Bæjaryfirvöld hunsa athugasemdir innanríkisráðuneytisins

Ráðuneytið segir fyrirhugaðar breytingar á rekstri Hafnarfjarðarhafnar ekki í samræmi við ákvæði hafnalaga.

Ráðuneytið segir fyrirhugaðar breytingar á rekstri Hafnarfjarðarhafnar ekki í samræmi við ákvæði hafnalaga.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sem lögð voru fram á fundi forsetanefndar Hafnarfjarðarbæjar í gær hafa bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og innanríkisráðuneytið gert athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi Hafnarfjarðarhafnar sem meirihluti bæjarstjórnar hefur samþykkt að ráðast í.

Á fundi þann 29. júní sl. samþykkti meirihlutinn að gera breytingar á rekstrarformi hafnarinnar og færa rekstur hafnarinnar beint undir bæjarstjóra. Þá var sömuleiðis samþykkt að hafnarstjórn skyldi framvegis heita hafnarráð og vera hluti af almennri stjórnsýslu sveitarfélagsins. Í fundargerð forsetanefndar kemur fram að minnihlutinn hafi ítrekað bent á að þessar fyrirætlanir stangist á við ákvæði hafnalaga og nú hefur innanríkisráðuneytið sent bæjaryfirvöldum formlegt erindi þar sem það er staðfest.

Í erindi ráðuneytisins segir m.a. að það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í nýjum drögum að hafnarreglugerð fyrir Hafnarfjarðarhöfn samrýmist ekki ákvæðum hafnalaga. Í athugasemdum sem starfmaður ráðuneytisins sendi bæjaryfirvöldum og fylgja með fundargerð forsetannefndar segir að almennt séu fyrirhugaðar breytingar til þess fallnar að gefa bæjarstjórn aðgang að daglegum rekstri hafnarinnar. Telur ráðuneytið það ganga þvert á tilgang laganna um aðskilnað stjórnar fyrirtækisins frá annarri stjórn sveitarfélagsins. Þá segir í athugasemdunum að Hafnarfjarðarhöfn sé ein af þeim höfnum hérlendis sem eigi í mestri samkeppni og því eigi þessi sjónarmið við um Hafnarfjarðarhöfn umfram aðrar hafnir. Niðurstaða ráðuneytisins er að reksturinn hafnarinnar eigi því ekki heima með öðrum sviðum bæjarins.

Þá bendir ráðuneytið á að samþykktir sveitarfélagsins geti ekki byggt á öðru en gildandi lögum og reglum. Því geti bæjarstjórn ekki vísað til óstaðfestrar reglugerðar í samþykktum sínum líkt og gert er ráð fyrir í drögum að nýrri samþykkt fyrir Hafnarfjarðarbæ.

Þrátt fyrir athugasemdir ráðuneytisins og tillögu minnihlutans um annað verklag leggur meirihlutinn til efnislega sömu breytingar og áður voru fyrirhugaðar. Síðari umræða um breytingarnar mun fara fram í bæjarstjórn á morgun miðvikudaginn 16. september.

Fundagerð forsetanefndar má nálgast hér ásamt fylgigögnumFlokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: