Leikskólar: lausum plássum ekki úthlutað

Fulltrúar minnihlutans gerðu tillögu um að lausum plássum yrði ráðstafað frá og með þessu hausti til barna fæddum í mars og í apríl eftir því sem plássin leyfðu.

Fulltrúar minnihlutans gerðu tillögu um að lausum plássum yrði ráðstafað frá og með þessu hausti til barna fæddum í mars og í apríl eftir því sem plássin leyfðu.

Hart var tekist á um tillögur meirihluta og minnihluta um innritun leikskólabarna á fundi bæjarráðs sem fram fór í gær. Í fundargerð ráðsins kemur fram að ekki eigi að úthluta þeim 30-40 lausu leikskólaplássum sem eru til staðar þrátt fyrir lokanir leikskóla og aðrar aðgerðir sem ráðist hefur verið í undanfarin misseri.

Í fréttatilkynningu sem fulltrúar meirihlutans sendu út eftir fundinn er því haldið fram að bæjarráð hafi samþykkt lækkun á innritunaraldri leikskólabarna. Engin tillaga var hins vegar gerð um slíkt að hálfu fulltrúa meirihlutans í ráðinu. Í tillögunni sem samþykkt var felst að dregin verði til baka fyrri ákvörðun meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks um að hækka innritunaraldur leikskólabarna, sem staðfest var í tengslum við samþykkt fjárhagsáætlunar í desember sl.

Samkvæmt ákvörðun bæjarráðs í gær verður börnum fæddum í janúar og febrúar 2014 boðið pláss á leikskólum frá og með þessu hausti en sl. haust var fylgt sama aldursviðmiði auk þess sem enn yngri börn fengu pláss eftir því sem þau reyndust laus til ráðstöfunar. Samkvæmt tillögu meirihlutans verður því verklagi ekki fylgt framvegis og má því segja að í reynd muni innritunaraldur hækka lítillega frá fyrra ári en ekki lækka.

Fulltrúar minnihlutans gerðu tillögu um að þau pláss sem sannanlega eru til staðar og laus til úthlutunar verði nýtt til þess að bjóða foreldrum barna fæddum í mars og apríl pláss frá og með september nk. Sú tillaga var felld af fulltrúum meirihlutans í bæjarráði.

6 tíma gjaldfrjáls leikskóli fyrir suma
Á fundinum var jafnframt tekin fyrir tillaga fulltrúa meirihlutans um að hefja innleiðingu tilraunaverkefnis um svokallaðan „sex tíma gjaldfrjálsan leikskóla“. Töluvert var fjallað um tillöguna fyrst þegar hún var kynnt af hálfu meirihlutans sl. vor en litlar sem engar útskýringar fylgdu henni þá sem gátu skýrt út hvernig framkvæmd hennar ætti að vera háttað. Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að ætlunin sé að foreldrar þeirra barna sem hafa börn sín í 6 klukkustundir eða skemur hvern dag greiði engin leikskólagjöld en gjöld annarra foreldra verði óbreytt. Það þýðir að gjöld vegna þeirra barna sem eru 7-8 klukkustundir verði óbreytt frá því sem nú er.

Fulltrúar minnihlutans gagnrýndu hugmyndina í bókun sinni og telja hana bæði órökstudda og öll gögn skorti sem sýnt geti hver möguleg áhrif hennar geti orðið fyrir mismunandi tekjuhópa foreldra, sem og á stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Þá gagnrýna þeir forgangsröðun meirihlutans sem þeir telja að komi fyrst og fremst til móts við afmarkaðan hóp tekjuhærri fjölskyldna. Í bókun þeirra kemur fram að mikilvægt sé að lækka leikskólagjöld en þær lækkanir eigi að ná til allra foreldra en ekki aðeins sumra. Tillagan var á endanum samþykkt með atkvæðum fulltrúa Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: