
Fjárhagsáætlun meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks var til umræðu í bæjarstjórn í dag
Í netútgáfu Fjarðarpóstsins kemur fram að í tillögu meirihlutans felist meðal annars hækkun á fasteignaskatti úr 0,28% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis í 0,34%. Hins vegar eigi þjónustugjöld fasteigna að lækka. Fasteignagjöld sem heimili greiða eru samsett úr fasteignasköttum annarsvegar og húsnæðistengdum þjónustugjöldum. Þessi gjöld eru vatnsgjald, fráveitugjald og sorphirðurgjald. Fasteignaskatturinn er álagður samkvæmt pólitískri ákvörðun og myndar stofn til fjármögnunar grunnþjónustunnar en þjónustugjöldin eiga aðeins að standa undir kostnaði við veitingu umræddrar þjónustu. Ef afgangur er af rekstri þessara þjónustuþátta á hann að skila sér til þjónustunotenda í formi lækkunar á þjónustugjöldum. Í stað þess að láta það gerast er gert ráð fyrir því í tillögu meirihlutans að fjárhagsáætlun að álagningarstuðull fasteignaskatts hækki úr 0,28% af fasteignamati í 0,34%.
Á Faceobooksíðu Gunnar Axel Axelssonar oddvita Samfylkingarinnar segir að í tillögum meirihlutans um forgansröðun í rekstri og þjónustu við bæjarbúa í Hafnarfirði felist ýmsar breytingar sem ekki hafi verið kynntar bæjarfulltrúum áður, m.a. veruleg hækkun á heimsendum mat til aldraðra, fækkun leikskólaplássa, lokun leikskólans við Hlíðarbraut (Kató), lokun skógardeildar leikskólans Víðivalla í Kaldárseli, niðurskurður þróunarsjóðs grunnskóla, hækkun á matargjöldum í leikskólum, samdrætti í framlögum vegna sérkennslu í grunnskólum og hækkun gjaldskráa m.a. í sundlaugum og í tónlistarskóla. Heildstætt yfirlit yfir tillögur meirihlutans hefur ekki verið birt opinberlega en í fréttatilkynningu sem send var frá Hafnarfjarðarbæ í dag er aðeins fjallað um niðurstöðutölur en hvergi vikið af forsendum tillögunnar frekar en í útsendum gögnum til bæjarfulltrúa.
Flokkar:Uncategorized