Ungbarnaleikskólanum Bjarma lokað

Bjarmi er eini sérhæfði ungbarnaleikskólinn í Hafnarfirði. Meirihlutinn hefur ákveðið að loka honum.

Bjarmi er eini sérhæfði ungbarnaleikskólinn í Hafnarfirði. Meirihlutinn hefur ákveðið að loka honum.

Fræðsluráð samþykkti í gær tillögu meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks um útfærslu áður boðaðs niðurskurðar í rekstri leikskóla í Hafnarfirði. Tillaga gerir ráð fyrir lokun eina sérhæfða ungbarnaleikskólans í bænum en frekari aðgerðir, s.s. lokanir deilda á öðrum leikskólum eru fyrirhugaðar. Fulltrúar minnihlutans greiddu atkvæði gegn tillögu meirihlutans og segja með henni stigið skref aftur á bak í málefnum leikskólastigsins og þvert gegn vilja foreldra sem í könnunum hafa sýnt skýran vilja um að lækka inntökualdur á leikskóla.

Fyrir liggur að vegna fámennari árganga verði börn á skilgreindum inntökualdri leikskóla umtalsvert færri árið 2015 en árin tvö þar á undan í Hafnarfirði. Því var fyrirséð við gerð fjárhagsáætlunar að það myndi skapast svigrúm í rekstri leikskólastigsins, annaðhvort til eflingar þess, t.d. til þess að lækka inntökualdur og fjölga þannig börnum sem gætu fengið leikskólapláss, eða til niðurskurðar í málaflokknum.

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015 lögðu fulltrúar meirihluta og minnihluta fram ólíkar tillögur í þessum efnum. Tillaga meirihlutans um að nýta svigrúmið til þess að auka útgjöld á öðrum sviðum, m.a. til hækkunar á rekstrarframlagi grunnskóla Hjallastefnunnar, var á endanum samþykkt með atkvæðum Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks. Tillaga fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna um eflingu leikskólastigsins, m.a. um lækkun inntökualdurs, var hins vegar felld.

Í bréfi sem forsvarsaðilar ungbarnaleikskólans sendu fræðsluráði og finna má á vef bæjarins segir að leikskólinn hafi skapað sér orðspor sem faglegur leikskóli sem er leiðandi í leikskólastarfi með yngri börnum. Leikskólinn sé sömuleiðis eftirsóttur vinnustaður sem endurspeglast meðal annars í háu hlutfalli fagmenntaðra starfsmanna, en fram kemur í bréfinu að það hafi verið á bilinu 70-100 % allan þann tíma sem skólinn hefur verið starfandi. Á sama tíma hafi hlutfall fagmenntaðra starfsmanna flestra annarra leikskóla í Hafnarfirði verið töluvert mikið lægra og almennt undir því viðmiði sem sett er í lögum.

Ekki talað skýrt
Leikskólamálin voru töluvert fyrirferðamikil í umræðunni fyrir síðustu kosningar. Allir virtust þá sammála um að stefna bæri að eflingu leikskólastigsins og að unnið skyldi markvisst að því að „brúa bilið“ milli fæðingarorlofs og leikskóla. Bæði Samfylkingin og VG hafa lagt fram tillögur þess efnis á Alþingi og á sveitarstjórnarstiginu.

Eftir myndun meirihluta meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks hafa fulltrúar flokkanna ekki talað mjög skýrt í þessum efnum. Það sést best á því orðalagi sem notað er í samstarfsyfirlýsingunni sem flokkarnir kynntu í upphafi kjörtímabilsins. Þar er bæði lofað fjölgun ungbarnadeilda og eflingu dagforeldrakerfisins. Bent hefur verið á að þessi tvö stefnuviðmið vísi beinlínis í gagnstæða átt.

Eina rökrétta skýringin á þessari þversagnarkenndu yfirlýsingu virðist sú að flokkarnir hafi haft gjörólíkar hugmyndir um hvert ætti að stefna í þessum málum og niðurstaðan hafi orðið þessi furðulega málamiðlun sem skilur bæjarbúa eftir án hugmyndar um hver hin raunverulega stefna meirihlutans sé.

Með ákvörðun meirihlutans í morgun má þó segja að myndin sé að taka á sig skýrari mynd og augljóst að stefna Sjálfstæðisflokksins um að efla dagforeldrakerfið á kostnað uppbyggingar í leikskólamálum hafi orðið ofan á.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: