Tíminn er besta gjöfin

Margrét Gauja Magnúsdóttir flutti til Hafnar í Hornafirði í lok sumars og elti þannig eiginmann sinn, Davíð Arnar Stefánsson, sem fékk starf í bænum síðasta vor. Margrét Gauja segir að hún hafi grætt tvennt á því að flytja úr bænum. Annarsvegar ótrúlega náttúrufegurð sem hún segir innfædda hætta að sjá; og svo tímann.

Margrét Gauja Magnúsdóttir flutti til Hafnar í Hornafirði í lok sumars og elti þannig eiginmann sinn, Davíð Arnar Stefánsson, sem fékk starf í bænum síðasta vor. Margrét Gauja segir að hún hafi grætt tvennt á því að flytja úr bænum. Annarsvegar ótrúlega náttúrufegurð sem hún segir innfædda hætta að sjá; og svo tímann.

„Það var hressandi að vera einstæð móðir með þrjú einstaklega kröftug börn heima í Hafnarfirðinum. En var kannski ekki beinlínis raunhæft eins og það þróaðist. Það var því tekin ákvörðun um að flytja til Davíðs, því stundum verðum maður að fórna einhverju svo allir geti verið hamingjusamir,“ útskýrir Margrét og undirstrikar að ákvörðunin hafi ekki verið auðveld, sérstaklega í ljósi þess að hún var kjörin í bæjarstjórn eftir sveitarstjórnarkosningar síðasta vor.

Bakaði köku
Hún segir reynsluna hafa þó kennt sér margt og það sé áhugavert að upplifa landsbyggðina, þó hún geri í sjálfu sér ekki mikinn greinarmun á Hafnarfirði og öðrum bæjum landsins, enda bæjarvitundin ávallt sterk í Hafnarfirði þrátt fyrir nálægðina við Höfuðborgina.

„Við höfum ekki mætt neinu nema opnum hug og hlýju í okkar garð og upplifum alls ekki það sem oft er sagt um lítil samfélög, að þau séu lokuð, þvert á móti,“ segir Margrét Gauja. Hún segir að það hafi ekki verið auðvelt að hefja nýtt líf í bænum. „Við þurftum að þjappa okkur vel saman í upphafi og styðja við hvort annað í nýju umhverfi,“ segir Margrét Gauja. „Þetta er tímabil sem ég mun aldrei gleyma, mánuðirnir sem við fjölskyldan, á aldrinum 4-42 ára, eyddum öllum stundum saman og höfðum gaman,“ segir Margrét og bætir við að ótrúlegir hlutir hafi gerst. „Ég baka til dæmis köku,“ segir hún og skellir upp úr.

Tíminn er verðmætur
Margrét Gauja segir að nú séu allir í fjölskyldunni að finna sig í nýju bæjarfélagi, „eins og gengur og gerist, unglingurinn sést ekki fyrir annríki í skóla og félagslífi og þessi 8 ára er farin að stjórna sveitarfélaginu leynt og ljóst,“ segir Margrét og hlær. Hún segir þann yngsta hlaupa um allt hverfið á stígvélum og heimsækja vini sína af leikskólanum. „Og þannig græðir maður óvænt tíma,“ segir Margrét. „Og hvað gerir maður þá við allan þennan tíma?“ spyr Margrét sem hefur hingað til þurft að skammta tíma sinn eins og um áþreyfanleg verðmæti væri að ræða.
„Núna nýti ég tímann í allt sem mig langar að gera og ekki síst í að sinna börnunum eins og ég vildi alltaf,“ útskýrir hún. Margrét segist hafa nýtt þennan tíma einnig til þess að forgangsraða í eigin lífi og ekki síst til þess að jafna sig á því sem hún kallar langvarandi streitu.

Allt undir stjórn
„Maður er eiginlega bara búinn að nota tímann til þess að núllstilla sig á ný og átta sig á því sem máli skiptir. Nú hleypur tíminn ekki frá manni eins og gerðist áður, og ég finn bara hvernig ég hef allt undir stjórn,“ segir Margrét Gauja. „Við Bjarnabæjarfjölskyldan mælum eindregið með þessu, að upplifa allt það frábæra sem landsbyggðin hefur uppá að bjóða, ekki bara náttúran og nándina heldur líka karlakórsböllin og kökubasarinn.“

Eitthvað að lokum?
„Bara, eigið dásamleg jól, við sendum kærar kveðjur til Hafnarfjarðar og vonumst svo innilega að engin gleymir því, að jólin eru einmitt sá tími sem við eigum að gefa okkur og okkar nánustu, tíminn er besta jólagjöfin,“ segir Margrét Gauja.

Aðspurð hvort og hvenær sé von á henni til Hafnarfjarðar á ný, svarar Margrét því til að hún muni snúa aftur. Nú ætli hún að einbeita sér að því að aðlagast samfélaginu á Höfn í Hornafirði. „Þetta er svolítið einn dagur í einu, stemmning akkúrat núna,“ segir Margrét að lokum.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: