Hjúkrunarheimili: Hafnarfjörður stenst ekki lengur samanburð

skardshlid_gaxGunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar og fyrrum formaður verkefnastjórnar um byggingu nýs hjúkrunarheimilis segir að Hafnfirðingar sem geri kröfur um eðlilegan aðbúnað á hjúkrunarheimilum þurfi að flytja í annað sveitarfélag til þess að fá slíka þjónustu.

Bygging nýs hjúkrunarheimilis stöðvuð eftir kosningar
Fyrir ári síðan var undirbúningur að byggingu nýs hjúkrunarheimilis í Hafnarfirði í fullum gangi. Þá var að störfum þverpólitísk verkefnastjórn með þátttöku fulltrúa Félags eldri borgara og Öldungaráðs sem vann samkvæmt áætlun um að nýtt heimili tæki til starfa í árslok 2015. Hönnun heimilis var þá á lokametrunum og útboð verklegra framkvæmda að hefjast.

Eitt af fyrstu verkefnum nýs meirihluta eftir kosningarnar var að stöðva verkefnið og leysa upp verkefnastjórnina. Á því ári sem bráðum er liðið frá því að sú ákvörðun var tekin hefur ekkert gerst í málinu og óvissa um framtíð verkefnisins eykst með hverjum degi sem líður.

Margra ára barátta fyrir ekki neitt
Undirbúningur að byggingu hins nýja heimilis hafði staðið yfir í mörg ár og barátta bæjarstjórnar fyrir því að fá að ráðast í löngu tímabærar umbætur á aðbúnaði íbúa á hjúkrunarheimilum í bænum enn lengur. Þverpólitísk sátt hafði einnig ríkt um verkefnið og forsendur þess að byggja nýtt heimili á grundvelli nýrrar og breyttrar hugmyndafræði í Skarðshlíð.

Samstað um nýtt heimili á nýjum forsendum
Samstaða var um að nýtt heimili skyldi rísa miðsvæðið í Skarðshlíðarhverfi og verða einn af lykilþáttum í uppbyggingu þess fallega svæðis. Í hverfinu er gert ráð fyrir fjölbreyttri uppbyggingu, þar á meðal þjónustuíbúðum, minni sérbýlum, leik- og grunnskóla og heilsugæslu.

Þaðan eru góðar tengingar t.d. við verslun, sundlaug, íþróttamiðstöð Hauka, öflugt skólasamfélag og stutt er í ósnortna náttúru. Þá er þar hafinn undirbúningur að framkvæmdum við síðari hluta Ásvallabrautar sem mun tengja svæðið við eldri hluta bæjarins og tryggja greiðar samgöngur til og frá hverfinu og hinu fyrirhugaða hjúkrunarheimili.

Í kynningarriti sem verkefnastjórnin sendi frá sér síðastliðið vor segir m.a. að hugmyndafræði hins nýja heimilis og hönnun þess falli vel að grundvallarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna í málefnum aldraðra, þar sem sérstök áhersla er lögð á að fólk njóti sjálfstæðis og möguleika til þátttöku í samfélaginu út lífið.

gaa4445 Hafnarfjörður stenst ekki lengur samanburð

Gunnar Axel Axelsson gegndi formennsku í verkefnastjórninni. Að hans sögn hefur þróun málsins leitt til þess að Hafnarfjarðarbær standi öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu stöðugt aftar í þjónustu við þann hóp sem þarf á þessu úrræði að halda.

„Það er því miður raunveruleikinn sem blasir við, að Hafnfirðingar sem gera kröfur um aðbúnað á hjúkrunarheimilum sem stenst nútímaviðmið þurfa að flytja í annað sveitarfélag til að njóta slíkrar þjónustu.“ segir Gunnar Axel

Hann bendir á að Garðarbær hafi einnig tekið þátt í átaksverkefni ríkisins um bættan aðbúnað á hjúkrunarheimilum og tekið í notkun nýtt og glæsilegt heimili árið 2013, Mosfellsbær sömuleiðis og undirbúningur að opnun nýs heimilis á Seltjarnarnesi sé í fullum gangi. Gunnar Axel segir það orðið tímabært að nýr meirihluti upplýsi bæjarbúa um fyrirætlanir sínar í þessu gríðarstóra hagsmunamáli.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: