Tekur frí frá pólitík til að rokka

Dúkkulísur standa í stórræðum þessa dagana með nýtt lag, tónleikum í Hörpu og heimildarmynd um hljómsveitina.

Dúkkulísur standa í stórræðum þessa dagana með nýtt lag, tónleikum í Hörpu og heimildarmynd um hljómsveitina.

Adda María Jóhannsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, er Dúkkulísa og tekur sér vikufrí frá pólitík til þess að sinna tónlistinni. Dúkkulísur standa í stórræðum þessa dagana með nýtt lag, tónleikum í Hörpu og heimildarmynd um hljómsveitina.

Við hittum Öddu Maríu yfir kaffibolla í blíðviðrinu síðustu helgi og spurðum hana hvað stæði til hjá Dúkkulísum. „Framundan er mikið prógram enda höfum við verið með margt á prjónunum“ sagði hún.

„Okkur hafði lengi langað til að festa sögu hljómsveitarinnar á filmu og þegar hljómsveitin fagnaði 30 ára afmæli árið 2012 fannst okkur ekki hægt að bíða lengur og fórum að skoða þetta fyrir alvöru. Draumurinn varð þó ekki að veruleika fyrr en í desember það ár þegar okkur hlotnaðist styrkur frá Hlaðvarpanum sem varð til þess að við gátum byrjað vinnuna.“

Hún segir frá því hvernig hugmyndin gerjaðist fram á árið 2013 og tók á sig skýrari mynd. „Við fórum í upptökuleiðangur til Færeyja þar sem við tókum upp nýtt lag í Studio Bloch. Myndin er í raun ferðasagan og inn í hana tvinnast saga hljómsveitarinnar með viðtölum við vini og samferðafólk í gegnum tíðina. Sagan er þannig sögð í máli og myndum, nýtt í bland við gamalt“ segir Adda María. „Við fengum til liðs við okkur kvikmyndagerðarkonurnar í Bergsól og þær festu þetta allt á filmu.“ Svona verkefni hlýtur að kosta heilmikið, er það ekki? „Jú aldeilis. Við vorum svo heppnar að fá þennan styrk í upphafi sem kom okkur af stað en meira þurfti til. Lokahnykkinn höfum við svo verið að vinna í gegnum Karolinafund. Áhugasamir geta enn lagt verkefninu lið með því að fara inn á þá síðu sem er aðgengileg í gegnum facebook síðu heimildamyndarinnar Konur Rokka.“

Kvennasköp í Viðey

Kvennasköp í Viðey

Myndin verður frumsýnd á RÚV þann 19. júní nk. en sá dagur hefur tengst hljómsveitinni í gegnum tíðina. „Já, við höfum gjarnan gert mikið úr þessum degi, gefið út lög og haldið tónleika. Afmælisárið 2012 héldum við t.d. Kvennasköp í Viðey sem var stórskemmtileg uppákoma þar sem konur tróðu upp með ljóðalestri, fróðlegum erindum, tónlist og gamanmálum. Þegar við komum heim úr Færeyjarferðinni þann 19. júní í fyrrasumar héldum við konuboð á Seyðisfirði og spiluðum m.a. nýja lagið okkar. Okkur þykir líka afskaplega vænt um að RÚV ætli að sýna myndina akkúrat á þessum degi – það er okkur mikilvægt.

Og næsta vika er stór vika hjá Dúkkulísum. „Já, heldur betur. Við fljúgum austur á Egilsstaði á mánudagsmorgun og verðum þar í tvo daga við æfingar og undirbúning ásamt því að forsýna heimildarmyndina Konur Rokka í Hótel Valaskjálf. Við ætlum að bjóða vinum og vandamönnum þar eystra til að koma og fagna útgáfu myndarinnar með okkur.“ Þær stefna svo á að fljúga aftur í bæinn þann 17. júní og þá taka við frekari æfingar, forsýning í Bíó Paradís og loks hátíðartónleikar í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna í Hörpu sem einnig verða sendir beint út á RÚV. Við báðum Öddu Maríu um að segja okkur örlítið frá þeim tónleikum. „Þetta verður mjög flott konsept“ segir hún. „Okkar ástsælustu karlsöngvarar munu syngja lög eftir konur við undirleik hljómsveitar hússins sem skipuð verður konum. Auk þess munu þrjú „comeback“ eins og þau vilja kalla það koma fram og við erum eitt af þeim.“ Hún segir Dúkkulísur þó alls ekki vera „comeback“ enda hafi þær verið að spila og gefa út tónlist reglulega síðastliðin ár. „Við spilum nú alltaf að minnsta kosti tvisvar til þrisvar á ári og stundum meira. Það fer eftir því hvað dettur inn. Við myndum sjálfsagt spila enn meira ef við byggjum allar á sama landshorninu,“ en tvær hljómsveitarmeðlima eru búsettar á Egilsstöðum. Auk spilamennskunnar í vikunni munu Dúkkulísur sinna almennum poppstjörnuskyldum eins og útvarpsviðtölum, eiginhandaráritunum og öðru sem poppstjörnur þurfa að sinna.

Skógardagurinn mikli sumarið 2014

Skógardagurinn mikli sumarið 2014

Lagið sem Dúkkulísur tóku upp í Færeyjum heitir Nú er komið miklu meira en nóg og er það komið í spilun á Rás 2. En er hægt að hlusta á það einhvers staðar annars staðar en í útvarpinu? „Já það er t.d. hægt á facebook síðu hljómsveitarinnar Dúkkulísur og einnig á facebook síðu myndarinnar Konur Rokka. Þar er líka hægt að sjá stiklu úr myndinni ásamt myndum af hljómsveitinni, bæði gömlum og nýjum.“ En er komið nóg? „Nei, langt í frá“ segir hún skellihlæjandi, „á meðan við höfum gaman af þessu og á meðan einhver nennir að hlusta þá höldum við áfram. Við höfum líka strengt þess heit að rokka saman á elliheimilinu þegar við verðum stórar. Það er svo mikil vinátta í þessari hljómsveit og það er það sem heldur okkur gangandi. Það er nefnilega aldrei komið nóg af vináttu.“

Trommandi bæjarfulltrúi

Trommandi bæjarfulltrúiFlokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: