Til í að verða ráðsmaður á Bessastöðum

fusi-1423747353Gunnar Jónsson, eða Gussi eins og hann er oftast kallaður, ætti að vera flestum Hafnfirðingum kunnugur enda fæddur á Sólvangi og uppalinn á Álfaskeiðinu. Hann leikur aðalhlutverkið í nýrri kvikmynd Dags Kára, Fúsi sem er að vænta í kvikmyndahús í lok mars. Myndin var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín á dögunum og vakti hún mikla athygli. Gagnrýnendur héldu ekki vatni yfir okkar manni og voru á einu máli um að Gussi hefði sýnt einstakan leiksigur í túlkun sinni á Fúsa. Bærinn okkar tók hús á Gussa og ræddi við hann um lífið í Hafnarfirði, leiklistarbakteríuna, nýju myndina og næsta forseta Íslands.

Fékk leiklistar bakteríuna í Lækjarskóla

Hvenær heillaðist þú af leiklistinni?

„Ég gekk í Lækjarskóla og þar fékk ég bakteríuna. Við vorum með framúrstefnulega leikstjóra sem settu upp með okkur metnaðarfull stykki, meðal annars verk eftir Inesco, Sköllóttu söngkonuna og Kardimommubæinn í fullri lengd. Það var svo einn af þessum leikstjórum sem sendi mig í prufu fyrir sjónvarpsmynd sem Hrafn Gunnlaugsson var þá að gera. Ég fékk hlutverkið, kynntist Krumma vel og síðan þá hefur hann alltaf haft samband við mig þegar hann er að mynda eitthvað.“

Það hlýtur að hafa verið mikil upphefð fyrir ungling að fá svona tækifæri?

„Ég leit nú aðallega á þetta sem ævintýri. Það var magnað að fá að vinna við hliðina á þjóðargersemum sem maður var búinn að dást að á skjánum. Allt í einu stóð maður þarna við hliðina á þeim og var að leika á móti Helga Skúlasyni, Bríeti Héðinsdóttur, Agli Ólafssyni, Eddu Björgvins, Flosa Ólafssyni og þessum stóru.“

Skuldar Flensborg 4 einingar

Síðan fórstu í Flensborg ekki satt?

„Jú en það fór nú lítið fyrir náminu. Ég var rekinn tvisvar enda var ég nú ekkert mikið að mæta í tíma. Ég var svo upptekinn við partístand og félagslífið og stundaði það grimmt. Seinna skiptið þegar átti að reka mig var ég búinn að fá veður af því áður. Ég hafði frétt að Kristján Bersi væri að leita að mér svo ég ákvað að verða fyrri til og dreif mig á skrifstofuna til þess að segja mig úr skólanum. Konunni á skrifstofunni brá nú eitthvað við þetta og fór að leita að einhverjum blöðum fyrir mig að fylla út, en á meðan hún var að finna eyðublöðin náði Kristján Bersi að pikka í öxlina á mér og segja, „Viltu koma aðeins með mér inn á skrifstofu, ég þarf að ræða aðeins við þig“. Ég kláraði því aldrei neinar einingar í Flensborg, en fékk 4 mínus einingar fyrir mætingu, eða réttara sagt van-mætingu. Ég skulda því Flensborg ennþá þessar 4 einingar. Skólinn hefur nú ekkert verið að rukka mig um þær en ég er alveg tilbúinn að borga þær til baka. Ég gæti til dæmis tekið eitthvað kvöldnámskeið og skilað þeim þannig af mér. Bara spurning hvort það séu komnir einhverjir vextir á þær? En Kristján Bersi hringdi svo í mig einhverjum árum seinna, bara til að spjalla. Þá sagði hann að þó hann hafi nú neyðst til þess að reka mig, þá hafi honum alltaf verið hlýtt til mín og að ég hafi lífgað heldur betur upp á félagslífið í Flensborg.“

Úr myndinni Fúsi

Úr myndinni Fúsi

Segðu okkur aðeins frá gerð myndarinnar um hann Fúsa?

„Þetta er náttúrulega fyrsta aðalhlutverkið mitt í kvikmynd í fullri lengd. Ég er nánast í öllum atriðunum svo þetta var mikil vinna. Einn daginn vorum við að taka upp á Keflavíkurflugvelli. Það var alltaf maður með okkur en í þetta skipti ákveður hann að stytta sér leið með hópinn og fer með okkur í gegn þar sem farþegarnir fara út. Mér var svo illt í hnénu að ég dróst aftur úr og varð viðskila við hópinn. Svo labba ég þarna í gegn þegar tollvörður kemur hlaupandi til mín og spyr hvaðan ég sé að koma. Ég sagði henni að ég væri nú bara að koma ofan af plani. Hún spyr þá hvar farangurinn minn sé og ég sagði að ég hefði bara verið að taka kvikmynd. Hún trúði því nú svona rétt mátulega og gegnumlýsti mig alveg með augunum. Ef mér hefði ekki verið svona illt í hnénu hefði ég nú gert eitthvað meira sprell úr þessu og hlaupið út og látið hana elta mig. En í þetta sinn var ég þægur. Ég fór með til Berlínar þegar myndin var frumsýnd og það var mikil upplifun. Þegar ég gekk í gegnum salinn eftir sýninguna og allir stóðu upp og hrópuðu og klöppuðu og hrósuðu mér í bak og fyrir þá fékk ég bara gæsahúð.“

Til í að verða ráðsmaður á Bessastöðum

En þú hefur ekki bara verið að leika í kvikmyndum, þú varst líka lengi í gríninu?

„Já, ég var fenginn til þess að koma inn í þriðju seríu af Fóstbræðrum og var með þeim allt til enda. Ég er alltaf til í einhver fíflalæti og þetta var skemmtilegur tími, mikil keyrsla en alltaf gaman. Þarna eignaðist ég marga góða vini sem ég gæti alveg hugsað mér að vinna meira með. Þá kannski sérstaklega Jóni Gnarr ef hann verður forseti. Þá ætlast ég til þess að hann ráði mig sem ráðsmann á Bessastaði. Þetta er mikil hlunninda jörð. Ég sæi mig alveg í anda að tína æðardún fyrir Jón. Svo er fínt að róa þarna út og leggja net og svo gæti ég haldið beljur og svona.“

Finnur samhljóm á milli leiklistarinnar og náttúrunnar

Hvað er það við leiklistina sem heillar?

„Ég finn samhljóm á milli leiklistarinnar og náttúrunnar. Eins og í myndinni um hann Fúsa, þar þurfti ég að fara í gegnum alla flóru mannlegra tilfinninga. Í leiklistinni snertir maður á nístandi sorg og ólgandi kátínu, á grimmd og góðmennsku og allt þar á milli. Þetta er tilfinningur rússíbani, því allar þessar tilfinningar búa í okkur sjálfum. Það fer enginn í gegnum lífið í einhverjum bómul. Ég upplifi þetta sama í náttúrunni. Hún getur verið falleg og gefið manni orku og sköpunarkraft og svo getur hún líka verið grimm og hræðileg ef maður nálgast hana ekki með tilhlýðilegri virðingu. Náttúran er grunnurinn að allri sköpun.“

Svo náttúran hefur haft mikil áhrif á þig?

„Já, ég flutti vestur á Súðavík eftir framhaldsskólann og vann þar í frystihúsinu í tíu ár. Ég heillaðist af fjöllunum og sakna þeirrar stundum. Ég var á Súðavík þegar flóðin féllu. Það var hringt í alla í þorpinu og við beðin um að koma niður í frystihús. Ég bjó í aðeins 5 mínútna fjarlægð en það var svo vont veður að ég þurfti að stoppa tvisvar á leiðinni til að ná andanum. Þegar þangað var komið fengum við rafmagnsrör til þess að nota sem snjóflóðastangir svo við gætum reynt að leita að fólki. Við gerðum hvað við gátum en það var svo hvasst að við stóðum bara á öndinni. Þarna dóu margir vinir og kunningjar. Maður hefði kannski þurft áfallahjálp. Ég vissi bara ekkert hvað það var þá og hélt það væri kannski bara eitthvað fyrir þá sem misstu ættingja. Eftir það fór ég á sjóinn og var þar meira og minna í tvö ár. Ég leysti af menn sem þurftu frí eftir flóðin til þess að byggja upp á nýja staðnum. Síðan þá hef ég alltaf verið heillaður af sjómennskunni.“

Ég er að læra að hætta að takmarka mig og leita að jafnvægi, andlega og líkamlega. Og bara að vera í núinu og vera ekki stöðugt að velta sér upp úr fortíðinni og hafa áhyggjur af framtíðinni.

Ég er að læra að hætta að takmarka mig og leita að jafnvægi, andlega og líkamlega. Og bara að vera í núinu og vera ekki stöðugt að velta sér upp úr fortíðinni og hafa áhyggjur af framtíðinni.

Og ferðu stundum á veiðar?

„Já það er bara þannig að þegar maður er búinn að vera í landi í smá stund þá kemur köllunin, svona einhver þrá sem hellist yfir mann Í dag fæ ég útrás fyrir þessa þrá í gegnum veiðidelluna. Ég gekk í sjóstangafélag og hef verið að keppa á Íslandsmótinu í sjóstöng í nokkur ár. Í fyrra veiddi ég stærsta fiskinn og varð ég í þriðja sæti í tegundunum. Mig vantaði bara einn makríl upp á til að verða í fyrsta sæti. Þess á milli, á veturna, dunda ég mér svo við að búa til ýmislegt fyrir veiðarnar, eins og að hnýta flugur, gera túttur (gúmmíklædda öngla) og pilka. Þetta er svona ákveðin sköpun líka. Nú er ég svo að smíða vals til þess að merja harðfisk, en ég og pabbi settum upp harðfiskverkun í skúrnum hans fyrir stuttu. Svo smíðuðum við líka reykkofa til að reykja kjöt og fisk.“

Gengur á vatni

En svona að lokum, hver er æðsti draumirinn?

„Ætli það sé ekki bara að vera upplýstur. Ég er búinn að vera í starfsendurhæfingu og hef verið að prófa alls konar hugleiðslu, núvitund og sundleikfimi. Ég er að læra að hætta að takmarka mig og leita að jafnvægi, andlega og líkamlega. Og bara að vera í núinu og vera ekki stöðugt að velta sér upp úr fortíðinni og hafa áhyggjur af framtíðinni. Ég finn mikinn mun á mér og hef verið að ná miklum árangri, t.d í sundleikfiminni. Ég er allur léttari og farinn að geta gert alls konar flóknar jafnvægis æfingar á korki. Ætli maður endi ekki bara eins og Jesú og labbi á vatni.“Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: