Dökkir tónar og hurðalaus helvíti

„Já, þá var ansi gaman að sjá Hannes Hólmstein orðlausan. Örugglega nokkuð sjaldgæf sjón. " segir Símon í skemmtilegu viðtali.   Valur Grettisson skrifar

„Já, þá var ansi gaman að sjá Hannes Hólmstein orðlausan. Örugglega nokkuð sjaldgæf sjón. “ segir Símon í skemmtilegu viðtali.
Valur Grettisson skrifar

Margir muna kannski eftir listaspírunni Símoni Birgissyni sem var áberandi í hafnfirsku bæjarlífi fyrir allnokkrum árum síðan. Hann var meðal annars formaður Ungra Jafnaðarmanna í Hafnarfirði fyrir rúmum áratug og á þeim tíma kom hann á laggirnar, ásamt góðum félögum, listahátíðinni Björtum dögum. Síðustu ár hefur Símon verið áberandi í fjölmiðlum auk þess að starfa í leikhúsum bæði á Íslandi og í Þýskalandi. Síðasta verkefni Símons er uppsetning á Sjálfstæðu fólki í Þjóðleikhúsinu en verkið var frumsýnt á annan í jólum.

„Það er auðvitað gríðarleg áskorun að takast á við meistaraverk eins og Sjálfstætt fólk. Þetta er mest selda bók Íslandssögunnar, bók sem nær allir hafa skoðun á og hafa lesið. Þetta er líka hápólitísk bók þar sem tekist er á um grundvallarhugtök eins og sjálfstæði og frelsi. Hvað það þýðir að vera Íslendingur og hina eilífu baráttu einyrkjans fyrir mannsæmandi lífi,“ segir Símon en leikgerðin upp úr bók nóbelskáldssins Halldórs Laxness er samvinnuverkefni Símonar, Atla Rafns Sigurðarssonar og Ólafs Egilssonar.

Það er Þorleifur Örn Arnarsson sem leikstýrir en Símon og Þorleifur hafa unnið lengi saman og settu einnig á svið eina vinsælustu sýningu seinni ára, sem var Englar alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson. Fyrir þá sýningu fengu Símon og Þorleifur leiklistarverðlaunin Grímuna fyrir leikrit ársins. Það eru því ákveðin vatnaskil hjá Símoni þegar hann færir sig úr hinni ástsælu bók Einars Más yfir í Sjálfstætt fólk, sem mætti segja að sé umdeild á margan hátt.

Andhetjan Bjartur

„Halldór Laxness skrifaði Bjart sem andhetju en kannski er það til marks um stílsnilld skáldsins að fólk heillast jafnvel af andhetjunni. Bjartur hefur orðið táknmynd í íslensku samfélagi, hann er notaður í rökræðum fyrir stór deiluefni og menn eru óhræddir við að líkja sér við bóndann í Sumarhúsum, jafnvel þó sú samlíking ætti ekki að vera sérstaklega eftirsóknarverð,“ segir Símon.

Blaðamaður var viðstaddur kjallaraspjall í Stúdentakjallaranum í lok nóvember þar sem Bjartur var umræðuefni leikhús- og fræðimanna. Hannes Hólmsteinn Gissurarson lýsti til að mynda skoðun sinni á Bjarti sem hann sagði barnaníðing og Illugi Jökulsson fjölmiðlamaður sagði Bjart ekkert annað en ófreskju. Það vakti svo hlátrasköll á fundinum þegar Símon beindi þeirri spurningu til Hannesar hvort hann teldi að Bjartur væri í dag andstæðingur eða málsvari Evrópusambandsins – og varð Hannesi orða vant.

„Já, þá var ansi gaman að sjá Hannes Hólmstein orðlausan. Örugglega nokkuð sjaldgæf sjón. En spurningin er ekkert út í loftið,“ segir Símon. „Það eru til fjölmargar greinar á netinu þar sem fólk notar einmitt Bjart og baráttu hans við Rauðsmýrarfólkið sem rök fyrir því að við eigum að standa fyrir utan Evrópusambandið. Mín skoðun er hins vegar skýr. Sjálfstætt fólk lýsir því hve vonlaus barátta það er að vera sjálfstæður fyrir utan mannlegt samfélagið. Sjálstæði Bjarts væri mun betur borgið ef hann bryti odd af oflæti sínu og starfaði með öðrum. Bókin fjallar um hættuna sem felst í því að einangra sig og reyna að gera hlutina „á eigin spýtur“.

Engin augljós hetja

Símon segir markmið hópsins sem stendur að sýningunni meðal annars þá að gera sýninguna aðgengilegri, „bókin er ansi löng, eins og margir menntaskólanemar hafa komist að. Við vildum strax í upphafi forðast að gera of langa sýningu, síðasta uppfærsla á Sjálfstæðu fólki var um fimm tímar að lengd og sýnd á tveimur kvöldum. Það má því segja að það hafi verið áskorun að finna sögunni form sem gerir okkur kleift að segja hana á einni kvöldstund,“ útskýrir Símon.

En kom eitthvað á óvart við aðlögun sögunnar að leikgerð?

„Það sem hefur komið mér mest á óvart er hve vel Sjálfstætt fólk hentar til aðlögunar á sviði. Persónurnar stíga ljóslifandi fram. Samtölin eru hnitmiðuð og full af átökum. Halldór Laxness gefur meisturum eins og Henrik Ibsen og Shakespeare ekkert eftir. Annað sem hefur komið mér á óvart er hve margslungnar persónur bókarinnar eru. Maður hafði fyrirfram ákveðna mynd af til dæmis Íngólfi Arnarssyni, hreppstjóranum og rauðsmýrarmaddömmunni – en þegar maður kafar dýpra sér maður að það er ekkert augljóst illmenni í sögunni og heldur engin augljós hetja eða sigurvegari.“

Dekkri tónar rannsakaðir

Símon lofar öðrum nálgunum en almenningur er vanur þegar kemur að leikgerðum upp úr bókinni. Leikritið hefur aðeins verið sett upp þrisvar sinnum. „Það var fyrst árið 1972 í Þjóðleikhúsinu þar sem Róbert Arnfinnsson lék Bjart. Svo árið 1978 á Akureyri þar sem Baldvin Halldórsson leikstýrði verkinu í annað sinn og Þráinn Karlsson lék Bjart. Og svo árið 1999 í Þjóðleikhúsinu þar sem Kjartan Ragnarsson leikstýrði og Ingvar E Sigurðsson og Arnar Jónsson skiptu hlutverki Bjarts á milli sín,“ útskýrir Símon. „Nú leikur Atli Rafn Sigurðarsson Bjart og kannski er það til marks um mikilvægi verksins í samfélagsumræðunni að strax í fyrstu æfingavikunni birtist aðsend grein í Morgunblaðinu um að Atli Rafn væri bæði allt of smávaxinn og of ungur til að leika Bjart. Það þyrfti bæði eldri og stæltari leikara til að túlka þessa miklu hetju sem handsamar hreindýr og býður máttaröflunum byrginn. Ég þarf varla að taka það fram að greinin í Mogganum var nafnlaus,“ segir Símon og hlær.

Símon segir að hópurinn reyni að fara gegn klisjunum um hvernig Bjartur ,,eigi” að vera. „Og ætli það megi ekki segja að við rannsökum dekkri tóna verksins. Þrátt fyrir ótrúlega fagran texta eru aðstæður fólksins í Sumarhúsum vægast sagt hörmulegar og ég held að maður sé höfundinum trúr þegar ekkert er dregið undan eða ,,fegrað” í sviðsetningunni.“


Hurðarlaus helvíti

Sjálfstætt fólk fangar á margan hátt hina íslensku þjóðarsál. Og margir kannast við að nafn Bjarts dúkkar óvanalega oft upp í umræðunni þessi misserin og hefur gert eftir hrunið. Það er því nærtækt að spyrja Símon um hliðstæður bókarinnar og nútímans.

„Því miður hefur allt of lítið breyst á Íslandi,“ svarar Símon. „Sumir kaflar í bókinni gætu allt eins verið skrifaði í dag. Það er einkenni stórra höfunda að verk þeirra eru tímalaus, þau tala til hverrar kynslóðar og sú er raunin með Sjálfstætt fólk. Við erum enn að reisa okkur hurðarás um öxl, eftir hrun blöstu við manni hálfbyggð stórhýsi víða um borg, „hurðalaus helvíti“, og það er enn draumur íslensku millistéttarinnar að kaupa sér hús – jafnvel þó það þýðir tugi ára í skuldafjötrum. Svo koma afskriftir hinna ríku, þjóðnýting banka og innantóm kosningaloforð. Hinir ríku koma alltaf best undan vetri meðan lægri stéttirnar tapa sínu í veltiárum og hruni,“ segir Símon. „Eiginlega er óhuggulegt hvernig bókin lýsir veruleika okkar hér á Íslandi í dag. Óhuggulegt, af því það eru um sjötíu ár frá því bókin var skrifuð en greinilega hefur lítið eða ekkert breyst.“

En það er ekki bara pólitíkin sem er óhugguleg. Hvað finnst Símoni um lýsingar fræðimanna á Bjarti sem ófreskju eða níðingi?

„Jú, Bjartur misnotar börnin sín og ber ábyrgð á dauða eiginkvenna sinna. Hann bregst trausti þeirra sem standa honum næst, allt í nafni baráttunnar fyrir sjálfstæði. Þeir sem eru í samneyti við hann eiga ekki um marga kosti að velja, þeir annaðhvort deyja eða flýja. Það er ekki fyrr en í lok verksins sem Bjartur leitar eftir sátt við uppeldisdóttur sína Ástu Sóllilju og þá er það jafnvel orðið of seint. Bjartur tapar mennskunni í leit sinni að sjálfstæði. Þess vegna er Sjálfstætt fólk ekki hetjusaga – eins og Halldór Laxness skýrði bókina í upphafi en tók svo út í seinni útgáfum, heldur hreinræktaður harmleikur. Harmleikur einstaklings og harmleikur þjóðar.“

Skyldulesning þrisvar á ævinni

Símon segist hafa dregið persónulegan lærdóm af ferlinu við það að skrifa leikgerðina. „Að vinna við svona verk fær mann auðvitað til að endurmeta margt í sínu eigin lífi. Það gerir öll alvöru list. Hún snertir við manni, kemur við mann á einhvern hátt.“

Símon segir að bók eins og Sjálfstætt fólk eigi að vera skyldulesning fyrir alla Íslendinga þrisvar sinnum á lífsleiðinni. „Þegar maður er unglingur að vaxa úr grasi og vill sigra heiminn, verða sjálfstæð manneskja og brjótast til eigin metorða. Þegar maður kemst svo á fertugsaldurinn og er orðinn fangi yfirdráttsins, vaxta og verðbólgu, og svo þegar maður er orðinn gamall, kominn til vits og ára og kannski loksins laus við gluggapóst frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.“

Hann segir æfingarferlið, sem stendur nú sem hæst, hafi einnig oft haft áhrif á leikhópinn. „Það hafa verið augnablik þar sem ekki er þurr hvarmur á neinum í æfingarýminu. Að kljást við Sjálfstætt fólk er einstakt tækifæri og ég verð að koma á framfæri þakklæti til Þjóðleikhússins að treysta nýrri kynslóð leikhúsmanna að takast á við sagnaarfinn.“

Hafnfirsk pólitík í mótun

Eins og fram kom í upphafi viðtalsins var Símon einn af framámönnum Ungra Jafnaðarmanna í Hafnarfirði fyrir um áratug síðan. Hvernig lýst Símoni á bæjarpólitíkina í dag?

„Það var ómetanlegur lærdómur að taka þátt í ungliðastarfinu. Þar lærði ég hluti sem hafa svo sannarlega gagnast mér á mínum ferli. Að taka þátt í hópstarfi, læra að taka þátt í lýðræðislegri umræðu, færa rök fyrir máli sínu og standa á eigin sannfæringu. Þetta var líka skemmtilegur tími. Við höfðum ákveðna sýn á Hafnarfjörð, vildum upphefja menningu og listir, endurvekja listahátíð í bænum og efla ungmennastarf og grasrótina.“

Símon segir að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þá.

„Það eru ekki eins skýrar línur í samfélaginu nú eins og þá. Hrunið breytti sýn allra á pólitíkina og Samfylkingin er í ákveðinni tilvistarkreppu. Flokkurinn var stofnaður með það að markmiði að sameina vinstri vænginn í öfluga fjöldahreyfingu sem hefði það markmið að stofna til umbóta á íslensku samfélagi og rjúfa einangrun okkar með inngöngu í ESB. Nú er vinstrið aftur klofið og Evrópusambandið ekki einu sinni á dagskrá. Ég held að Samfylkingin verði að endurmeta hlutverk sitt í dag. Kannski er aftur orðin þörf á sameiningu á vinstri vængnum, það er sögulegt hlutverk Samfylkingarinnar sem er í eðli sínu ekki einn flokkur heldur fjöldahreyfing mismunandi flokka sem allir höfðu mismunandi sýn á samfélagið og pólitíkina. Með skýrt markmið held ég að Samfylkingin gæti aftur laðað til sín ungt fólk og höfðað til hins breiða hóps sem vill ekki einangrun og afturhaldssemi. Það vill enginn búa í Sumarhúsum er það nokkuð?“

Byggt á viðtali sem birtist í jólablaði Samfylkingarinnar árið 2014.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: