Kaus næstum vitlaust

Ófeigur og Adda María

Ófeigur og Adda María

„Ég ákvað eiginlega bara að kasta mér kútalaus í djúpu laugina, auðvitað í þeim tilgangi að breyta heiminum,“ segir Ófeigur og hlær en hann og Adda María Jóhannsdóttir tóku sæti í bæjarstjórn Hafnarfjarðar eftir síðustu kosningar. Samfylkinging náði þá þremur mönnum inn en Margrét Gauja Magnúsdóttir tók sér leyfi frá störfum í vetur. Þannig kom Ófeigur inn en hann var í fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar í vor. Hvorki Ófeigur né Adda María hafa starfað á vettvangi stjórnmálanna áður þó þau hafi verið ötul í því að taka þátt í stjórnmálastarfi Samfylkingarinnar.

Misst af nokkrum andsvörum

„Hefðirnar, einkum á bæjarstjórnarfundum þar sem gilda mjög skýrar reglur um samskipti, geta verið erfiðar. Ég les reglulega greinargerðina um ræður og andsvör og mínútufjölda, og er í raun enn að átta mig á þessu öllu saman,“ segir Adda María. Hún bætir við að það geti verið erfitt að mega ekki segja það sem maður vill, þegar maður vill. „Fyrst þorði ég varla að tjá mig án þess að vera búin að skrifa allt niður og var þá ekki alltaf nógu fljót að bregðast við. Ég hef til dæmis misst af nokkrum andsvörum þar sem ég var ekki nógu fljót að gefa merki, og þá missir maður bara af augnablikinu,“ segir Adda María en bætir svo við, „þetta er nú samt að lærast.“

Þreyttur á að vera þreyttur

Ófeigur segir að hann hafi verið orðinn þreyttur á að vera þreyttur yfir ástandinu. „Ég var orðinn einhver svona sófapólitíkus sem allt vissi,“ segir Ófeigur og lýsir því hlæjandi þegar hann reifst bókstaflega við tölvuskjáinn.
„Og þessir stjórnmálamenn leynast víða,“ segir Ófeigur sem vill hvetja fólk til þess að taka þátt í stjórnmálum frekar en að rífast á Facebook um ástandið. Ófeigur viðurkennir þó að það sé ekki alltaf auðvelt að taka fyrstu skrefin út í stjórnmálin. Ekki síst vegna þess hvernig ástandið er í dag, og viðhorf almennings til stjórnmálastéttarinnar. „Fyrsta skrefið er ef til vill þungt og erfitt, en þau næstu eru stórkostleg lífsreynsla, mikill lærdómur og gefandi vinna,“ segir Ófeigur.

Gleði og kraftur í hópnum

En hvað stendur upp úr?

„Það sem stendur upp úr er tvímælalaust samstarf okkar bæjarfulltrúanna og bæjarmálaráðs í heild,“ svarar Adda María og Ófeigur tekur undir. „Að koma inn í þennan hóp og fá tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni eru forréttindi,“ bætir hún við. Hún segir að mikil endurnýjun hafi orðið eftir kosningarnar síðastliðið vor og því fleiri en þau tvö sem eru að stíga sín fyrstu skref í bæjarstjórn Hafnarfjarðar. „Það er mikil gleði og kraftur í hópnum sem gerir starfið skemmtilegt,“ segir Adda María.

„Mín skoðun er sú, að því fleiri sem taka þátt og því fleiri raddir, því lýðræðislegri verða stjórnmálin,“ segir Ófeigur sem bætir við að stjórnmál snúist fyrst og fremst um fólk og eru fyrir fólk.

Kaust næstum vitlaust

Einhver góð saga?

„Það eru margar góðar sögur,“ segir Ófeigur. „Nokkrar tengjast til dæmis vel heppnaðri vinnuferð bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar austur á Höfn í Hornafirði snemma á haustdögum, það er þó spurning hvort þær séu prenthæfar,“ segir Ófeigur og hlær. Hann áréttar þó að ferðin hafi verið hin skemmtilegasta og algjörlega laus við hverskyns syndir.

„Mér er þó minnisstæð ein góð af bæjarstjórnarfundi nú nýverið,“ segir Adda María. „Þá sköpuðust þær aðstæður í sætafyrirkomulagi að Kristinn Andersen, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, þurfti að setjast minnihlutameginn. Í einni atkvæðagreiðslunni var hann svo niðursokkinn í að lesa skjal á tölvunni sinni að þegar Ófeigur hnippti í hann var hann næstum því búinn að rétta upp hönd og greiða atkvæði með okkur, andstætt sínu fólki.
Þessu hlógum við mikið að,“ segir Adda María.
„Það munaði hársbreidd,“ segir Ófeigur að lokum.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: