Sláandi upplýsingar um einkaframkvæmdina í Áslandsskóla

Mynd: bjsnae.is

Mynd: bjsnae.is

Áslandsskóli er alfarið í einkaeign en það fyrirkomulag má rekja til samnings sem undirritaður var þann 16. mars 2000 milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og FM húsa ehf. um svokallaða einkaframkvæmd. Málið var mjög umdeilt á sínum tíma en þáverandi meirihluti taldi að fyrirkomulagið væri afar hagstætt fyrir bæjarsjóð. Í svörum við nýlegri fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar og VG í bæjarráði kemur hins vegar fram hver kostnaður bæjarins raunverulega er.

150 milljónir á ári í húsaleigu til FM húsa ehf
Hafnarfjarðarbær leigir húsnæðið af einkafyrirtækinu FM hús ehf. og greiðir fyrir það 12,5 milljónir króna á mánuði eða 150 milljónir króna á ári á núverandi verðlagi. Í heild munu leigugreiðslur Hafnarfjarðarbæjar til FM húsa ehf. nema tæpum 4 milljörðum króna á samningstímanum en uppreiknaður áætlaður byggingarkostnaður húsnæðisins með húsgögnum og búnaði er ríflega 2,2 milljarðar.

FM hús ehf. fá um 6 milljarða á samningstímanum
Þá kemur fram að greiðslur vegna reksturs húsnæðisins bætist við mánaðarlegar leigugreiðslur en fyrirtækið FM hús ehf. sér einnig um reksturinn. Á árinu 2014 námu þær greiðslur um 64 milljónum króna. Heildargreiðslur Hafnarfjarðarbæjar til fyrirtækisins eru því áætlaðar um 216 milljónir króna á árinu 2015, sem þýðir að heildargreiðslur Hafnarfjarðarbæjar til FM húsa ehf. muni verða um 6 milljarðar króna fyrir leigu og rekstur skólahúsnæðisins á samningstímanum.

Rekstrarkostnaður hærri en í öðrum skólum
Fulltrúar minnihlutans spurðust einnig fyrir um samanburð á rekstrarkostnaði Áslandsskóla á grundvelli einkaframkvæmdarsamningsins og rekstrarkostnaði annarra grunnskóla. Í svörunum kemur fram að miðað við meðalrekstrarkostnað á hvern fermetra annarra grunnskóla sem bærinn á og rekur skeri Áslandsskóli sig úr hvað háan rekstrarkostnað snertir. Meðal þess sem kemur fram er að kostnaður við ræstingu hvers fermetra sé 65% hærri í Áslandsskóla en í öðrum skólum bæjarins og kostnaður við sorphirðu 150% hærri.

Borga skólann tvisvar en eignast ekkert
Við samningsundirritun var ekkert hugað að þeirri stöðu sem bærinn yrði í að leigutíma loknum. Eftir nokkur ár mun Hafnarfjarðarbær því að óbreyttu standa frammi fyrir fordæmalausri stöðu. Í svarinu kemur fram að þá muni Hafnarfjarðarbær hafa þrjá kosti, að kaupa húsnæðið, leigja það áfram eða byggja nýjan skóla í hverfinu. Þar sem skólinn og lóðin sem hann stendur á er alfarið í eigu FM húsa ehf. gæti það því orðið niðurstaðan að bærinn þyrfti á endanum að kaupa skólahúsnæðið fullu verði þrátt að hafa á samningstímanum greitt leigu sem samsvarar tvöföldum byggingakostnaði hans.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: