Minning: Svend-Aage Malmberg

svendSamfylkingarfólk í Hafnarfirði horfir nú á eftir góðum félaga úr sínum röðum. Dr. Svend-Aage Malm­berg haffræðing­ur er lát­inn, 79 ára að aldri. Hann lést á heim­ili sínu í Hafnarfirði hinn 25. júní síðastliðinn.

Ég kynntist Svend-Aage ekki fyrr en fyrir nokkrum árum þegar ég byrjaði að taka virkan þátt í starfi Samfylkingarinnar. Þar hitti ég þennan merkilega mann í fyrsta skipti og ég get ekki látið hjá líða að minnast hans með fáeinum orðum sem þakklætisvott fyrir okkar stuttu samleið.

Svend-Aage birtist mér sem afar sjálfstæður maður og framsýnn og alltaf rökfastur en uppbyggilegur í sinni gagnrýni. Þrátt fyrir að fjórir áratugir skildu á milli okkar í árum þá fannst mér hann samt aldrei gamall. Hann var jafn upptekinn og við sem yngri vorum af framtíðinni og því sem brann á okkar kynslóð. Hann minnti mann á að framtíðina eigum við öll. Frá honum geislaði líka einhver óáþreifanleg væntumþykja og stuðningur, bros sem sagði meira en þúsund orð. Undir niðri var líka þessi leiftrandi húmor sem hreif mig og eflaust flesta sem kynntust honum.

Svend-Aage lauk doktorsprófi í haffræðum árið 1961 og stundaði rannsóknir á því sviði alla sína starfsævi. Hann var mjög virtur á sínu fræðasviði og hlaut meðal annars heiðursviðurkenningu Alþjóðahafrannsóknarráðsins árið 2001 og riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 2003 fyrir rannsóknir sínar.

Hann var virkur þáttakandi í starfi jafnaðarmanna á Íslandi, sem félagi í Alþýðuflokknum og síðar Samfylkingu. Hann var sannur félagi og vinur sem lagði sitt af mörkum, miðlaði af sinni þekkingu og sýn á lífið og samfélagið.

Fyrir hönd Samfylkingarfólks í Hafnarfirði sendi ég fjölskyldu hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Svend-Aage Malmberg

Gunnar Axel AxelssonFlokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: