Fullyrðingar um viðhaldsþörf Kató reyndust rangar

Meirihlutinn eftir sem áður ekki reiðubúinn að gefa foreldrum skýr svör.

Meirihlutinn eftir sem áður ekki reiðubúinn að gefa foreldrum skýr svör.

Rekstur leikskólans sem í daglegu tali er kallaður Kató á rætur að rekja aftur til ársins 1930 þegar St. Jósefssystur stofnuðu barnaskóla við Suðurgötu í Hafnarfirði en starfsemi leikskóla hófst þar árið 1964. Í þeim tilgangi að þurfa ekki að draga úr þjónustu í kjölfar hrunsins gripu bæjaryfirvöld í Hafnarfirði til fjölþættra hagræðingaraðgerða, m.a. sameiningu yfirstjórnar leikskólans Kató og leikskólans Smáralundar sem staðsettur er við Brekkuhvamm. Þannig hefur yfirstjórn þessarar tveggja rekstrareininga verið sameiginleg frá árinu 2011. Almennt var álitið að með því væri framtíð þeirra beggja tryggð og þar með þjónusta við börn í þeim tveimur hverfum sem leikskólarnir hafa sinnt.

Það kom því mörgum á óvart þegar birtist frétt í vikublaðinu Hafnarfjörður í nóvember á síðasta ári þar sem fullyrt var að bæjaryfirvöld væru að undirbúa lokun leikskólans við Hlíðarbraut. Fljótlega kom þó í ljós að fréttin átti við rök að styðjast, enda fengu foreldrar verðandi leikskólabarna mjög óljós svör um hvernig innritun yrði háttað í leikskólann. Enginn virtist þó kannast við að hafa staðið að ákvörðun um lokun leikskólans, hvorki kjörnir fulltrúar né embættismenn. Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn hafa ítrekað lagt fram fyrirspurnir vegna málsins án þess að fá skýr svör.

Þann 4. maí sl. var lagt fram í fræðsluráði bréf frá foreldrum og spurningar þeirra um fyrirætlanir bæjaryfirvalda í málefnum leikskólans. Erindinu virðist ekki enn hafa verið svarað en fulltrúar meirihlutans fóru fram á að gerð yrði úttekt á húsnæði leikskólans og kannað yrði hvort hagstæðara væri að ráðast þar í viðhald eða byggja við rekstrareininguna við Brekkuhvamm og flytja starfsemi leikskólans við Hlíðarbraut þangað. Þegar kom að innritun leikskólabarna í sumar bólaði hinsvegar ekkert á úttektinni. Þrátt fyrir það var fjölda foreldra synjað um leikskólapláss á leikskólaum við Hlíðarbraut í og börn þeirra innrituð í aðra leikskóla í öðrum hverfum. Var það gert þrátt fyrir að fjórðungur leikskólaplássanna væru laus til úthlutunar og því umtalsvert færri börn í húsnæði leikskólans við Hlíðarbraut nú en verið hefur undanfarin ár.

Á síðasta fundi fræðsluráðs var loks lögð fram umbeðin úttekt á viðhaldsþörf húsnæðis Kató. Ólíkt því sem haldið hefur verið fram leiðir úttektin í ljós að aðeins sé um eðlilega viðhaldsþörf að ræða og er heildarkostnaður við viðgerðir og breytingar til samrýmis við brunaöryggiskröfur áætlaður um 6,7 milljónir króna. Inni í þeirri tölu er bygging tveggja nýrra brunahólfa, viðhald á klæðningu og girðingu umhverfis leikskólalóð og málning að utan og á þaki. Engin sambærileg úttekt var lögð fram um viðhaldsþörf annarra leikskóla í Hafnarfirði en gera má ráð fyrir að hún sé almennt töluverð.

Í ljósi þessarar niðurstöðu spurðu fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn bæjarstjóra hvort foreldrum þeirra barna sem sótt hafði verið um pláss fyrir á leikskólanum við Hlíðarbraut yrði ekki boðin tilfærsla ef þau kjósa svo. Hvorki bæjarstjóri né fulltrúar meirihlutans vildu staðfesta að það yrði gert eða frekar en áður gefa skýr svör.

Það má því allt eins gera ráð fyrir því að börn sem búa nálægt leikskólanum við Hlíðarbraut verði áfram á leikskólum utan hverfisins þrátt fyrir að þar séu fjöldi plássa til úthlutunar og vilji foreldra sé skýr.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: