Segir spennustöðina á Völlunum ekki eiga heima í íbúðarhverfi

Ófeigur Friðriksson.

Ófeigur Friðriksson.

„Krafa frá grasrót bæjarbúa hlýtur að koma fyrirtæki eins og Landsnet í skilning um það að spennuvirki og rafmagnslínur af þessari stærðargráðu eiga ekki heima í slíkri nálægð við íbúabyggð,“ skrifar Ófeigur Friðriksson, fjórði maður á lista Samfylkingarinnar, í Gaflaranum um helgina. Greinin hefur vakið töluverða athygli síðan hún birtist um helgina.

Þar fer hann yfir stöðuna á Völlunum og gerir meðal annars undirskriftarsöfnun, sem íbúar Vallanna hafa stungið upp á til þess að láta í ljós óánægju sína, að umtalsefni.

Mikil óánægja er með spennustöð í hverfinu, sem Ófeigur segir að eigi ekki heima í hverfinu. Hann segir undirskriftarsöfnun góða leið til þess að setja þrýsting á Landsnet. Grasrótin verði ekki hundsuð.

Hann segir einnig að það þurfi að ná sátt við iðnaðarhverfin um umgengni og að huga þurfi betur að umhverfinu víða.

„Það þarf að ná sátt við iðnaðarhverfið og hugsanlega er ein leið til þess að skilja hverfin betur að með gróðri. En auðvitað mega sum iðnaðarhverfi taka sig verulega á þegar kemur að umgengni,“ segir Ófeigur og heldur áfram: „Það sama á við um húsnæði sem eru í eigu bankastofnana eins og á Tjarnarvöllum í “græna” húsinu. Það er fyrsta húsið sem við sjáum þegar við keyrum inn í hverfið og þar er umgengnin til skammar.“

Sjálfur sér hann fyrir sér að það þurfi að leggjast í stórfellt átak til þess að grænka Vellina.

„Samþykkt hefur verið að gera það í áföngum á næstu árum en mjög mikilvægt er að það náist sátt um það við íbúa hverfisins hvernig þessi verkefni fara fram,“ segir Ófeigur.

Grein Ófeigs má nálgast á Gaflaranum.Flokkar:Uncategorized

<span>%d</span> bloggurum líkar þetta: