnarfjarðarbæjar um ræðir.

Í Hafnarfirði búa 1497 börn fædd á árunum 2010-2013. Flest þeirra búa á Vallasvæðinu eða 419 talsins. Næst flest börn búa í Suðurbæ eða 214 talsins. Fæst börn búa í Setbergshverfi eða 131 barn á þessu aldursbili. Fjöldi leikskóla og leikskólaplássa er sömuleiðis mjög breytilegur eftir hverfum. Flest eru plássin í Norðurbæ eða 512 talsins en fæst eru þau í Suðurbæ eða 152. Verði af lokun leikskólans við Hlíðarbraut verða leikskólaplássin í þessu skólahverfi 116 talsins.

leikskolar_3Á meðfylgjandi töflu má sjá fjölda barna eftir skólahverfum, fjölda leikskóla og fjölda leikskólaplássa. Í töflunni hefur verið gert ráð fyrir lokun leikskólans við Hlíðarbraut en samkvæmt tillögum til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016 verður þeim rekstri hætt á næsta ári.

Þegar hverfin eru borin saman með tilliti til fjölda leikskólaplássa og fjölda barna á umræddum aldri kemur í ljós gríðarlegur munur á fjölda plássa á hvert barn. Í Norðurbæ eru rúmlega þrjú pláss á hvert barn á þessu aldursbili en í því hverfi þar sem plássin eru fæst eru aðeins 0,5 pláss á hvert barn. Þau hverfi sem skera sig úr hvað fæst pláss snertir eru Suðurbær og Vellir en þar eru leikskólapláss umtalsvert færri en sem nemur fjölda barna á skilgreindum leikskólaaldri.

Í þessari samantekt er ekki gert ráð fyrir lækkun innritunaraldurs en ljóst er að ef til þess á að koma þarf að fjölga leikskólaplássum í flestum hverfum, ekki síst þar sem þau eru fæst í dag.

Upplýsingar um fjölda barna eru fengnar frá Hafnarfjarðarbæ og upplýsingar um fjölda leikskólaplássa eftir leikskólum af vef Hafnarfjarðarbæjar.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: