Gáfu farþegum Strætó kaffi

Eva Lín og Ingvar Þór Björnsson gefa farþegum kaffi.

Eva Lín og Ingvar gefa farþegum kaffi.

Í morgun stóð Bersinn – félag Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði (BUJaH) á stoppistöð Strætó í Firðinum og hellti upp á kaffi fyrir vegfarendur.

Með þessu vildi Bersinn þakka notendum Strætó fyrir að velja umhverfisvænan ferðamáta, og vekja athygli á áherslum Bersans í málefnum Strætó.

Bersinn telur nauðsynlegt að gera umbætur í strætókerfinu og vilja félagar BUJaH sjá innleiðingu hraðvagna á höfuðborgarsvæðinu strax á komandi kjörtímabili.

Leið 1 er löngu sprungin og stendur ekki undir þörf notenda Strætó.

Sjá meðfylgjandi ályktun Bersans.

Bersinn vill hraðvagn til Reykjavíkur

Bersinn, félag Ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði (BUJaH) telur innleiðingu hraðvagnakerfis nauðsynlega til þess að auka skilvirkni og bæta þjónustu Strætó.

Gögn Strætó benda til þess að eftir minna en áratug verði fyrirtækið að vera tilbúið að ferma allt að 12 þúsund farþega á háannatíma á höfuðborgarsvæðinu. Þessari þörf verður best mætt með hraðvagnakerfi eins og þekkist víða á Norðurlöndum.

Í dag tekur um 40 mínútur að komast frá Völlunum í Hafnarfirði til miðbæjar Reykjavíkur. Þetta þýðir að fólk sem sækir nám eða vinnu í Reykjavík þarf að eyða um 80 mínútum í strætó á hverjum degi. Leið 1 er nú þegar sprungin á háannatíma, og oft þarf að bæta við vögnum. Það liggur því í augum uppi að þörf er á miklum breytingum til þess að almenningssamgöngur standist samkeppni við einkabílinn.

Hraðvagn sem færi frá Hafnarfirði til Reykjavíkur myndi stoppa á mikilvægustu stoppistöðvunum, t.d. í Firði, Ásgarði, Hamraborg, Kringlunni, Landsspítalanum, Háskóla Íslands og Lækjartorgi. Vagninn myndi bætast við núverandi þjónustu Strætó á háannatíma.

Auk þess að gera fólki auðveldara að komast á milli staða myndu hraðvagnar snarminnka álag á samöngukerfi höfuðborgarsvæðisins og stytta ferðatíma allra íbúa. Aukning í notkun strætó myndi einnig minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda, en samgöngur standa fyrir fjórðungi alls útblásturs á Íslandi.

Bersinn telur brýnt að farið verði í þessar breytingar strax (ekki teygjanlegt hugtak) á komandi kjörtímabili.

Samþykkt af stjórn Bersans 26.5.2014.

 Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: