Móttökumiðstöð fyrir flóttafólk?

Mynd sem Gunnar Axel birti á Facebook síðu sinni í morgun. Myndin er af bakhlið gamla spítalans.

Mynd sem Gunnar Axel birti á Facebook síðu sinni í morgun. Myndin er af bakhlið gamla spítalans.

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar viðrar þá hugmynd á Facebook að húsnæði fyrrum St. Jósefsspítala geti komið að notum sem móttökumiðstöð fyrir flóttafólk. Hann segir að leitað sé að hentugu húsnæði undir þá starfsemi og eðlilegt sé að skoða hvort byggingarnar á Suðurgötu geti nýst í þeim tilgangi.

Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði

Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði

Húsnæði spítalans hefur staðið autt í mörg ár og segir Gunnar Axel það skammarlegt hversu illa Fjármálaráðuneytið hugi að ástandi fasteignanna og umhirðu. „Í raun eru þessar byggingar hægt og rólega að drabbast niður og eyðileggjast. Í grunninn er gamla spítalabyggingin mjög falleg og virðuleg. Húsið er teiknað af Guðjóni Samúelssyni og á sér merka sögu. Það er því eiginlega með ólíkindum að áhugi ríkisins á varðveislu þess sé ekki meiri en raun ber vitni.“

Hann spyr líka hvort áhugi forsætisráðherra á merkum byggingum einskorðist við það sem hann sér út um gluggann á skrifstofunni sinni við Lækjargötu.

„Í ljósi þess mikla áhuga sem núverandi forsætisráðherra hefur sýnt verndun gamalla húsa þá finnst mér eitthvað skrítið við þann litla áhuga sem ríkið sýnir eigin fasteignum. Að sama skapi finnst mér eðlilegt að spyrja hann hvar mörk hans áhugasviðs liggja. Þurfa menningarminjar að vera í Kvosinni svo þær kveiki áhuga hjá forsætisráðherra landsins?“

Grenjavæðing í boði ríkisins
Gunnar Axel rifjar það upp að á tímabili hafi verið talað um „grenjavæðingu“ miðborgarinnar, þar sem verktakar vanræktu gömul hús og beittu þannig þrýstingi á borgaryfirvöld í þeim tilgangi að fá að byggja meira og stærra en gildandi skipulag gerði ráð fyrir. „Þetta er sem betur fer að breytast í miðborg Reykjavíkur og draugahúsunum þar fer sífækkandi. Á sama tíma stendur hins vegar þessi stóra bygging í hjarta Hafnarfjarðarbæjar og beinlínis grotnar niður. Garðurinn umhverfis húsið er ekki hirtur og engin tilraun gerð til að halda a.m.k. ytra byrði hússins í eðlilegu ástandi. Það er neglt fyrir þá glugga sem brotna og eins og ástandið er orðið núna eru flest gler í húsinu brotin. Eins og gerist óhjákvæmilega með yfirgefnar byggingar þá virðast skemmdarvargar líta á húsið sem kjörinn vettvang til athafna og eru flestir útveggir t.d. orðnir útkrotaðir og ljótir. Í raun hagar ríkisvaldið sér með sama hætti gagnvart þessum húsum og fasteignabraskararnir gerðu í tilfelli draugahúsanna í Reykjavík. Hver skýringin er veit ég hins vegar ekki. Kannski fellur Hafnarfjörður bara utan þess þrönga sjóndeildarhrings sem áhugi æðstu stjórnenda ríkisins spannar“.

En af hverju móttökumiðstöð fyrir flóttafólk?
„Það er ein hugmynd sem ég hef heyrt að yfirvöld þess málaflokks hafi skoðað. Líkt og aðrar góðar hugmyndir sem fram hafa komið um nýtingu eignanna skilst mér að þessi hafi samstundis verið slegin út af borði fjármálaráðuneytisins sem fer með eignarhald ríkisins á byggingunni. Ég vil vita hvers vegna?“ segir Gunnar Axel

„Það held ég að sé alveg ljóst að það vantar að koma upp öflugri móttökumiðstöð fyrri flóttafólk og hælisleitendur á Íslandi. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa þegar lýst fyrir vilja til að koma í auknum mæli að þeim málaflokki. Ég sé alveg fyrir mér að miðstöð slíkrar starfsemi geti verið í Hafnarfirði og jafnvel þjónusta við landið í heild á ákveðnum sviðum. Það held ég að sé allavega eitthvað sem er þess virði að skoða.“ segir Gunnar Axel sem ætlar að kalla eftir svörum frá ríkinu vegna málsinsFlokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: