Hafnarfjörður framleiðir glæpaforingja

Stefán Karl í hlutverki Glanna

Stefán Karl í hlutverki Glanna

Gaflarinn Stefán Karl Stefánsson, leikari og stofnandi Regnbogabarna hefur nú sagt skilið við Latabæ og hefur að eigin sögn klæðst búningi Glanna glæps í allra síðasta sinn.

Stefán Karl sem nú er staddur í Bandaríkjunum þar sem hann æfir sig undir hlutverk Trölla í söngleiknum Trölli stal jólunum, segir á Facebooksíðu sinni að eftir 15 ára viðkynningu skilji loks leiðir hans og Glanna.

Þjóðleikhúsið hefur nýlega hafið sýningar á leikritinu Ævintýri í Latabæ og þar kom Stefán fram í gervi Glanna glæps í síðasta sinn. Af skrifum hans að dæma er augljóslega sterk taug milli þeirra félaga. Í hjartnæmri kveðju til Glanna segir Stefán Karl m.a:

„Samband okkar var alltaf traust og þó svo að margir hefðu skoðun á því hvernig við eyddum okkar tíma og hvað við tókum okkur fyrir hendur og hvernig þá vissum við alltaf hver besta leiðin var og að svo framarlega sem börnin væru glöð og skemmtu sér þá vorum við sáttir líka. Á síðustu sýningu okkar í kvöld stól lítil eins og hálfs árs stelpa á hnjánum á pabba sínum, horfði beint framan í mig og hrópaði hátt og skýrt: “Glanni Bæpur” og bræddi hjarta mitt, ég hefði ekki geta beðið um betri endir á farsælum ferli okkar saman.

Þórir Sæmundsson leikari og nýr Glanni glæpur

Þórir Sæmundsson leikari og nýr Glanni glæpur

Í tilkynningu frá Þjóðleikhúsinu segir að við hlutverki Stefáns taki enginn annar en Þórir Sæmundsson leikari en báðir eiga þeir það sameiginlegt að hafa verið áberandi í leiklistarlífinu í Hafnarfirði. Stefán Karl fór á sínum tíma á kostum í hinum ýmsu leikritum sem sýnd voru í Bæjarbíó og það gerði Þórir líka, en hann lék t.d. aðalhlutverkið í uppsetningu Leikfélags Hafnarfjarðar á söngleiknum Bugsy Malone árið 1993. Bugsy Malone fjallar á gamansaman hátt um bandaríska glæpaforingja á bannárunum í Bandaríkjunum.

Píanóleikari í sýningunni um Bugsy Malone var Stefán Karl Stefánsson en auk þess að vera fjölhæfur leikari þykir hann líka vel liðtækur hljóðfæraleikari. Það má því segja að þeir Þórir eigi það sameiginlegt að hafa tekist á við sín fyrstu alvöru leikhlutverk á æskuslóðunum í Hafnarfirði, nánar tiltekið í Bæjarbíó þar sem leiðir þeirra lágu fyrst saman á leiklistarsviðinu.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: