Ég mun alltaf berjast fyrir breiddina

Gunnar Axel Axelsson segir að verktakagræðgi hafi verið staðreynd fyrir hrun. Við þurfum að læra af því.

Gunnar Axel Axelsson segir að verktakagræðgi hafi verið staðreynd fyrir hrun. Við þurfum að læra af því.

Gunnar Axel Axelsson steig sín fyrstu skref í stjórnmálum með Tónlistanum í sveitarstjórnarskosningum árið 1998. Þá strax sýndi hann og sannaði að hann væri gríðarlega efnilegur í stjórnmálum. Síðar gekk hann í Samfylkinguna en í dag leiðir hann lista flokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Sem unglingur fór Gunnar Axel út af sporinu og fór skrikkjóttu leiðina þangað sem hann er í dag. Hann lýsir því þegar hann var handtekinn af lögreglunni og hvernig hann þakkar leikhúsinu fyrir að hafa beint sér í rétta átt í lífinu.

Engar vífilengjur; byrjum á byrjuninni. Er bæjarfélagið illa statt fjárhagslega?

„Nei rekstur Hafnarfjarðarbæjar er sterkur,“ segir Gunnar Axel. „Það er óhætt að segja að rekstur bæjarfélagsins gengur vel en hitt er þó alveg ljóst, sem er að Hafnarfjarðarbær er skuldsett sveitarfélag, eins og flest sveitarfélög eftir hrun. Stærsta verkefnið hefur verið að endurskipuleggja reksturinn til að tryggja að hann geti staðið undir sínum fjárhagslegu skuldbindingum,“ segir Gunnar Axel sem er sannarlega á heimavelli hvað fjármálin varðar, en sjálfur er hann menntaður viðskiptafræðingur og starfar sem sérfræðingur í fjármálum hins opinbera hjá Hagstofunni. Þeir sem standa þessum talnaglögga manni næst, uppnefna hann stundum „Gunnar Exel“ í gríni.

En af hverju skuldum við svona mikið?

„Þó svo að sumir reyni að halda öðru fram þá greiddi Hafnarfjörður markvisst niður skuldir sínar á árunum 2002 til 2008. Síðasta áratuginn hefur rekstur bæjarins að jafnaði skilað töluverðri framlegð og hefur þar af leiðandi getað staðið undir verulegum hluta þeirra framkvæmda sem sveitarfélagið hefur þurft að ráðast í. Samt tókst að greiða niður stóran hluta þeirra skulda sem stofnað var til á árunum 1998-2002, tímabili sem helst verður minnst fyrir glórulausa einkaframkvæmdasamninga. Skuldirnar voru innan viðráðanlegra marka þegar hrunið skall á,“ segir Gunnar Axel og bætir við: „Þá var staða Hafnarfjarðarbæjar auðvitað eins og með heimilin og önnur fyrirtæki á landinu. Við vorum ýmist með verðtryggð og gengistryggð lán,“ segir hann. Gunnar Axel bætir við að skuldirnar hafi hækkað í samræmi við það

„Þessu til viðbótar varð bæjarsjóður fyrir töluverðum áföllum vegna þess að í aðdraganda hrunsins var úthlutað töluvert af atvinnu- og íbúðalóðum. Bærinn heimilaði öllum sem ekki voru byrjaðir að byggja að skila inn lóðum og fá þær endurgreiddar,“ útskýrir Gunnar Axel. Hann segir að þetta hafi verið afar þýðingarmikið fyrir þá einstaklinga og fyrirtæki sem áttu í hlut en gerði bænum um leið erfitt um vik, greiðslulega séð, að standa við afborganir lána.

Byggðum ekki brjálæðislega minnisvarða

Fóru þið fram úr ykkur?

„Uppruni og eðli þeirra skulda sem sveitarfélögin standa frammi fyrir að greiða skiptir höfuðmáli þegar rætt er um mismunandi stöðu þeirra og framtíðarhorfur. Ólíkt sumum þeirra sveitarfélaga sem lentu í þröngri stöðu eftir hrun voru þau lán sem Hafnarfjarðarbær tók á undanförnum árum ekki tekin til þess að standa undir daglegum rekstri heldur til fjárfestinga í innviðum, til byggingar nýrra skóla, til gatnaframkvæmda, til nauðsynlegra veituframkvæmda og til uppbyggingar í íþrótta- og tómstundamálum barna og unglinga. Þetta eru samfélagslegar eignir sem standa á móti skuldunum,“ segir Gunnar Axel.

„Með öðrum orðum, við vorum ekki að reisa einhverja brjálæðislega minnisvarða í Hafnarfirði. Við vorum að byggja og treysta inniviði fyrir heilbrigt og gott samfélag,“ bætir hann við.

En hvað með Vallalaugina? Var það ekki minnisvarði?

„Hvað sem allri umræðu um laugina líður, þá var stór hluti þeirrar fjárfestingar greiddur afgangi af rekstri bæjarins. Þess vegna tókst okkur að borga niður skuldir sveitarfélagsins á sama tíma og við byggðum það upp. Sundlaugin á Völlunum er vissulega eitt af þessum stóru verkefnum. Bygging hennar var þó aldrei eitthvað sérstakt högg fyrir fjárhag bæjarins,“ svarar Gunnar Axel. Hann segir að Ásvallalaugin sé sannarlega stórt og mikið mannvirki, „en henni var ætlað sérstak hlutverk, sem æfinga- og keppnislaug. Sundfólk hafði beðið lengi eftir svona laug. Svo var henni auðvitað ætlað að styrkja innviði fyrir íbúa á Völlunum,“ segir Gunnar. Hann bætir við að fjárfestingin sé ótrúlega vel heppnuð. „Barnafólk sækir mikið í laugina og aðsóknin almennt er framar öllum vonum.“

Gunnar Axel slær á létta strengi í myndatöku með efstu frambjóðendum Samfylkingarinnar.

Gunnar Axel slær á létta strengi í myndatöku með efstu frambjóðendum Samfylkingarinnar.

Verktakagræðgin var staðreynd

Uppbygging bæjarins hefur verið hröð síðustu ár. Þannig hefur íbúafjöldinn aukist úr 15 þúsund í 27 þúsund á innan við fimmtán árum. Margir hafa gagnrýnt þessa hröðu uppbyggingu og sumir jafnvel haft á orði að sumar framkvæmdir innan bæjarins einkennist af „verktakagræðgi“.

„Það er bara það sem gerðist,“ játar Gunnar Axel og dregur ekkert undan. „Uppbygging á Íslandi var hraðari en skynsamlegt getur talist og var oft í litlum tengslum við raunverulega þörf fólks á húsnæðismarkaði og hugmyndir almennings um útlit og eðlilega uppbyggingu. Þetta byggðist oft á hugmyndum um skjótfengin gróða,“ segir Gunnar Axel. „Það er nauðsynlegt að við lærum af þessu.“
Gunnar Axel bætir við að of hröð uppbygging sé sjaldnast góð og að menn þurfi að vanda sig í skipulagsmálum. „Ég er sannfærður um að það hafi verið það sem menn vildu gera þegar lagt var af stað. En það var mikill þrýstingur á bæjaryfirvöld hér sem og annarstaðar um að bjóða út mikið magn lóða. Hér í Hafnarfirði kom sá þrýstingur ekki síst frá minnihlutanum í bæjarstjórn,“ segir Gunnar Axel ómyrkur í máli þegar hann gerir upp árin fyrir hrun. „Ég var þá í hlutverki áhorfanda. Ég kom ekki inn í bæjarstjórnina fyrr en 2010 en ég sá ekki fyrir hrunið frekar en aðrir. Ég efaðist um margt sem átti sér stað og litið til baka verður flestum ljóst hversu langt út af sporinu samfélagið okkar var komið. Tekjur samfélagsins voru ekki byggðar á sjálfbærum grunni, hvorki heimila né fyrirtækja og þar af leiðandi voru rekstrarforsendur hins opinbera það ekki heldur,“ segir Gunnar Axel.

Átakanlegur húsnæðisskortur

Þessi mikla uppbygging hafði þær afleiðingar meðal annars að húsnæðismarkaðurinn í dag þjónar ekki þörfum þeirra sem þurfa að koma yfir sig þaki. „Og þá erum við að tala um ungt fólk. Það getur bara ekki hafið búskap eins og ástandið er í dag. Það er átakanlegur skortur á leiguhúsnæði auk þess sem leiguverð er hærra en fólk ræður við að greiða,“ segir Gunnar Axel. „Við viljum því hafa skýra framtíðarsýn hvað þetta varðar. Hún felur í sér að bjóða upp á fjölbreyttari kosti, meðal annars öruggt leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði.“

Og hvernig viljið þið eiginlega gera þetta?

„Það gerum við fyrst og fremst með því að marka skýra stefnu um uppbyggingu fjölbreyttari möguleika á húsnæðismarkaði og með því að haga ákvörðunum í skipulagsmálum þannig að þær styðji við þá stefnu. Við viljum meðal annars skilgreina hvar við viljum byggja húsnæði sem mætir þörfum þeirra sem kjósa minni eða meðalstórar íbúðir, hvort sem er til kaups eða leigu.“

Gunnar Axel segist vilja kalla til samstarfs þá aðila sem hafa áhuga á uppbyggingu heilbrigðs húsnæðismarkaðar. Gunnar Axel nefnir í þessu samhengi verkalýðsforystuna, lífeyrissjóði og byggingaraðila. „Við þurfum að leita leiða til þess að byggja upp öruggan leigumarkað.“

Gunnar Axel segir þó mikilvægt að það komi fram að hann boði engar töfralausnir. „Það eru engar patentlausnir þegar kemur að húsnæðismarkaðnum,“ segir Gunnar Axel. „Hann er í eðli sínu flókið fyrirbæri og enginn einn getur stýrt fullkomlega framþróun hans. Þess vegna er svo mikilvægt að margir ólíkir aðilar séu hluti af lausninni.Í mínum huga er grundvallaratriði að sveitarfélög hafi einhverskonar framtíðarsýn hvað þetta varðar og séu í hlutverki þess sem leiðir hina saman að borðinu. Þannig náum við markmiðum okkar. Þannig getum við byggt upp betri framtíð í húsnæðismálum landsins.“

Gunnar Axel og Ófeigur Friðriksson fylgjast með Möggu Gauju þar sem hún skammar ljósmyndarann á ögurstundu.

Gunnar Axel og Ófeigur Friðriksson fylgjast með Möggu Gauju þar sem hún skammar ljósmyndarann á ögurstundu.

Fókusinn á lífsafkomuna

Gunnar Axel segir að kjör Íslendinga hafi versnað hratt og skyndilega í hruninu og vegna hruns krónunnar og afleiðinga þess á skuldastöðu heimilanna hafi fókusinn aðalega verið á þær. „Eðlilega varð það fókuspunkturinn í umræðunni. Þó finnst mér eins og fókusinn hafi farið af almennri lífsafkomu fólks. Sérstaklega í ljósi þess að tekjur heimilanna drógust verulega saman, og þó þær hafi aukist lítillega eftir hrun, þá hafa útgjöldin haldið áfram að vaxa,“ segir Gunnar Axel og heldur áfram: „Þannig hafa útgjöld heimilanna, meðal annars tengda börnum og uppeldi, aukist mikið síðustu ár. Þjónustugjöld, sem voru ekki til fyrir nokkrum árum eða áratugum síðan, hafa bæst ofan á allt annað. Við þurfum að huga sérstaklega að barnafólkinu þarna, enda eru margir hverjir að sligast undan fjölmörgum gjöldum og greiðslum tengdum börnum þeirra. Við þurfum að einbeita okkur að lífsafkomu fjölskyldufólks“

Gunnar Axel segir að líta þurfi á þjónustugjöld barnafjölskyldna í heild og tryggja að þau fari ekki yfir skilgreind mörk. „Við ruddum brautina árið 2003 þegar við innleiddum, fyrst sveitarfélaga hér á landi, niðurgreiðslur vegna þátttöku barna í tómstundarstarfi og íþróttum. Það var mikilvægt skref sem ég held að hafi skipt gríðarlegu máli fyrir okkur sem samfélag. Ekki aðeins var þannig tryggt að öll börn gætu fengið notið þess að stunda heilbrigðar tómstundir óháð efnahag foreldra heldur var þarna um að ræða gríðarlega mikilvægt skref í forvarnarmálum. Við sjáum það á öllum tölum hversu mikið samhengi er milli aukinnar þátttöku barna og unglinga í skipulögðu frístundastarfi og minnkandi áhættuhegðunar, svo sem neyslu áfengis eða annarra vímuefna.“

Gunnar Axel segir að nú sé hins vegar komið að þeim tímapunkti að niðurgreiðslurnar hafi rýrnað svo að raungildi að það sé varla hægt að tala um að þær tryggi með sama hætti jafnan rétt barna og unglinga til þátttöku og þær gerðu í upphafi. „Við lítum svo á að það sé eitt af forgangsmálunum núna að bæta úr því, nýta það svigrúm sem skapast til að brúa bilið upp á nýtt. Auðvitaðað þetta líka réttlætismál fyrir börnin,“ segir Gunnar Axel sem stendur sjálfur í sömu sporum og margt fjölskyldufólk, enda fjögurra barna faðir.

Villingurinn Gunnar

Gunnar Axel er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði fyrir utan þau þrjú ár sem hann bjó á Neskaupsstað. Gunnar Axel er giftur Katrínu Nicolu Sverrisdóttur aðstoðarleikskólastjóra Saman eiga þau eina stelpu, en fyrir á Gunnar þrjú börn. Elsta barnið átti hann þegar hann var aðeins liðlega tvítugur. „Þá urðu vatnaskil í lífi mínu,“ segir Gunnar Axel sem virðist ekki áfjáður í að tala um unglings- og menntaskólaárin.

„Ég var hluti af svolítið leitandi hópi,“ svarar Gunnar Axel spurður út í fortíðina. Hann segist ekki hafa verið alveg á beinu brautinni á þessum árum. „Ég var bara hálfgerður villingur,“ segir Gunnar Axel umbúðalaust og hlær. Hann segist hafa verið uppátækjasamur sem barn. „Líklega hefði einhver skilgreint mig sem ofvirkt barn á þeim tíma, en við vorum ekki komin svo langt í læknavísindunum,“ segir hann.

Gunnar Axel fann sig þó fljótlega í leikhúsinu. „Ég byrjaði snemma í Leikfélagi Hafnarfjarðar. Þar átti ég þátt í því ásamt nokkrum að stofna unglingadeild innan leikhússins, þá þrettán eða fjórtán ára gamall. Við settum upp nokkrar leiksýningar,“ segir Gunnar Axel sem bætir við að tíminn hafi bæði verið góður og þroskandi á margan hátt. „Leikhúsið bjargaði mér líklega,“ segir hann. Gunnar Axel rifjar með semingi upp þegar hann var að nálgast tvítugt.

Gunnar Axel ásamt Friðþjófi Helga, Björk Davíðsdóttur og Gylfa Ingvarssyni.

Gunnar Axel ásam Friðþjófi Helga, Björk Davíðsdóttur og Gylfa Ingvarssyni.

Verðmæt reynsla

Það breytti þó ekki því að Gunnar Axel fór ekki hefðbundnu leiðina á þann stað sem hann er í dag.
„Ég ætlaði að verða atvinnuleikari og sótti um í Leiklistarskóla Íslands. Ég æfði fyrir inntökuprófin og daginn fyrir fyrsta prófið fór ég að hitta nokkra gamla félaga sem höfðu tekið á leigu lítið hús í bænum,“ segir Gunnar Axel. “Ég var varla mættur þangað þegar lögreglan ruddist inn með miklum látum. Þeir héldu víst að þarna færi fram landaframleiðsla og ætluðu að góma húsráðendur við þá iðju. Sem var nú ekki raunin. Gunnar Axel segir að þetta atvik hafi samt verið ákveðinn lágpunktur í sínu lífi. „Þarna áttaði ég mig hvert ég vildi ekki fara og mér tókst að halda mig fyrir utan heim sem þá virtist varðaður til glötunar. „Við unnum okkur auðvitað út úr þessu og margir þessara stráka eru mínir bestu vinir í dag,“ segir Gunnar Axel.
Hann segir reynsluna verðmæta.

Sló í gegn með Tónlistanum

Skömmu síðar hóf hann stjórnmálaferil sinn auk þess sem hann eignaðist dóttur sína Sigrúnu Líf. Pólitískt upphaf Gunnars Axel var þó athyglisvert.
„Ástandið í hafnfirskum stjórnmálum árið 1998 var svolítið súrt. Bæjarbúar voru langþreyttir á orðræðunni og þarna var rosalega mikið um átakastjórnmál,“ útskýrir Gunnar Axel sem tók sæti á lista Tónlistans og sló eftirminnilega í gegn á opinberum fundum þar sem oddvitar flokkanna tókust á. Þar lét hann stjórnmálamennina finna fyrir því, enda átti unga fólkið fullt erindi inn í umræðuna. Raunar áttu stjórnmálaflokkarnir oft í mestu vandræðum með að halda í við þennan gamla villing sem átti augljóslega framtíðina fyrir sér í stjórnmálum.
Hann segir að ungt fólk, með mismunandi bakgrunn í stjórnmálum, hafi sammælst um að stofna listann til þess að undirstrika pólitíska óróann sem einkenndi Hafnarfjörð á þessum tíma.
„Við vorum búin að horfa á sama fólkið rífast alla daga og það virtist alltaf rífast um eitthvað sem skipti okkur engu máli,“ segir Gunnar Axel sem segir ástandið þá hafa verið keimlíkt því sem er að eiga sér stað á landsvísu í dag í stjórnmálum.

Og nú eru þið hluti af kerfi sem kjósendur eru orðnir þreyttir á. Hvert er erindi Samfylkingarinnar í dag?

„Íslendingar gáfust bara upp á íslenskum stjórnmálum eftir hrun,“ segir Gunnar Axel um breytta stöðu í samfélaginu. Hann er þó sannfærður um að Samfylkingin eigi erindi í þetta samfélag sem Hafnarfjörður er. „Samfylkingin byggir tilvist sína á skýrum grunni lýðræðis, jafnréttis og samábyrgðrar. Kannski var þessi grunnstefna útvötnuð, eins og stjórnmálin almennt í aðdraganda hrunsins. Það þarf heldur ekkert að flækja stefnuna með einhverjum hugtökum sem fólk notar ekki í daglegu tali og hefur því kannski takmarkaða þýðingu í hugum flestra. Erindi Samfylkingarinnar fjallar einfaldlega um samfélag þar sem allir fá að vera með. Ekki bara sumir. Svo einfalt er það í mínum huga. Í raun hefur það sjaldan verið brýnna en akkúrat núna,“ segir Gunnar Axel sem segir að nú standi bæjarbúar frammi fyrir því að byggja upp til framtíðar og þá skipti máli að forgangsraða rétt. „Við höfum nú lagt drög að góðu samfélagi og lagt grunninn að nýrri framtíð. Við stöndum bókstaflega frammi fyrir vali á milli samfélags sem gerir ráð fyrir öllum, þar sem jöfnuður ríkir, og samfélags sem þar sem sérhagsmunir eru settir ofar almannahagsmunum,“ segir Gunnar Axel. „Ég mun alltaf berjast fyrir breiddina. Því þannig samfélagi vil ég sjálfur búa í.“Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: