Hafnarfjarðarbær hefur sent Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, bréf varðandi húsnæði gamla St. Jósefsspítala. Í bréfinu, sem er undirritað af Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur, er óskað eftir skýrum svörum frá fjármálaráðuneytinu sem fer með stærstan eignarhluta í húsinu, um það hvernig því verður ráðstafað.
Jafnframt kemur fram í bréfinu að það sé mikilvægt að fjármálaráðuneytið horfi í átt til Hafnarfjarðarbæjar um samstarf um framtíðarmöguleika hússins.
Margrét Gauja Magnúsdóttir, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, hefur beitt sér fyrir málinu á Alþingi þar sem hún hefur setið sem varaþingmaður.
„Ég náði að ýta á umræðu um þetta mál þegar ég tók málið upp á Alþingi síðastliðinn vetur, það hafa hins vegar ekki komið skýr svör,“ svarar hún aðspurð hvað hafi gerst í þessu máli á síðustu vikum og mánuðum. Margrét Gauja segir að óvissunni í kringum húsið verði að eyða: „Nú er fjármálaráðuneytið með þetta verkefni í fanginu eftir að heilbrigðisyfirvöld hafa vísað málinu þangað. Fjármálaráðherra hlýtur að vera hugsa um þetta og ég vona að það komi svör fyrr en seinna,“ segir hún að lokum.
Flokkar:Uncategorized