Skólasamfélagið viðurkenni tvö heimili

Adda María Jóhannsdóttir fulltrúi Samfylkingarinnar í fræðsluráði segir mikilvægt  að skólakerfið taki mið af margbreytileika fjölskyldugerða með hagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi.

Adda María Jóhannsdóttir fulltrúi Samfylkingarinnar í fræðsluráði segir mikilvægt að skólakerfið taki mið af margbreytileika fjölskyldugerða með hagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi.

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna lögðu í gær fram tillögu í fræðsluráði um að mótaðar verði verklagsreglur um samstarf leik- og grunnskóla við foreldra barna sem eiga tvö heimili.

„Í nútímasamfélagi geta fjölskyldugerðir verið margbreytilegar og staðreyndin er að stór hluti barna á tvö heimili“ sagði Adda María Jóhannsdóttir, fulltrúi Samfylkingar í fræðsluráði, þegar við náðum af henni tali. „Þrátt fyrir að forsjá sé almennt sameiginleg við skilnað fara samskipti skóla að mestu leyti í gegnum lögheimili barnsins. Dvalartími barns á hvoru heimili getur verið misjafnt eftir því hvað hentar hverri fjölskyldu en sífellt er algengara að börn dvelji til jafns á báðum heimilum“, segir Adda María. „Það er því mikilvægt að skólakerfið viðurkenni og komi til móts við þessar aðstæður með því að hafa ákveðna stefnu og verkferla sem unnið er eftir.“

Adda María bendir á að samkvæmt reglugerð beri skólum að eiga samstarf við foreldra og tryggja nemendum öryggi og vellíðan. Á sama hátt sé það á ábyrgð foreldra að fylgjast með námsframvindu barna sinna og eins skulu þeir fá tækifæri til að taka þátt í námi þeirra og skólastarfinu. „Mikilvægt er að skapa þær aðstæður að auðvelt sé að uppfylla skilyrði. Til að stuðla að velferð nemenda þarf skólakerfið að styðja við foreldra og starfsfólk skólanna.“ Hún leggur áherslu á að ábyrgðin á upplýsingamiðlun milli heimila eigi ekki að liggja á herðum barns, einstaka kennara eða starfsmanns.“

Tillagan gengur út á að mótuð verði fjölskyldustefna fyrir leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar sem taki mið af margbreytileika fjölskyldugerða með hagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi. Mótaðar verði verklagsreglur um samstarf leik- og grunnskóla við foreldra barna sem eiga tvö heimili.

Í tillögunni kemur fram að með þessu viðurkenni Hafnarfjörður formlega aðstæður barna sem eiga tvö heimili og skuldbindi sig til að laga skólakerfið að því. Þannig verði bæði foreldrum og starfsfólki skóla gert kleift að uppfylla skyldur sínar varðandi gott samstarf og samráð milli foreldra og skóla um nám nemenda og stuðlað að gagnkvæmu trausti allra aðila í skólasamfélaginu.

Tillögunni var vísað til stýrihóps um endurskoðun skólastefnu Hafnarfjarðar og verður fróðlegt að sjá hvernig henni reiðir af.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: