Iðnskólinn: bæjaryfirvöld ekki upplýst

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar hefur miklar efasemdir um að sameining Iðnskólans og Tækniskólans leiði til góðs

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar hefur miklar efasemdir um að sameining Iðnskólans og Tækniskólans leiði til góðs

Starfsmenn Iðnskólans í Hafnarfirði hafa sent frá sér ályktun þar sem fyrirhugaðri sameiningu skólans við Tækniskólans er mótmælt og áhersla lögð á mikilvægi þess að Iðnskólinn í Hafnarfirði verði frekar efldur og áfram rekinn sem sjálfstæð skólastofnun. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar tók efnislega undir ályktun starfsmanna skólans á fundi sínum í gær.

Bæjarfulltrúar voru ekki upplýstir málið fyrr en á síðustu viku.

Fulltrúar minnihlutans kölluðu þá eftir því að málefni Iðnskólans yrðu sett á dagskrá bæjarráðs og leitað yrði upplýsinga um hvort sögusagnir um fyrirhugaða sameiningu skólanna ættu við rök að styðjast. Fulltrúi menntamálaráðuneytisins mætti til fundar við bæjarráð sl. fimmtudag og gerði grein fyrir málinu.

Gunnar Axel Axelsson bæjarfulltrúi segir að aðdragandi málsins og uppleggið bendi allt til þess að það sé verið að skrifa síðasta kaflann í sögu Iðnskólans í Hafnarfirði.

„Ef þetta verður niðurstaðan, að Iðnskólinn í Hafnarfirði verður sameinaður hinum einkarekna Tækniskóla eru í sjálfu sér takmarkaðir hagsmunir fyrir þann skóla að halda úti fjölbreyttu námsframboði á tveimur stöðum.  Rekstrarlega verður alltaf hagkvæmara fyrir Tækniskólann að hafa allt á einum stað,  í Reykjavík.  Menn verða líka að passa sig á að rugla ekki saman rekstrarlegum forsendum einstakra stofnana eða fyrirtækja og hagsmunum samfélagsins í heild.“

Gunnar Axel segir nær að efla Iðnskólann og tryggja honum raunhæfar rekstrarforsendur.
„Það sem þarf að gera er að styrkja verknámið og bjóða uppá góða og fjölbreytta iðn- og tæknimenntun. Leiðin til þess felst ekki í að fækka þeim fáu valkostum sem nemendur hafa á því sviði í dag. Ég vil heldur sjá Iðnskólann í Hafnarfirði fá aukinn stuðning til að geta komið enn betur til móts við þarfir samfélagsins og atvinnulífsins. „
Segir Gunnar Axel
Ályktun starfsmanna Iðnskólans:

 

Hafnarfirði, 14. apríl 2015

ÁLYKTUN

Málefni: Fýsileikakönnun um sameiningu Tækniskólans, skóla atvinnulífsins, og Iðnskólans í Hafnarfirði.

 

Eftirfarandi ályktun var samþykkt í dag á fundi Kennarafélags Iðnskólans í Hafnarfirði og starfsmanna:

 

Kennarar og starfsfólk Iðnskólans í Hafnarfirði lýsa áhyggjum sínum af fyrirhugaðri sameiningu Tækniskólans, skóla atvinnulífsins og Iðnskólans í Hafnarfirði. Starfsmenn allir sem og skólaæskan í Hafnarfirði  og nágrenni er sett í óvissu með þessu.

Mikilvægt er að gæta þess að skólinn starfi áfram sem sjálfstæð eining. Hann er rótgróinn hluti af skólasamfélagi Hafnarfjarðar til áratuga og það er brýnt hagsmunamál starfsmanna, skólaæskunnar í Hafnarfirði og bæjaryfirvalda að skólinn verði áfram starfræktur með sambærilegu námsframboði og nú er.

Skorað er á bæjaryfirvöld í Hafnarfirði að láta málið til sín taka.

Menntamálayfirvöldum er bent á að fýsileikaútreikningar og hagkvæmni stærðarinnar er ekki hinn einhlíti sannleikur.

Skorað er á hlutaðeigandi yfirvöld að vanda ákvörðun sína.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: