Upptaktur að niðurskurði

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar segist óttast það sem framundan er hjá nýjum meirihluta

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar segist óttast það sem framundan er hjá nýjum meirihluta

Í gær kynnti Haraldur L. Haraldsson bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar skýrslu sína um fjárhagsstöðu bæjarins. Á forsíðu Fréttablaðsins í dag er frétt sem byggir á kynningu bæjarstjórans og samanburðardæmum um útgjöld ólíkra fjölskyldustærða eftir sveitarfélögum. Þar segir að Hafnarfjarðarbær sé dýrasta sveitarfélagið en Reykjavík það ódýrasta.

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn segir það alveg rétt að þjónustugjöld, sérstaklega þau sem leggjast á barnafjölskyldur séu of há í Hafnarfirði.

„Það eru hins vegar engin ný tíðindi og fulltrúar allra flokka boðuðu breytingar þar á fyrir síðustu kosningar. Við settum verkefni á oddinn í okkar kosningabaráttu vegna þess að við vissum að þarna þyrftum við að taka málum eftir nokkur erfið ár eftir hrun. Það var tímabil sem gaf því miður ekki ekki svigrúm til slíkra breytinga“

Gunnar Axel segir að fyrri meirihluti hafi lagt höfuðáherslu á að vernda grunnþjónustuna á þessum erfiðleikatímum og forðast beinan niðurskurð, t.d. lokanir á leikskólum eða annarri þjónustu. „Þvert á móti var plássum fjölgað umtalsvert og nýr leikskóli opnaður. Í mínum huga var það rétt stefna og ég skil ekki að í dag þegar við erum komin svona langt og aðstæður allt aðrar og miklu betri þá skuli nýr meirihluti vera með niðurskurðarhnífinn á lofti.“ segir Gunnar Axel

Varðandi skýrslu bæjarstjórna og þau samanburðardæmi sem hann kynnti á fundi bæjarstjórnar í gær segir Gunnar Axel að þar hafi verið farið býsna frjálslega með staðreyndir. Hann segir það vekja athygli að bæjarstjórinn hafi valið að hafa þessi dæmi ekki í sjálfri skýrslunni og spyr hvort að hann hafi með því verið að forðast gagnrýni. Þessir punktar komu eingöngu fram í glærukynningu bæjarstjórans en bæjarfulltrúar fengu hvorki afrit af henni né fengu að sjá útreikninga sem lágu að baki þeim.

Það vekur athygli að í þeim tilbúnu samanburðardæmum sem bæjarstjórinn hannaði eru tekjur í öllum tilvikum ákvarðaðar hærri en sem nemur þeim viðmiðum sem sett eru til grundvallar veitingu viðbótarafsláttar af leikskólagjöldum í Hafnarfirði. Það hefur afgerandi áhrif á heildarsamanburðinn, enda eru aðeins tvö sveitarfélög af þeim sem notuð eru í samanburðinum sem hafa slíkt afsláttarkerfi, þ.e. Hafnarfjörður og Mosfellsbær.

Í samanburðinum er einnig miðað við sama fasteignamat húsnæðis af tiltekinni stærð og gerð og greiddur fasteignaskattur reiknaður á þeim grunni þrátt fyrir að það liggi fyrir að í reynd sé fasteignamat mjög breytilegt á milli samanburðarsveitarfélaganna. Þannig er til að mynda gert ráð fyrir að fasteignamat 117,5 fermetra íbúðar í Garðabæ sé 25 milljónir króna. Einföld leit eftir íbúðum af þessari stærð á fasteignavef Mbl.is leiðir hins vegar strax í ljós að fasteignmat þeirra er umtalsvert hærra, eða í kringum 35 milljónir. Þar sem að greiddir fasteignaskattar eru ákvarðaðir sem margfeldi fasteignamats og álagningarstuðuls má því ætla að þrátt fyrir að opinber stuðull sé lægri í Garðabæ en t.d. Kópavogi og Hafnarfirði, þá séu fasteignagjöld þar í reynd hærri en í báðum þessum sveitarfélögum.

Gunnar Axel segir skrítið að bæjarstjórinn, sem í öðru hverju orði taki það fram að hann sé reyndur sérfræðingur og fagmaður í slíkum greiningum, skuli ekki taka tillit til svo augljósra þátta í sínum samanburði. „Það vekur upp spurningar um tilgang þessar skýrslu“ segir Gunnar Axel

Gunnar Axel segir aðalatriðið að það þurfi að ná raunverulegri samstöðu um að lækka álögur á barnafjölskyldur. „En þessi samanburður er hvorki faglegur né sanngjarn. Hann er settur fram í þeim tilgangi að blása upp vandamál sem síðan á að ráðast í að leysa. Ég óttast það að með þessu eigi að réttlæta pólitískar áherslubreytingar þar sem grunnþjónustan lendir undir niðurskurðarhnífnum. Við höfum séð merki þess nú þegar t.d. með lokunum á leikskólum og fækkun leikskólaplássa og því miður er takturinn hjá þessum meirihluta þannig að það er full ástæða til að óttast framhaldið.“ segir Gunnar Axel að lokumFlokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: