Gúgglið leiddi þau saman

Magga Gauja hefur unnið ötullega að uppbyggingu brettaaðstöðu í Hafnarfirði

Magga Gauja hefur unnið ötullega að uppbyggingu brettaaðstöðu í Hafnarfirði

Brettafélag Hafnarfjarðar var stofnað eftir ákall Margrétar Gauju Magnúsdóttir bæjarfulltrúa. Jóhann Óskar Borgþórsson svaraði kallinu og tók slaginn með henni. Nú uppskera þau loksins, glæsileg aðstaða fyrir hjólabrettaiðkendur var vígð á uppstigningardag í gömlu slökkviliðsstöðinni.

„Ég sé fyrir mér og veit að starfinu í heild á eftir að ganga vel og stækka hratt. Við og Hafnarfjarðarbær erum að fylla í gat sem er í íþrótta- og æskulýðs málum og við erum að byggja til framtíðar,“ segir Jóhann Óskar Borgþórsson, formaður hjólabrettafélags Hafnarfjarðar, en langþráð aðstaða fyrir hjólabrettafólk opnaði í gömlu slökkviliðsstöðinni fimmtudaginn 29. maí sl. Það er því óhætt að segja að draumur allra hjólbrettaiðkenda í Hafnarfirði sé að verða að veruleika; loksins geta þeir sinnt sínu áhugamáli við kjöraðstæður.

Saga þyrnum stráð

Sagan er þó áhugaverð og jafnvel þyrnum stráð. Þannig barðist Margrét Gauja Magnúsdóttir, forseti bæjarstjórnar og 2. maður á lista Samfylkingarinnar, strax fyrir betri aðstöðu fyrir þennan hóp þegar hún var kjörin í bæjarstjórn árið 2006. Hún stofnaði þá starfshóp á vegum Framkvæmdarráðs og Íþrótta- og tómstundaráðs Hafnarfjarðar (ÍTH) um uppbyggingu á aðstöðu fyrir hjólabrettaiðkendur. Í kjölfarið þess var farið af stað með hönnun og tillögu að aðstöðu á Víðistaðartúni fyrir brettafólkið. Hætt var við þá tillögu þar sem íbúar í kring mótmæltu harðlega.

Jóhann Óskar að undirbúa opnun aðstöðunnar

Jóhann Óskar að undirbúa opnun aðstöðunnar

Svaraði ákalli
Margrét Gauja dó þó ekki ráðalaus. Hún skrifaði grein undir fyrirsögninni „Ákall á Brettafélag Hafnarfjarðar“. Þar óskaði hún eftir því að stofnað yrðu brettafélag í bænum sem gæti aðstoðað bæinn við þessa vinnu.
„Ég var þá eitthvað að gúggla Brettafélag Hafnarfjarðar og rakst þá á þessa grein,“ útskýrir Jóhann Óskar, sem þá var að reyna að finna upplýsingar um þetta félag. Hann svaraði því kalli Margrétar, þau hittust á kaffihúsi og ræddu um möguleikana í þessum efnum. Hann stofnaði því félagið árið 2012 og fékk með sér í lið bæði foreldra og iðkendur.

Fengu slökkviliðstöðina
Og svo voru þau örlítið heppin að auki. Björgunarsveit Hafnarfjarðar kláraði sitt nýja og glæsilega hús á dögunum og þá þegar voru þau Margrét Gauja og Jóhann Óskar búin að sjá að gamla slökkviliðsstöðin, þar sem björgunarsveitin var með sína aðstöðu, var kjörin undir brettaiðkun. Brettafélagið hefur því gert rekstrarsamning við Hafnarfjarðarbæ.

Frá opnuninni

Frá opnuninni

Skýr sýn
„Við sem erum í stjórn og höfum komið að félaginu höfum allt frá stofnun haft skýra sýn á hvernig starfinu verður háttað,“ útskýrir Jóhann Óskar spurður út í það hvernig þeir sjái starfið fyrir sér. „Við ætlum að starfrækja félagið eins og hvert annað íþróttafélag. Þannig verða skipulagðar æfingar fyrir börn, unglinga og fólk á öllum aldri,“ segir hann. „Okkur langar líka til þess að ná íþróttinni upp úr hjólförum sleggjudómana og sýna fram á að þetta er íþrótt, ekki bara eitthvað krakka-hobbí.“

Einstakt á Íslandi
Spurður um aðstöðuna í gömlu slökkviliðsstöðinni svarar Jóhann: „Það er ótrúlega góð tilfinning að komast hingað inn. Og án þessarar aðstöðu væri ekki hægt að byggja upp það metnaðarfulla starf sem okkur langar til þess að standa að.“

Jóhann Óskar segist ekki hafa getað gert þetta án aðstoðar einnar kona. „Mig langar fyrir hönd Brettafélags Hafnarfjarðar, og stjórn, að þakka Hafnarfjarðarbæ, bæjarfulltrúum, og þá sérstaklega henni Margréti Gauju, fyrir að láta þetta verða að veruleika,“ segir hann. „Þetta verkefni okkar er einstakt á Íslandi. Vonandi verður það fyrirmynd fyrir önnur sveitarfélög í íþrótta og æskulýðsmálum,“ segir hann svo að lokum.“Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: