Óvissa um framtíð Kató

Ófeigur Friðriksson segir engar tillögur hafa komið fram um að leikskólinn eigi að víkja fyrir íbúðarhúsum

Ófeigur Friðriksson segir engar tillögur hafa komið fram um að leikskólinn eigi að víkja fyrir íbúðarhúsum

Samkvæmt því sem fram kemur á forsíðu vikublaðsins Hafnarfjörður sem kom út í síðustu viku kemur til greina að loka leikskólanum Kató (Brekkuhvamms) við Hlíðarbraut og nýta lóðina undir íbúðarhús. Svo virðist umhverfis- og framkvæmdasvið bæjarins sé nú þegar byrjað að vinna samkvæmt áætlunum þar um, enda sé það í takt við hugmyndir um þéttingu byggðar.

Kató hefur verið starfandi frá árinu 1979, upphaflega sem leikskóli fyrir börn starfsfólks St. Jósefsspítala en Hafnarfjarðarbær tók við rekstrinum árið 1996. Núverandi húsnæði leikskólans var byggt sérstaklega fyrir starfsemina árið 1984. Árið 2006 var húsnæði leikskólans endurnýjað töluvert og hann stækkaður m.a. með nýju andyri, eldhúsi, og skrifstofu. Frá árinu 2011 hefur Kató verið rekinn sem hluti af leikskólanum Brekkuhvammi, sem einnig er með starfsstöð við Smárabarð.

Ófeigur Friðriksson fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði segir það ekki hafa verið rætt í ráðinu að breyta skipulagi hverfisins þannig að leikskólinn víki fyrir annarri uppbyggingu.

„Eitt af helstu markmiðum nýs svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins er þétting byggðar, meðal annars í þeim tilgangi að nýta þá grunnþjónustu sem þegar er til staðar í hverfunum, af hagkvæmnisástæðum. Að rífa eina leikskólann á þessu svæði í þeim tilgangi að þétta byggð held ég að hljóti að teljast beinlínis á skjön við hugmyndafræði svæðisskipulagsins. Við rífum ekki grunnþjónustuna í burtu til að koma fyrir fleiri íbúðarhúsum sem aftur munu auka þörfina fyrir sömu þjónustu. Það er engin skynsemi í því.“

Segir Ófeigur sem bendir á að í gildi sé tiltölulega nýtt skipulag sem gerir ráð fyrir að leikskólinn þjóni áfram sínu hlutverki, enda langt í næsta leikskóla og því óljóst hvernig leysa eigi þörf fyrir leikskóla á þessu svæði verði það niðurstaðan að breyta nýtingu lóðarinnar.

Deiliskipulagið fyrir hverfið sem samþykkt var fyrr á þessu ári má finna hér.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: