Keyrði yfir hjólabretti níu ára drengs og skammaði hann

image

Freysi með brettið sem brotnaði. Það kostaði hann mikla vinnu að safna fyrir því.

Móðir níu ára gamals drengs, Berglind Þórðardóttir, óskaði eftir því á Facebook-síðunni, Hafnarfjörður og Hafnfirðingar í kvöld, að kona um sextugt, sem ók yfir hjólabretti sonar hennar, gefi sig fram við lögreglu.

Sjálf lýsir Berglind óhappinu svona, sem átti stað stað síðdegis síðasta fimmtudag:

„Við Ásbúðartröðina er ekki gangstétt og var drengurinn minn á brettinu á göngustígnum við húsið er hann missir brettið undan sér. Hann hljóp á eftir því í átt að götunni og er kominn á það aftur er þú birtist.“

Þá virðist ökumaðurinn hafa ekið yfir brettið en sonur Berglindar, Freysi, sakaði ekki. Svo virðist sem ökumanninum hafi verið brugðið, en Berglind gagnrýnir hann engu að síður fyrir viðbrögð sín eftir óhappið.

„Viðbrögð þín eftir að þú keyrðir yfir brettið sem drengurinn stóð á meðan þú brunaðir á of miklum hraða fyrir blindhorn voru þau að opna bílhurðina og argast og skammast í háum tónum við níu ára barn sem var í losti.“

Berglind segir að það hafi tekið hann Freysa heilt ár að safna fyrir þessu splunkunýja hjólabretti, „og var að fara á það í annað sinn þegar þú brunaðir yfir það,“ skrifar hún.

„Í stað þess að hlúa að drengnum og biðjast afsökunar brunaðir þú í burtu eftir að hafa hellt úr skálum reiði þinnar yfir son minn og skildir hann eftir niðurbrotinn,“ bætir hún við.

Hópur vitna sá atburðinn samkvæmt Berglindi. Þau náðu þó ekki númeri bílsins.

Berglind lætur lýsingar á konunni fylgja með í færslunni: „Ef þú ert í kringum sextugt, grönn og með hvítgrátt stutt hár og ekur um á dökkbláum skutbíl eða smájeppa, og jóst þér yfir drenginn minn, þá eru þessi skilaboð til þín. Hefðir þú stungið af ef fóturinn á honum hefði lent undir bílnum?“

Málið hefur verið tilkynnt til lögreglunnar að sögn Berglindar. Hún vonar að konan gefi sig fram, þó það sé ekki nema eingöngu til þess að bæta drengnum hjólabrettið. Eða eins og Berglind lýsir sjálf: „Bretti er ekki bara bretti í augum 9 ára barns, heldur var það fjarlægur draumur, og því tók árið að safna þessum 17 þúsund krónum sem brettið kostaði.“

Bærinn okkar hvetur konuna auðvitað til þess að gefa sig fram. Og auðvitað bregst fólk mismunandi við aðstæðum, og auðvitað má vera að það séu góðar ástæður fyrir hranalegri framkomu ökumannsins.

Frásögn Berglindar má lesa í heild sinni hér.Flokkar:Hafnfirðingar

%d bloggurum líkar þetta: