Beitir sér ekki fyrir myndun meirihluta

Gunnar Axel Axelsson vill beita sér fyrir því að virkja Pírata og Framsókn þrátt fyrir að þeir hafi ekki náð manni inn. 13% bæjarbúa kusu þá báða en hvorugur komst inn í bæjarstjórn.

Gunnar Axel Axelsson vill beita sér fyrir því að virkja Pírata og Framsókn þrátt fyrir að þeir hafi ekki náð manni inn. 13% bæjarbúa kusu þá báða en hvorugur komst inn í bæjarstjórn.

„Við vissum að landslagið væri breytt, það hefur í raun legið fyrir frá því fyrir fjórum árum þegar ný framboð komu fram í öllum stærri sveitarfélögum á Íslandi fyrir utan Hafnarfjörð,“ segir Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar, þegar hann fer yfir úrslit sveitarstjórnarkosninganna um helgina. Samfylkingin fékk þá rúm 20% og missti tvo menn af fimm sem þeir fengu í kosningunum árið 2010.

Gunnar Axel segist hafa átt því von á að sú þróun myndi eiga sér stað í kosningunum núna sem varð annarstaðar fyrir fjórum árum, að stuðningur við flokkanna sem eru á miðjunni og til vinstri myndi dreifast á fleiri framboð og flokkunum í bæjarstjórn myndi fjölga.

Átti von á að fleiri næðu inn

„Ég átti reyndar von á að flokkarnir yrðu fleiri, það er að segja sem myndu ná inn manni, og ég held það hefði verið gott fyrir bæjarstjórnina og lýðræðið ef þeir hefðu náð inn sínum manni hvor og atkvæði þeirra kjósenda sem studdu bæði Pírata og Framsókn hefðu ekki fallið dauð eins og raunin varð,“ segir Gunnar Axel. „Ég held við hljótum að þurfa að horfa til þess að það voru yfir 13% kjósenda sem studdu þessa flokka og ég vil finna leiðir til að þeirra rödd heyrist í bæjarmálunum.“

Gunnar Axel upplýsir að hann hafi nú þegar rætt það við oddvita Pírata að Samfylkingin sé tilbúin að vinna með þeim að því að þeir geti komið að málum með einhverjum hætti, og haft áhrif á þeim sviðum sem þeir hafa lagt mesta áherslu á, það er að segja lýðræðis- og stjórnsýslumálin.

„Ég mun að sama skapi ræða við oddvita Framsóknarflokksins, enda tel ég að þrátt fyrir að þeir hafi ekki náð inn manni þá sé mikilvægt að þeir hafi einhverja aðkomu að bæjarmálunum og til að koma sínum hugmyndum og tillögum á framfæri,“ segir Gunnar Axel.

Talað fyrir breiðri samvinnu

Hann bætir við að félagar í Samfylkingunni hafi alltaf talað fyrir breiðri samvinnu og samstarfi og sé sá flokkur sem hefur leitt umræðuna um aukna þátttöku íbúanna í stjórn bæjarins. „Við bindum því vissulega vonir við að innkoma Bjartrar framtíðar, sem boðaði það fyrir þessar kosningar að þau vildu vinna þvert á flokka, geti orðið til þess að hugmyndir um aukna samvinnu og samræðustjórnmál geti orðið að veruleika. Við erum allavega tilbúin að vinna að því að móta slíkar hugmyndir í samstarfi við aðra og lögðum sérstaka áherslu á það í okkar kosningabaráttu að næsta stóra skref í lýðræðisumbótum á sveitarstjórnarstiginu geti falist í því að fela kjósendum í auknum mæli að taka ákvarðanir um stærri mál í beinum rafrænum kosningum. Það gæti sömuleiðis orðið forsenda fyrir því að hægt sé að vinna meira þvert á flokka, skapa grundvöll fyrir friðsamlegri stjórnmálum og vonandi uppbyggilegri,“ segir hann.

Beitir sér ekki fyrir myndun meirihluta

Gunnar Axel svarar því aftur á móti neitandi þegar hann er spurður hvort hann muni beita sér fyrir myndun nýs meirihluta. „Við munum ekki gera það,“ segir hann og bætir við: „Ég lít svo á að í niðurstöðum kosninganna felist skýr skilaboð um að fólk vilji breytingar og ég tel að við eigum frekar að reyna að leggja okkar mörkum til að þær geti orðið. Ef við gerum mest gagn með því að vera í minnihluta þá munum við leggja okkur fram í því hlutverki og gera það málefnalega en við erum líka tilbúin til að vinna á breiðari grunni. Ef flokkarnir geta komið sér saman um framtíðarsýn og hvert við viljum stefna sem samfélag þá erum við tilbúin til að vera hluti af því og skorumst ekki undan þeirri ábyrgð.“Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: