Spurt um uppbyggingu íþróttamannvirkja

"Það hlýtur að vera forsenda stefnumörkunar til framtíðar að við vitum hvar við erum stödd í dag", segir Guðbjörg Norðfjörð um tillöguna sem hún etti fram í íþrótta- og tómstundanefnd

„Það hlýtur að vera forsenda stefnumörkunar til framtíðar að við vitum hvar við erum stödd í dag“, segir Guðbjörg Norðfjörð um tillöguna í íþrótta- og tómstundanefnd

Íþrótta- og tómstundanefnd frestaði sl. föstudag afgreiðslu tillögu fulltrúa Samfylkingarinnar um að gerð verði samantekt á gildandi fyrirkomulagi um byggingu og rekstur íþróttamannvirkja í Hafnarfirði. Var einnig óskað eftir upplýsingum um þau verkefni sem eru fyrirhuguð og um möguleika þess að félögin eigi með sér samstarf um uppbyggingu og nýtingu einstakra mannvirkja. Þá var spurt um stöðu mála varðandi gerð þjónustusamninga við rekstraraðila íþróttamannvirkja en sú vinna hófst á síðasta kjörtímabili og ætti að vera langt komin.

Guðbjörg Norðfjörð Elíasdóttir varafulltrúi Samfylkingarinnar í íþrótta- og tómstundanefnd lagði fram tillöguna en hún segir það eitt af helstu verkefnum nefndarinnar að móta ákvarðanir um uppbyggingu í málaflokknum. Þess vegna sé algjört lykilatriði að nefndin kunni skil á þeim leikreglum sem hafa verið mótaðar um hvernig framkvæmdum er forgangsraðað, hvaða sjónarmið séu höfð til hliðsjónar í þeirri forgangsröðun og auðvitað hver staða mála er í dag.

„Það hlýtur að vera forsenda stefnumörkunar til framtíðar að við vitum hvar við erum stödd í dag. Það finnst mér ekki vera alveg ljóst eins og staðan er núna. Íþrótta- og tómstundanefnd þarf að hafa betri upplýsingar til að taka upplýstar ákvarðanir. Við þurfum meðal annars að vita hver þörfin eru fyrir mismunandi íþróttamannvirki. Það er eina leiðin til að forgangsraða verkefnum skynsamlega, að vita hvar þörfin er mest. Sú vinna verður að eiga sér stað með virkri þátttöku íþróttahreyfingarinnar og hún verður að fara fram áður en teknar eru fjárhagslega skuldbandandi ákvarðanir fyrir sveitarfélagið til næstu ára og áratuga. Það er á ábyrgð okkar sem sitjum í þessari nefnd að þannig sé staðið að málum.“

segir Guðbjörg sem kallar eftir því að nefndin láti fara fram greiningu á þörf fyrir aðstöðu til íþróttaiðkunar og hún sé síðan uppfærð með reglubundnum hætti. Guðbjörg segir það ekki ganga upp að hlutirnir gerist bara einhvern vegin og án þess jafnvel að bæjarstjórn sé höfð með í ráðum. Við verðum að geta treyst því að ákvarðanir um framkvæmdir séu teknar á málefnalegum grundvelli og af þar til bærum aðilum.

„Við getum alveg horft til þeirrar umræðu sem nú á sér til dæmis stað um uppbyggingu í Laugardal í Reykjavík þar sem uppi eru hugmyndir um ráðast í miklar og dýrar framkvæmdir. Þar hafa komið fram hugmyndir um að einkaaðilar muni taka þátt í því verkefni en þegar betur er að gáð er væntanlega enginn tilbúinn til að leggja í slíkt verkefni fjármagn nema með samningi um að ríki og borg greiði þá fjárfestingu til baka í formi leigu til næstu áratuga. Þá er kannski eins gott að ríki og borg ráðist bara í verkefnið sjálft á eigin forsendum og eigi um leið þessi mannvirki og hafi yfir þeim fullan umráðarétt. Það er allavega spurning sem borgarfulltrúar í Reykjavík eiga að svara. Við getum lært af þessari umræðu í Hafnarfirði. “

segir Guðbjörg að lokum en hún ætlar að fylgja tillögunni eftir og freista þess að skapa samstöðu í íþrótta- og tómstundanefnd um að standa vel að slíkum ákvörðunum í góðu samráði og sátt við íþróttahreyfinguna og bæjarbúaFlokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: