83 ára hafnfirskur trommari

„Þegar ég var 5 ára var eldri systir mín að reyna að hafa ofan af fyrir mér og hún lét mig fá sleifar og potta til að tromma á. Ég fékk bakteríuna og hef ekki stoppað síðan " Segir Jón Valur Tryggvason 83 ára tónlistarmaður sem hefur alla sína tíð búið í Hafnarfirði.

„Þegar ég var 5 ára var eldri systir mín að reyna að hafa ofan af fyrir mér og hún lét mig fá sleifar og potta til að tromma á. Ég fékk bakteríuna og hef ekki stoppað síðan “ Segir Jón Valur Tryggvason 83 ára tónlistarmaður sem hefur alla sína tíð búið í Hafnarfirði.

Síðan hann var 16 ára gamall hefur hann spilað á böllum en þá fór hann að tromma á Rekstrarsjón í gamla Alþýðuhúsinu. „Ég fékk að „grípa í“ þegar aðal trommarinn þurfti að hvíla sig. Þetta voru svaka böll þar sem allir dönsuðu. Ári seinna fór ég svo í ferðalag um landið með Leikfélagi Hafnarfjarðar. Þá sýndi leikfélagið fyrst og síðan var haldið ball um kvöldið þar sem ég og bandið mitt spiluðum. Það var alltaf fullt út að dyrum hjá okkur. Hafnarfjörður hefur alltaf verið mikill menningarbær þar sem tónlist og leiklist hefur blómstrað og gerir enn,“ segir hinn taktfasti Jón Valur.

Mesta fjörið hjá eldri borgurum

Lengst af spilaði Jón Valur með Caprítríó, eða í 21 ár. Aðrir meðlimir hljómsveitarinnar voru þeir Þórður Arnar Marteinsson á harmonikku og Þórður Rafn Guðjónsson á gítar. Seinna tók Kjartan Jónsson við af honum. „Við spiluðum mest á böllum fyrir eldri borgara, bæði gömlu dansana og aðra danstónlist. Það er svo gaman að spila fyrir eldri borgara því þeir dansa allir,“ segir Jón Valur. Það er alltaf mesta fjörið á böllum hjá gamla fólkinu.“ Í dag spilar Jón Valur einu sinni í viku með Dasbandinu á Hrafnistu. ,,Sumir dansararnir eru að ganga hundrað og það hægir sko ekki á þeim. Það er dansað þangað til við sláum seinasta tóninn og fólk dansar þó það sé í göngugrind eða hjólastól, þannig á það líka að vera.“
Jón Valur bendir á að það sé mikilvægt að halda sér virkum og taka þátt í samfélaginu fram á seinasta dag. ,,Ég reyni alltaf að vera kátur og bjartsýnn og það heldur manni við efnið. Og svo heldur það manni ungum í anda að eiga yndislega fjölskyldu og að nostra við áhugamál sín. Barnabarnbarnið mitt spurði mig einu sinni hvort mér þætti ekki leiðilegt að vera gamall og ég svaraði að þvert á móti þætti mér æðislegt að vera gamall, því ef ég væri ekki gamall þá væri ég dauður. Og víst ég er lifandi en ekki dauður er eins gott að lifa lífinu þá líka lifandi.“ Jón hefur verið giftur í 61 ár, á sex börn og fjölda barnabarna og barnabarnabarna. Auk þess að spila á böllum syngur hann með Gaflarakórnum, semur ljóð og tónlist og fer reglulega í leikfimi.

Vélvirki og starfaði hjá Áhaldahúsinu

„Ég er lærður vélvirki en ég hef starfað hér og þar um ævina. Ég vann lengst af hjá Áhaldahúsi Hafnarfjarðar. Þar kynntist ég mörgu góðu fólki. Svo keyrði ég strætó um tíma, var á sjónum og vann í Vélsmiðju Hafnarfjarðar.“ Sem barn gekk Jón í skátana og tók síðar þátt í að stofna Hjálparsveit skáta í Hafnarfirði. „Ég var einn af þeim sem fórum í útkall til eyja 1973 þegar Heimaey gaus. Ég var í því að bera húsbúnað út í bátana, bjarga gæludýrum og öðrum verðmætum. Ég man að einu sinni var ég að bera sófa út í bát þegar risa stór vikur klumpur lendir í sófanum og hann fuðraði upp í höndunum á okkur. Ég brendist dálítið á höndunum í þessu útkalli og er með ör hér og þar eftir vikur og gjallslettur. Þetta var ótrúlega lífsreynsla.“

Ánægður með bæinn sinn

„Mér finnst yndislegt að búa í Hafnarfirði og vill hvergi annar staðar búa. Hér þekkja allir alla og fólki er annt hvert um annað. Ég er mjög ánægður með bekkina sem búið er að koma fyrir hér og þar um bæinn. Það auðveldar mönnum eins og mér að fara í göngutúr að geta hvílt sig á leiðinni og sest niður. Ég vil að bæjarstjórnin hafi velferðarmálin í öndvegi, hugsi jafnt um unga sem aldna og leiti til fólksins í mikilvægum málum. Lýðræðismálin skipta máli. Við þurfum að hugsa vel hvert um annað og vera virk í samfélaginu. Það lifir enginn annar þessu lífi fyrir þig.“Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: