
Veggjakrot er ekki alltaf prýði fyrir bæinn. En hægt er að sækja um leyfi til þess að skreyta veggi bæjarins.
Fjölskylduráð Hafnarfjarðar lagði fram í gær verklagsreglur um sérstakar aðgerðir gegn veggkjakroti í bænum en þær eru byggðar á reglum sem umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkti fyrir skömmu.
Um er að ræða „óþolinmæðisstefnu“ gagnvart veggjakroti og er meðal annars lagt til í verklagsreglunum að undirgöng í Hafnarfirði verði vöktuð. Þannig verður farið um göngin á tveggja vikna fresti og kannað hvort það sé búið að krota á veggina. Ef svo er verður skemmdarverkið hreinsað strax í burtu. Í fyrstu með aðstoð Vinnuskólans í Hafnarfirði, en svo mun Íþrótta- og tómstundaráð Hafnarfjarðar (ÍTH) sjá um göngin á veturnar.
Þá mun ÍTH sjá um sérstakt tómstundarverkefni varðandi veggjalist og er hægt að óska eftir heimild til ráðsins um að teikna á veggi í undirgöngum bæjarins.
Eins verður fylgst grannt með veggjakroti sem endar á veggjum stofnana bæjarins. Líkt og með göngin verður málað umsvifalaust yfir krotið þegar upp um það kemst. Allt veggjakrot verður svo tilkynnt til lögreglu.
Síðast í gær kvartaði íbúi á íbúafundi í Hraunvallaskóla yfir því sem hann kallaði „bæjarlistamann“. Sá hefur farið um Vellina og krotað á fjölda bygginga við litlar vinsældir íbúa á svæðinu.
Flokkar:Uncategorized