Vilja mála regnboga í miðbænum

Bersinn - félag Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði vill fá að mála regnbogafána hinsegin fólks á áberandi stað í miðbæ Hafnarfjarðar.

Bersinn – félag Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði vill fá að mála regnbogafána hinsegin fólks á áberandi stað í miðbæ Hafnarfjarðar.

Bersinn – félag Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði vill fá að mála regnbogafána hinsegin fólks á áberandi stað í miðbæ Hafnarfjarðar. Félagið hefur sent erindi þess efnis til Hafnarfjarðarbæjar. Óskar Steinn Ómarsson, formaður félagsins, segir markmiðið vera að vekja athygli á ákvörðun bæjarstjórnar um að bjóða upp á hinseginfræðslu í grunnskólum Hafnarfjarðar.

Í bréfinu segir meðal annars: „Sem minnisvarða um brautryðjendastarf Hafnarfjarðar í málefnum hinsegin fólks vilja Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði fá úthlutað vegg á áberandi stað í Hafnarfirði og mála hann í litum baráttufána hinsegin fólks.“

Óskar Steinn segir að Hafnarfjörður sé góður bær fyrir hinsegin fólk.
„Hafnarfjörður var fyrsta sveitarfélagið á landinu til þess að ákveða að ráðast í sérstaka eflingu hinseginfræðslu í grunnskólum. Hafnarfjörður er opið samfélag sem tekur vel á móti hinsegin fólki. Af því getum við verið stolt. En við megum ekki gleyma að fyrir jöfnum tækifærum allra þarf að berjast hvern einasta dag. Þetta verkefni er liður í því.“

Þá segir Óskar að með því að mála stóran regnbogafána í Hafnarfirði gæti bærinn markaðsett sig sem hinsegin bæ og sent um leið sterk pólitísk skilaboð.
„Við værum að lýsa yfir stuðningi við hinsegin fólk um allan heim sem verður fyrir aðkasti, mismunun og ofbeldi á hverjum einasta degi.“

Í bréfinu segir að Bersinn sé reiðubúinn til að gefa vinnuna ef bærinn úthluti félaginu vegg við hæfi. Óskar segist vona að bærinn verði við beiðni félagsins.

„Við vonum að bæjaryfirvöld vilji hjálpa okkur að mála stærsta regnbogafána landsins í Hafnarfirði,“ segir Óskar að lokum.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: