Eitt ár í pólitík

Adda María Jóhannsdóttir kom ný inn í bæjarstjórn  Hafnarfjarðarbæjar sumarið 2014.

Adda María Jóhannsdóttir kom ný inn í bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar sumarið 2014.

Nú er rétt um ár síðan ný bæjarstjórn tók til starfa í Hafnarfirði og með henni nýir bæjarfulltrúar. Adda María Jóhannsdóttir er ein þeirra en hún var kjörin í bæjarstjórn fyrir Samfylkinguna. Hún segir árið hafa verið lærdómsríkt og skemmtilegt en vill sjá meiri samstarfsvilja og lýðræðislegri vinnubrögð.

„Árið hefur verið lærdómsríkt og skemmtilegt“ segir Adda María. „Málin eru vissulega mörg og ólík en þetta tækifæri hefur gefið mér alveg nýja sýn á margt í bænum okkar. Ég sé líka betur og betur hversu mikilvæg þátttaka bæjarbúa er og hvet alla til að fylgjast vel með málum. Á heimasíðu bæjarins er að finna fréttatilkynningar og fundargerðir frá fundum í ráðum og nefndum sem getur verið athyglisvert að fylgjast með.“ segir Adda María og heldur áfram „Þetta sannaðist best með því hvernig foreldrar leikskólabarna náðu að snúa ákvörðun meirihlutans um inntökualdur á leikskóla.“

Jómfrúarræðan í bæjarstjórn sumarið 2014

Jómfrúarræðan í bæjarstjórn sumarið 2014

Við spurðum Öddu Maríu hvað hefði verið skemmtilegast á árinu.

„Skemmtilegast er að fá þetta tækifæri til að kynnast nýju fólki og reyna að vinna gagn. Ég hef átt mörg símtöl og tölvupóstsamskipti við fólk vegna ýmissa mála og það er gott. Ég tel afar mikilvægt að hlusta á bæjarbúa og að fólk finni að það geti auðveldlega sett sig í samband við kjörna fulltrúa og þeim sé svarað. Ég hef lagt mig fram við að svara öllum erindum sem mér berast eða vísa þeim áfram á aðra staði ef ég get ekki leyst úr þeim eða svarað.“ Þá segir hún samstarfið innan Samfylkingarinnar í Hafnarfirði gott. „Það varð töluverð endurnýjun í okkar hópi og það er mikill kraftur og gleði í starfinu.“ Hún segir hópinn vinna þétt og vel saman og að baklandið sé gott.

En það er væntanlega ekki allt skemmtilegt. „Nei, svo sannarlega ekki. Það er auðvitað aldrei gaman að lenda í átökum með mál en samt sem áður óhjákvæmilegt. Áherslur og hugmyndafræði flokka og fólks eru ólíkar og því hljóta alltaf að verða einhverjir árekstrar.“ Hún leggur þó áherslu á lýðræðisleg vinnubrögð og opna umræðu því einungis þannig sé hægt að auka traust milli aðila. „Því miður höfum við ekki alltaf upplifað það í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Mér hefur t.d. fundist skorta mikið upp á það að fulltrúar sem sitja í minnihluta séu upplýstir um mál sem eru í gangi. Það er erfitt að vinna við þær aðstæður að vera sífellt á varðbergi til að missa ekki mikilvæg mál framhjá sér.“ Hún telur slík vinnubrögð ekki dæmi um „nýja pólitík“ sem mikið hefur verið kallað eftir heldur miklu frekar afskaplega gamalkunna og gamaldags valdapólitík sem ekki sé líkleg til árangurs.

Úr kosningabaráttunni vorið 2014

Úr kosningabaráttunni vorið 2014

Hvernig sérðu framhaldið? „Við stöndum bara áfram vaktina og fylgjum okkar sannfæringu með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi.“ Hún segir að þrátt fyrir að gengi flokksins hafi ekki verið sem skyldi í síðustu kosningum þá væri boðskapurinn mikilvægari nú sem aldrei fyrr. „Það er gjarnan vísað í norræna módelið og velferðarsamfélög Norðurlandanna þegar leitað er að fyrirmyndum. Þar er jafnaðarstefnan grunnstefið. Jöfn tækifæri og jöfn réttindi fyrir alla. Samfylkingin byggir líka á grunni lýðræðislegra umbóta, félagshyggju og kvenfrelsis. Það eru mínar einlægu hugsjónir og fyrir þær hugsjónir mun ég vinna“ segir Adda María að lokum.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: