Sýslumaður og skatturinn líka á förum?

Starfsstöð Ríkisskattstjóra við Suðurgötu.

Starfsstöð Ríkisskattstjóra við Suðurgötu.

Eins og fram hefur komið í fréttum hafa stjórnvöld tekið ákvörðun um flutning Fiskistofu frá Hafnarfirði. Ákvörðunin er afar umdeild og hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði bent á að engin málefnaleg rök hafi verið sett fram málinu til stuðnings.

Á fundi bæjarráðs í dag spurðu bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG hvort bæjaryfirvöld hafi verið höfð með í ráðum varðandi sambærilegar breytingar eða flutning starfa tengt starfsemi Sýslumannsins í Hafnarfirði og starfsstöðvar Ríkisskattstjóra við Suðurgötu. Vilja fulltrúar minnihlutans vita hvort fyrri liggi upplýsingar frá Fjármálaráðuneyti og Innanríkisráðuneyti um fyrirhugaðar breytingar, hvenær þær eigi þá að koma til framkvæmda, hvort í þeim felist flutningur opinberra starfa frá sveitarfélaginu, sem og um hver vænt áhrif þeirra eru á þjónustu við bæjarbúa og aðgengi þeirra að henni.

Að sögn Gunnars Axels Axelssonar oddvita Samfylkingarinnar og fulltrúa í bæjarráði er margt sem bendir til þess að slíkar breytingar sé í farvatninu hjá núverandi ríkisstjórn og undirbúningur sé jafnvel komin langt á veg án þess að nokkur tilraun hafi verið gerð til samráðs við bæjaryfirvöld.

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar í Hafnarfirði

„Ef svo er þá get ég ekki annað séð en að það sé orðið sérstakt markmið hjá þessari ríkisstjórn að flytja opinber störf frá Hafnarfirði.“

Segir Gunnar Axel og er harðorður í garð þeirra sem bera ábyrgð á þessum ákvörðunum.

„Við munum auðvitað krefjast skýringa frá þeim og setjum þetta óhjákvæmilega í samhengi við önnur samskipti bæjaryfirvalda og fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Það eru ekki nema nokkrar vikur síðan við áttum í bréfaskiptum við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna flutnings aflaheimilda Stálskipa úr sveitarfélaginu, sem var að okkar áliti gjörningar sem hann hefði átt lögum samkvæmt að grípa inn í. Svör ráðherrans við erindi okkar voru efnislega þau að flutningur meirihluta allra aflaheimilda úr bænum skiptu engu máli vegna þess að við værum hluti af stærra atvinnusvæði og aðeins hluti starfsmanna fyrirtækisins ættu lögheimili í bænum.“

Segir Gunnar Axel og bætir við;

„Þetta eru að okkar mati hin versta rökleysa og tómur útúrsnúningur. Með sömu rökum má segja að það sé allt í lagi að flytja allar aflaheimildir burtu frá suðvesturhorni landsins án þess að ráðherra hafi ástæðu til að aðhafast nokkuð. Sömu rökin eru svo notuð núna þegar flytja á mikilvæg störf frá Hafnarfirði. Þá skiptir það ekki heldur máli vegna þess að við erum hluti af stærra atvinnusvæði. Ég spyr þá á móti, getum við þá ekki flutt allar stofnanir ríkisins út á land án þess að það hafi áhrif á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, verða samanlögð áhrif þess bara jafnt og engin? Það hljóta allir að sjá að þessi málflutningur stenst enga skoðun“

Segir Gunnar Axel sem telur að stjórnvöld verði að endurskoða þessar ákvarðanir, leita eftir samráði við bæjaryfirvöld og finna einhvern vitrænan flöt á því hvernig hægt er að framkvæma skynsamlegar breytingar á rekstri og þjónustu ríkisins í sátt við samfélagið og sveitarfélögin á svæðinu.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: