Ólíkar áherslur í Hafnarfirði og Reykjavík

Svigrúm sem skapast vegna smærri árganga í leikskólum verður ekki nýtt til eflingar leikskólastigsins

Svigrúm sem skapast vegna smærri árganga í leikskólum verður ekki nýtt til eflingar leikskólastigsins

Fræðsluráð afgreiddi í morgun tillögur til fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Í tillögum meirihluta Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks er gert ráð fyrir að tekjur muni aukast um 18 milljónir vegna hækkunar á gjaldskrám leik- og grunnskóla um næstu áramót og almennar fjárveitingar til grunnskóla verði skornar niður um 25 milljóna króna.

Þá er gert ráð fyrir að smærri árgangur barna á skilgreindum inntökualdri leikskóla muni leiða til umtalsverðrar fækkunar leikskólabarna og samsvarandi lækkunar rekstrarkostnaðar, eða um 73 milljónir króna á næsta ári. Framlög til miðstöðvar símenntunar í Lækjarskóla verða lækkuð um 20 milljónir.

Ekki er gert ráð fyrir því að svigrúmið sem skapast í leikskólanum vegna smærri árganga verði nýtt til að lækka inntökualdur þ.e. bjóða foreldrum yngri barna leikskólapláss eða til lækkunar leikskólagjalda. Samkvæmt tillögum meirihlutans verður stærstur hluti þess nýttur til hækkunar á rekstrarframlögum til Barnaskóla Hjallastefnunnar (36,4 m.kr) en ætlunin er að hefja þar rekstur miðstigs grunnskóla á næsta ári. Þá er gerð tillaga um að ríflega 26 milljónir fari á næsta ári til kaupa á spjaldtölvum handa nemendum í Áslandsskóla.

Óútfærð hagræðing
Ekki liggja fyrir tillögur frá meirihlutanum um hvernig útfæra eigi hagræðinguna í leikskólum en eigi hún að ná fram að ganga eins og upp er lagt með má gera ráð fyrir lokunum einstakra deilda eða leikskóla á næsta ári.

Fulltrúar minnihlutans bókuðu vegna afgreiðslunnar og lögðu til aðra forgangsröðun. Telja þeir að boðaðar áherslur meirihlutans séu skref aftur á bak í þróun leikskólans og þvert á það sem sé að gerast í sumum nágrannasveitarfélaganna, m.a. í Reykjavík. Leggja þeir til að svigrúmið verði nýtt til að styrkja þjónustu við fjölskyldur með ung börn, auka systkinaafslátt og vilja vinna áfram að því markmiði að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla.

Önnur og ólík forgangsröðun í Reykjavík
Samkvæmt nýlegum fréttum gerir nýr meirihluti í borginni tillögu um lækkun þjónustugjalda barnafjölskyldna, meðal annars 10% lækkun leikskólagjalda og ríflegri afsláttarkjör fyrir barnmargar fjölskyldur. Þá hefur meirihlutinn í borginni sett sér skýr markmið um að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Slíkar áherslur virðast hins vegar ekki í forgangi nýs meirihluta í Hafnarfirði.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: