
Adda María Jóhannsdóttir bæjarfulltrúi segir að svo virðist sem bæjarstjóri sjálfur eða eftir fyrirmælum meirihlutans sé farin að segja upp fólki og gera breytingar á störfum án þess að það sé rætt í þeim ráðum og nefndum sem um málin eiga að fjalla.
Um þverbak hefur keyrt í kjölfar breytinga á stjórnskipulagi bæjarins. Á eftirminnilegum fundi bæjarstjórnar þann 29. júní sl. spurðu fulltrúar minnihlutans ítrekað um áhrif breytinganna á störf embættismanna hjá bænum en fengu ekki svör. Þeir lásu svo um uppsagnir og tilfærslur á verkefnum og störfum í bæjarblaðinu, Fjarðarpóstinum.
Nú hefur leikurinn verið endurtekinn. Á fundi bæjarstjórnar í gær spurðu fulltrúar minnihlutans um það hvort frekari breytinga væri að vænta sem hefðu áhrif á störf fólks. Ekki fengust um það skýr svör og fullyrti bæjarstjóri í sínum svörum að ekki væri von á frekari uppsögnum eða breytingum. Í vefútgáfu Fjarðarpóstsins sama kvöld var hins vegar fjallað um breytingar á stöðu upplýsinga- og kynningarfulltrúa en því starfi á nú að skipta upp í tvær stöður með tilheyrandi breytingum á starfi viðkomandi starfsmanns. Óljóst er hvaðan þessar tillögur koma en þær voru ekki í upphaflegum tillögum ráðgjafa sem fóru fyrir rekstrarúttekt þeirri sem unnin var fyrir sveitarfélagið og birt í sumar.
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, Adda María Jóhannsdóttir, lét í ljós óánægju sína með þessi vinnubrögð í facebook færslu í gærkvöldi en þar segir hún „Bæjarfulltrúar minnihlutans þurfa sem sagt að lesa um meiriháttar breytingar á verkefnum og störfum innan stjórnsýslu bæjarins í fjölmiðlum.“ Aðspurð segir Adda María þessi vinnubrögð forkastanleg og svo virðist sem bæjarstjóri sjálfur eða eftir fyrirmælum meirihlutans sé farin að segja upp fólki og gera breytingar á störfum án þess að það sé rætt í þeim ráðum og nefndum sem um málin eiga að fjalla.
Flokkar:Uncategorized