Strandgatan: Síldin frá Norðurbakkanum

redherringÁ Strandgötunni er fátt meira rætt þessa dagana en launahækkun bæjarstjórans og hagræðingaraðgerðir nýs meirihluta. Flestum þykir það skjóta skökku við að á sama tíma og reynslumiklu fólki er sagt upp störfum fái bæjarstjórinn hátt í 30% launahækkun. Meirihlutinn segir nýja bæjarstjórans hins vegar verðugan launa sinna og benda á ráðgjafakostnað í tíð fyrri meirihluta. Undir Gafli á Strandgötunni stöldruðu einhverjir eftirtektarsamir vegfarendur við það atriði og veltu fyrir sér orsakasamhenginu.

Launahækkun bæjarstjórans er ekki nýtt mál. Fyrir ári síðan gagnrýndu fulltrúar minnihlutans þessa ráðstöfun harkalega, sögðu hækkunina vera úr öllum takti við almenna launaþróun og ekki í neinu samræmi við það sem öðru starfsfólki bæjarins stæði til boða. Meirihlutinn þvertók þá fyrir að laun bæjarstjórans væru í raun að hækka svo mikið sem fullyrt var. Til að fá úr því skorið hver hin eiginlega launahækkun var virðast fulltrúar minnihlutans nú hafa ákveðið að kalla eftir upplýsingum um raunútgjöld vegna embættis bæjarstjóra fyrstu sex mánuði þessa árs samanborið við sama tímabil árið 2014. Þær upplýsingar virðist nokkuð skýrar og staðfesta að launakostnaður vegna embættisins hefur aukist um 27,7 prósent á milli ára.

Síðastliðinn laugardag kom Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar fram í fréttum Stöðvar 2 og gagnrýndi meirihlutann fyrir athæfið og sagði aukinn launakostnað vegna embættis bæjarstjóra jafngilda árslaunum margra almennra starfsmanna. Á Sunnudaginn mætti Rósa Guðbjartsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins svo í fréttir og talaði máli meirihlutans. Þeir sem fylgst hafa með hafnfirskri bæjarpólitík hrukku eflaust ekki í kút við tilsvör Rósu sem beitti sinni gamalkunnu en skilvirku aðferð við slíkar aðstæður, svaraði litlu en leiddi þess í stað umræðuna á allt önnur og „hentugri“ mið. Í stað þess að ræða launakjör bæjarstjórans og þær upplýsingar sem liggja fyrir í því máli talaði hún um kostnað við endurfjármögnun langtímalána sveitarfélagsins á síðasta kjörtímabili. Og það svínvirkaði. Fréttin sem út úr því kom fjallaði um ráðgjafakostnað fyrri meirihluta og minnst um laun bæjarstjórans. Og þar með hafði Rósa afgreitt umræðuna, með því að benda á eitthvað allt annað.

Þessi aðferðafræði er vel þekkt í heimi stjórnmálanna og yfirleitt reynst býsna skilvirkt vopn þeirra sem eru í varnarstöðu á þeim vígvelli. Í heimspekinni er þessi aðferð skilgreind sem formleg rökvilla. Algengasta heitið á þessari tegund rökvillu, þar sem viðkomandi ver sig með því að innleiða nýtt umræðuefni er Rauð síld, (e. Red herring). Sagt er að heitið sé tilkomið vegna þess að fyrr á tímum hafi reykt og söltuð síld verið notuð í þeim tilgangi að villa um fyrir veiðihundum.

Dæmi um notkun á þessari aðferð er þegar ráðherra er spurður um eitthvað sem snýr að stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hann situr í eða atburði líðandi stundar, til dæmis um efnahagsástandið í dag, en hann svarar með því að ræða um vonda efnahagsstjórn fyrri ríkisstjórna og varpar þannig fram gagnrýni á þær í stað þess að svara þeirri spurningu sem fyrir hann er lögð. Þannig hefur viðkomandi fært umræðuefnið yfir á andstæðinginn og komið sér um leið undan því að svara erfiðri spurningu. Algjörlega óháð því hvernig fyrri ríkistjórnir stóðu sig, hvort sem þær stóðu sig vel eða illa, breytir það í reynd engu um þá spurningu sem beint var að honum. Því miður virðast fjölmiðlar oft falla fyrir þessu bragði. Í slíkum aðstæðum er eðlilegt að fréttamaður einfaldlega endurtaki spurningu sína orðrétt og fylgi þannig upphaflegu umfjöllunarefni eftir . Sá sem beitir þessari aðferð veðjar þó í raun á að fréttamaðurinn geri það alls.

Á Íslandi hefur rauða síldin gengið undir heitinu smjörklípa, eða smjörklípuaðferð. Höfundur þeirrar nafngiftar er enginn annar en Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra en hann notaði aðferðina óspart á sínum ferli. Spurður um þær aðferðir sem höfðu gagnast honum best i pólitík sagði Davíð sögu af frænku sinni fyrir vestan sem hafði þann sið að klína smá smjörklípu á heimilisköttinn þegar þörf var á að halda honum uppteknum smá tíma.

Á Strandgötunni voru menn engu nær um hvers vegna laun bæjarstjórans voru hækkuð um tugi prósenta en rifjuðu upp texta sem Megas söng eitt sinn í samnefndu lagi á plötunni Rás 5-20 með Ikarusi, „svo skal böl bæta að benda a eitthvað annað“.

launaþrællinn hnígur niður
lafmóður með ægilegan sting
og lánskjaravísitalan
hverfur útvið sjóndeildarhring
en ástandið í Póllandi
fer hríðversnandi dag frá degi
það dylst þeim ekki sem er hér
við hungurmörk svo ég held ég bara þegi
ég veit ekki betur en það sé sýnt og sannað
að svo skal böl bæta að benda á eitthvað
annað

fjögur ár líða
og loks er allt endanlega í steik
og loforðin fínu
þau reyndust öll tómt djöfulsins feik
þá fréttirðu það hungraður
með húsfylli af konu og krökkum
að horfur fari versnandi
hjá þrælunum á Volgubökkum
þú flettir Mogganum og ég sé að það er sannað
að svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað

höfundur: MegasFlokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: