Launahækkun bæjarstjóra úr takti við samfélagið

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar segir launahækkun bæjarstjóra úr takti við það sem samið hefur verið um fyrir venjulegt launafólk

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar segir launahækkun bæjarstjóra úr takti við það sem samið hefur verið um fyrir venjulegt launafólk

Á síðasta fundi bæjarráðs lagði nýr meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks til að heildarlaun bæjarstjóra að meðtöldum starfstengdum greiðslum yrðu hækkuð úr 1.125 þúsund krónum á mánuði í 1.480 þúsund krónur, eða um 31.5%. Ef þóknun sem fráfarandi bæjarstjóri fékk fyrir að vera bæjarfulltrúi er tekin með í samanburðinum þá nemur hækkunin um 18%. Þess ber að geta að Hafnarfjarðarbær greiðir líkt og önnur sveitarfélög fasta þóknun til þeirra bæjarfulltrúa sem kjörnir eru hverju sinni, óháð því hvað þeir hafa að aðalstarfi.

Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar segir að þó það standist í raun ekki skoðun að blanda þessu saman með þeim hætti sem oddviti Sjálfstæðisflokksins hefur gert opinberlega þá er hækkunin eftir sem áður úr takti við flest annað í samfélaginu og það sem samið hefur verið um fyrir venjulegt launafólk. Hann bendir á að á almennum vinnumarkaði hafi verið samið um hóflegar launahækkanir á grundvelli þess að stjórnvöld ætluðu að leggja allt kapp á að halda verðbólgu í skefjum og styðja þannig við markmið um aukinn stöðugleika í efnahagsmálum.

„Niðurstaða kjarasamninga á almennum vinnumarkaði varð 2,8% almenn launahækkun og sambærilegir samningar voru gerðir milli samtaka opinberra starfsmanna og ríkisins í vor“

segir Gunnar Axel og bætir við að sveitarfélögin hafi lagt umtalsvert af mörkum til að reyna að skapa samstöðu um að halda niðri verðhækkunum. Hann segir það með öllu óskiljanlegt hvers vegna þurfi að rjúka til núna og hækka laun nýs bæjarstjóra. „Staðan var nýlega auglýst laus til umsóknar og 30 manns sóttu um starfið. Gerði þessi eini sem meirihlutinn kom sér saman um kröfu um að launin yrðu hækkuð? spyr Gunnar Axel og segir að hin órökstudda launahækkun muni eins og sér leiða til aukins launakostnaðar uppá a.m.k. 20 milljónir króna á kjörtímabilinu.

„Ef það væri hægt að túlka þetta sem viðleytni í þá átt að bæta kjör bæjarstarfsmanna þá væri það annað mál og eitthvað sem væri hægt að ræða. En það er ekkert sem gefur til kynna að til standi að hækka laun annarra starfsmanna með sambærilegum hætti og heldur ekkert sem gefur tilefni til að ætla að forsendur hafi skyndilega skapast til launahækkana af þessari stærðargráðu hjá hinu opinbera. Á meðan slíkar forsendur eru ekki staðar þá er ekkert réttlæti í því fólgið að hækka bara þá sem hafa lang hæstu launin fyrir.“

segir Gunnar Axel Axelsson oddviti Samfylkingarinnar í HafnarfirðiFlokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: