Fréttaskýring: Einkarekinn unglingaskóli á Völlum

Á undanförnum árum hafa komið fram ýmsar hugmyndir um skipan skólamála í Hafnarfirði. Árið 2012 var meðal annars til umræðu sú hugmynd að stofna unglingaskóla, þ.e. sérhæfðan skóla fyrir börn í efstu bekkjum grunnskólans í Áslands- og Hraunvallaskólahverfum og jafnvel víðar. Meginrökin fyrir þeirri hugmynd voru að einstaka árgangar heildstæðra skóla væru almennt ekki nægjanlega stórir til að hægt væri að bjóða uppá eins fjölbreytt námsframboð, eins sterka faggreinakennslu og þann sveigjanleika sem ella væri hægt ef fleiri börn af sama aldri væru í einum safnskóla á unglingastigi. Þá myndi stofnun unglingaskóla hugsanlega geta auðveldað bæjaryfirvöldum lausn á húsnæðisvanda sem blasti við í skólamálum í Áslandi og á Völlum.

Víðistaðaskóli í Norðurbæ er dæmi um safnskóla á unglingastigi. Mynd: Arkitekt.is

Víðistaðaskóli í Norðurbæ er dæmi um safnskóla á unglingastigi. Mynd: Arkitekt.is

Safnskólar eru nokkrir á höfuðborgarsvæðinu, m.a. Árbæjarskóli og Foldaskóli í Reykjavík en þeir taka báðir við nemendum úr fleiri skólum í viðkomandi hverfum. Víðistaðaskóli er eini safnskólinn í Hafnarfirði en hann hefur tekið við börnum í unglingadeild úr Norðurbænum.

Hugmyndin rædd á breiðum grunni
Bæjaryfirvöld efndu af þessu tilefni til málþings þar sem fulltrúar ólíkra hópa og talsmenn ólíkra sjónarmiða ræddu um safnskólahugmyndina. Frummælendur voru m.a. sérfræðingar á sviði skólamála sem höfðu reynslu af slíku fyrirkomulagi og drógu þeir fram bæði kosti og galla þess. Málþingið var haldið í Lækjarskóla þann 24. mars 2012 og var öllum opið.

Svo virðist sem m.a. hörð viðbrögð og töluverð andstaða við hugmyndina í hópi foreldra hafi orðið til þess að málið komst aldrei formlega á dagskrá. Líklega hefur það ekki þótt raunhæft að ráðast í breytingar sem kröfðust tilflutnings barna sem höfðu þá þegar hafið skólagöngu í núverandi kerfi en slíkar breytingar eru almennt taldar mjög erfiðar í framkvæmd og mæta yfirleitt mikilli andstöðu.

Þrátt fyrir að aldrei hafi verið lögð fram formleg tillaga um að fara fyrrnefnda leið í uppbyggingu skólamála á þessu svæði þá fór töluvert fyrir umræðunni og voru bæjaryfirvöld byrjuð að skoða málið út frá ýmsum hliðum, m.a. með hliðsjón af því hvort til staðar væri húsnæði sem gæti nýst undir slíkan rekstur. Kom m.a. til tals hvort tómar skrifstofubyggingar við Tjarnarvelli gætu hentað undir slíka starfsemi. Niðurstaða frumathugunar á því leiddi hins vegar í ljós að það væri varla hagkvæmt í samanburði við byggingu nýs sérhæfðs kennsluhúsnæðis, enda kostnaðurinn við breytingar húsnæðisins umtalsverður og húnæðið ekki í eigu bæjarins.

September 2013 – formlegar tillögur um skólaskipan
Í september 2013 settu fulltrúar meirihlutans í fræðsluráði fram tillögu að framtíðarfyrirkomulagi skólamála í fyrrgreindum skólahverfum, sem fólst meðal annars í byggingu og rekstri nýs skóla fyrir yngsta- og miðstig (nemendur í 1-7. Bekk) samkvæmt gildandi skipulagi við Hádegisskarð. Samhliða þeirri uppbyggingu átti að byrja að þróa Hraunvallaskóla sem safnskóla á unglingastigi fyrir hverfið í heild. Með því móti var ætlunin að byggja upp unglingaskóla á grundvelli fyrri hugmynda um sérhæfingu, fjölbreytt námsframboð og sveigjanleika án þess að gera þyrfti breytingar á skólagöngu þeirra barna sem þegar höfðu byrjað í núverandi fyrirkomulagi. Þá var lögð áherslu á að bygging leikskóla við Bjarkarvelli yrði sett í forgang en með því átti að mæta bæði aukinni þörf fyrir leikskóla á Völlum sem og skapa aukið svigrúm til þróunar grunnskólastarfs í Hraunvallaskóla. Áfram var unnið að því að finna varanlega lausn á húsnæðisvanda Áslandsskóla.

Tillögurnar voru kynntar fyrir íbúum í hverfinu og skólaráðum leik- og grunnskóla Hraunvallaskóla og fengu almennt góðar viðtökur.

Kosningar 2014 – óvissa um framhaldið
Eftir kosningarnar 2014 varð alls óvíst um hvort þessum +aætlunum yrði fylgt eftir af nýjum meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks eða hvort búast mætti við nýjum tillögum. Í samstarfssáttamála meirihlutaflokkanna var ekkert að finna um málefni umræddra skólahverfa. Þrátt fyrir að vafalaust megi gera ráð fyrir því að það sé hluti af grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins að auka hlut einkaaðila í rekstri grunnþjónustunnar er ekkert slíkt að finna í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði. Hvergi er minnst á einkarekstur eða ólík rekstrarform. Björt framtíð birti enga stefnuskrá fyrir kosningar og hefur ekki enn birt hana.

Bréf frá óstofnuðu einkahlutafélagi
Í september barst bæjaryfirvöldum erindi frá forsvarsmönnum óstofnaðs einkahlutafélags. Í erindinu kom fram að vilji væri til að stofna einkarekinn grunnskóla fyrir nemendur í 8-10. bekk og var óskað heimildar bæjarins fyrir verkefninu.

Í október mættu bréfritarar á fund fræðsluyfirvalda og kynntu hugmyndir sínar. Var lögð áhersla á að nýr einkaskóli myndi m.a. auðvelda bæjaryfirvöldum lausn á aðsteðjandi húsnæðisvanda grunnskóla á svæðinu. Í fundargerð fræðsluráðs kemur fram að strax á þessum fyrsta fundi hafi ráðið lýst áhuga á verkefninu og kallað eftir ítarlegri útfærslu frá bréfriturum, m.a. á „faglegum og rekstrarlegum grundvelli“

Skráðir forsvarsmenn hins óstofnaða einkahlutafélags sem fengið hefur heitið Framsýn eru meðal annars Kristján Ómar Björnsson kennari og þjálfari hjá Knattspyrnufélagi Haukum og Ágúst Sindri Karlsson lögmaður sem m.a. er fyrrverandi formaður Hauka og fyrrverandi eigandi og framkvæmdastjóri Exeter holdings, en það fyrirtæki var um árabil í fréttum vegna viðskipta með stofnfjárbréf í BYR sparisjóði. Félagið var lýst gjaldþrota árið 2011 en engar eignir fundust uppí kröfur þrotabúsins sem námu tæplega1600 milljónum króna.

Nýjar tillögur í húsnæðismálum Áslands- og Hraunvallaskóla
Í desember sl. kynnti bæjarstjóri tillögur meirihlutans í húsnæðismálum Áslandsskóla og Hraunvallaskóla. Ekki var lengur talið nauðsynlegt að auka við húsnæði skólanna heldur var ætlunin að ráðast í endurskipulagningu í báðum skólum sem leiða myndi til betri nýtingar þess húsnæðis sem skólarnir höfðu til ráðstöfunar.

Meirihlutinn „tekur jákvætt“ í einkaskólahugmyndina
Í sama mánuði, eða nánar tiltekið þann 15. desember sl. tók meirihluti fræðsluráðs síðan formlega jákvætt í erindi hins óstofnaða einkahlutafélags og óskaði eftir samantekt fræðslustjóra um lagalegar og fjárhagslegar hliðar málsins, m.a. varðandi áhrif á rekstur annarra skóla og framlag bæjarins.

Adda María Jóhannsdóttir og Elva Dögg Ásu og Kristinsdóttir, fulltrúar minnihlutans í fræðsluráði. Þær bentu m.a. á að gæta þurfi jafnræðis og fylgja reglum um opinber innkaup ef fela eigi einkaaðilum framkvæmd lögbundinnar grunnþjónustu.

Adda María Jóhannsdóttir og Elva Dögg Ásu og Kristinsdóttir, fulltrúar minnihlutans í fræðsluráði. Þær bentu m.a. á að gæta þurfi jafnræðis og fylgja reglum um opinber innkaup ef fela eigi einkaaðilum framkvæmd lögbundinnar grunnþjónustu.

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna bókuðu við afgreiðsluna og bentu á að ekki lægi fyrir skýr stefna í málinu um að fela þriðja aðila rekstur grunnskóla á þessu i svæði. Fóru fulltrúar minnihlutans fram á að ef það yrði niðurstaða meirihlutans, þá yrði það gert í samræmi við reglum opinber innkaup en ekki á grundvelli innsendra erinda frá óstofnuðum félögum.

Aukinn kostnaður fyrir bæinn
Þann 12. janúar sl. var kynnt minnisblað fræðslustjóra í fræðsluráði. Í því kemur m.a. fram að grunnskóli sem hefur fengið viðurkenningu ráðuneytis eigi rétt á framlögum úr bæjarsjóði. Viðurkenning ráðuneytis er hins vegar háð samþykki viðkomandi sveitarfélags fyrir starfseminni og því er ákvörðunin í grunninn sveitarfélagsins sjálfs. Þegar viðurkenning ráðuneytis liggur fyrir ber sveitarfélaginu að greiða viðkomandi skóla lágmarksupphæð með hverjum nemanda skólans sem á lögheimili í sveitarfélaginu og einu áhrifin sem unnt er að hafa á þá upphæð er að setja fjöldaviðmið í þjónustusamning. Í minnisblaðinu kemur fram að tilkoma skólans myndi þýða umtalsverð aukin útgjöld fyrir Hafnarfjarðarbæ, enda „sparist“ ekki nema að litlum hluta á móti í öðrum skólarekstri, þó einhverjir nemendur færist yfir til hins nýja einkaskóla. Kostnaður við rekstur hans leggist því að mestu leyti ofan á núverandi kostnað og leiði þannig til aukinna útgjalda fyrir bæinn.

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar bendir á að umræða um grundvallaratriði málsins hafi ekki enn farið fram, meðal annars um þá spurningu hvort bæjarbúar séu almennt hlynntir því að grunnskólar fái að velja sér nemendur og innheimta skólagjöld.

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar bendir á að umræða um grundvallaratriði málsins hafi ekki enn farið fram, meðal annars um þá spurningu hvort bæjarbúar séu almennt hlynntir því að grunnskólar fái að velja sér nemendur og innheimta skólagjöld.

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkinginarinnar í bæjarstjórn fjallar um málið í grein sem birtist á Eyjunni. Þar segir hann allt málið einkennast af kjarkleysi.

„í stað þess að sýna kjark og ræða það opið og frjálst hvort bæjarbúar séu því almennt fylgjandi að fela einkaaðilum að reka grunnskóla virðist nýr meirihluti ætla að lauma þessari ákvörðun inn bakdyramegin, án fullnægjandi umræðu og án eiginlegrar stefnumörkunar“.

Hann segir það vera í samræmi við þær aðferðir sem einkennt hafi einkavæðingu opinberrar þjónustu á Íslandi hingað til og bendir á að umræða um grundvallaratriði málsins hafi ekki enn farið fram, meðal annars um þá spurningu hvort bæjarbúar séu almennt hlynntir því að grunnskólar fái að velja sér nemendur og innheimta skólagjöld. Hvort tveggja sé mikil breyting frá því sem verið hefur og eðlilegt sé að ræða hvaða afleiðingar sú stefna geti haft á samfélagsgerðina.

Gunnar Axel kallar eftir opinni og fordómalausri umræðu um stefnuna og að fulltrúar ólíkra stjórnmálaflokka, ólíkra sjónarmiða og hugmynda, leggi sig fram um að ná samstöðu um hana.

„Við þurfum ekki að vera fullkomlega sammála um leiðirnar en við verðum að minnsta kosti að upplýsa um skoðanir okkar og vilja, hlusta á íbúana og reyna að komast að skynsamlegri niðurstöðu.“

segir hann að lokum.

Ekki liggur fyrir hvenær formleg ákvörðun í málinu muni liggja fyrir en flest bendir til þess að það verði á næsta fundi fræðsluráðs sem haldinn verður mánudaginn 26. janúar nk.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: