Þurfum að efla hinseginfræðslu

Óskar Steinn Ómarsson, formaður Bersans segir nauðsynlegt að efla hinseginfræðslu strax frá fyrsta bekk

Óskar Steinn Ómarsson, formaður Bersans segir nauðsynlegt að efla hinseginfræðslu strax frá fyrsta bekk

Ungir jafnaðarmenn í Hafnarfirði vilja efla hinseginfræðslu í grunnskólum bæjarins. Eva Lín Vilhjálmsdóttir, varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar ætlar að leggja fram tillögu þessa efnis á næsta fundi bæjarstjórnar Hafnafjarðar. Tillagan gengur út á að gera samning við Samtökin ‘78 um þróun hinsegin námsefnis og um ráðgjöf við nemendur grunnskóla.

Tillagan er lögð fram að frumkvæði Bersans – Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði. Óskar Steinn Ómarsson, formaður Bersans segir nauðsynlegt að efla hinseginfræðslu strax frá fyrsta bekk.

“Hinseginfræðsla getur gert börnum og unglingum mun auðveldara að takast á við tilfinningarnar sem tengjast kynhneigð sinni, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu,” segir Óskar og bætir við: “Það getur breytt miklu í lífi barns að það sé tilbúið að sættast við sjálft sig þegar þessar tilfinningar koma upp.”

Margir upplifa einangrun og vanlíðan

“Við vitum það alveg að börn sem passa ekki inn í normið verða oft fyrir aðkasti og upplifa vanlíðan og félagslega einangrun. Staðreyndin er sú að í samfélaginu okkar grassera enn miklir fordómar og hatursfull orðræða gagnvart hinsegin fólki, sérstaklega transfólki. Þessir fordómar samfélagsins geta vegið þungt á ungu fólki og geta í sumum tilfellum dregið það til dauða. Aukin hinseginfræðsla yrði liður í baráttunni gegn fordómum og myndi gera lífið fyrir þessi börn og unglinga talsvert skárra.”

Það tók Óskar mörg ár að uppgötva kynhneigð sína og sætta sig við hana, en hann kom út úr skápnum þegar hann var 18 ára gamall.

“Ég þekki það vel að vera í grunnskóla og finnast ég öðruvísi en hinir strákarnir,” segir Óskar og heldur áfram: “Það tók mig langan tíma að átta mig á því og sætta mig við það að ég væri samkynhneigður. Þessum tilfinningum fylgdi að sjálfsögðu mikill kvíði og stundum vanlíðan. Ég deildi þessum tilfinningum fyrst með einhverjum þegar ég var 18 ára og ég veit að margir koma ekki út úr skápnum fyrr en löngu seinna.”

Óskar segir hinseginfræðslu hafa verið verulega ábótavant þegar hann var í grunnskóla.

“Hún var engin. Þegar ég fór í kynfræðslu í grunnskóla fékk ég að heyra að kynlíf samkynhneigðra karlmanna væri “grófara” en annað kynlíf og með meiri hættu á kynsjúkdómum. Meira fékk ég ekkert að vita um samkynhneigð.”

Viðeigandi fræðsla, ráðgjöf og stuðningur getur skipt sköpum í lífi hinsegin barna og unglinga, auk þess að slík fræðsla getur unnið gegn fordómum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar ætla að gera það að tillögu sinni að farið verði í átak í eflingu hinseginfræðslu og -ráðgjöf í grunnskólum Hafnarfjarðar. Hafnarfjarðarbær leitist við að gera samstarfssamning við Samtökin ‘78 um þróun námsefnis fyrir öll stig grunnskóla, frá 1. til 10. bekkjar og sérfræðingar Samtakanna haldi námskeið fyrir alla starfsmenn grunnskóla Hafnarfjarðar. Nemendum í unglingadeildum grunnskóla verði sömuleiðis gert kleift að sækja einstaklingsráðgjöf hjá sérfræðingum Samtakanna án endurgjalds.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: