Vill ræða við bæjarbúa um nýtt deiliskipulag

Sigríður Björk Jónsdóttir vill funda með íbúum um deiliskipulag í Hafnarfirði.

Sigríður Björk Jónsdóttir vill funda með íbúum um deiliskipulag í Hafnarfirði.

„Nú liggur fyrir að vinna þarf nýtt deiliskipulag fyrir miðbæinn en núgildandi skipulag er síðan 2001 og hafa verið gerðar nokkar breytingar á því á tímabilinu. Undirbúa þarf vinnu við nýtt deiliskipulag miðbæjarins vel og gefa hugmyndum tækifæri til að vaxa og þróast,“ segir Sigríður Björk Jónsdóttir, formaður skipulags- og byggingarráðs en fundur var haldinn í Hafnarborg í gær þar sem farið var yfir tillögu um byggingu á Strandgötu 26- 30.

Um þrjátíu manns mættu á fundinn og sitt sýndist hverjum með hugmyndina. Umhverfis- og skipulagsráð framlengdu athugunarfrestinn til 14. apríl næstkomandi fyrir helgi. Því gefst íbúum enn tækifæri til þess að koma sínum athugasemdum að.

Sigríður Björk segir að nú sé þó ráðrúm til þess að kanna í hvaða átt bærinn vill fara í skipulagsmálum.

„Skipulags- og byggingarráð hyggst standa fyrir opnum umræðufundi um þróun miðbæjarins í Hafnarfirði í lok apríl eða eftir skömmu eftir páska. Lögð verður áhersla á víðtæka nálgun á viðfangsefnið og er vonast til þess að eiga gott samtal við ýmsa hagsmunaðila, ekki síst íbúa,“ segir Sigríður Björk og bætir við:

„Nú þegar farið er að rofa til á fasteignamarkaði á ný er tilefni til þess að endurmeta stöðuna og velta því upp hvort að við séum e.t.v að gera kröfu um allt annars konar miðbæ heldur en 2001. Hverjar eru helstu áherslur í dag? Spyrja þarf fjölmargra spurninga eins og er ástæða til að útvíkka mörk miðbæjar, viljum við gera Strandgötuna að göngugötu, er þörf á nýju bílastæðahúsi, viljum við ráðstafa verðmætum svæðum í gatnamannvirki, hvern er hinn raunverulegi sögulegu kjarni, og hvernig ætlum við að varðveita hann um leið og við opnum á ný tækifæri? Þetta eru allt spurningar sem er mikilvægt að velta upp í aðdraganda nýs skipulags fyrir miðbæinn.“

Sigríður vonast til að sem flestir geti hugsað sér að taka þátt í svona vinnu, og verður sérstaklega hugað að því að nýta vefmiðla Hafnarfjarðarbæjar í þeim tilgangi að ná til fólks.

„Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt okkur að í nútíma þjóðfélagi þá eru hefðbundnir kynningarfundir ekki endilega að ná til þess fjölda sem æskilegt er að skipulagshugmyndir og tillögur geri, sem dregur úr mögleikum eða tækifærum til þess að hafa áhrif á nærsamfélagið.Þar er mikilvægast að allir sitji við sama borð,“ segir Sigríður að lokum.Flokkar:Uncategorized

%d bloggurum líkar þetta: