„Hvaða rök liggja að baki því að pakka hverju einasta eggaldini inn í plast?“
Svona spyr þáttastjórnandi frægi, og fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Gísli Marteinn Baldursson, á Facebook-síðunni; Bylting gegn umbúðum.
Þar gerir Gísli Marteinn það að umtalsefni að hvert eggaldin sem hann verslaði í Melabúðinni hafi verið klætt í plastumbúðir, sem, eins og allir vita, er einstaklega mengandi ósiður. Gísli Marteinn birti að auki mynd af grænmetinu íklætt í því sem hann kallar „pollagalla“.
Facebook-síðan, Bylting gegn umbúðum, var stofnuð af bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar, Margrétar Gauju Magnúsdóttur, en á tæpri viku hafa yfir þrjú þúsund manns líkað við síðuna. Líklega hjálpaði örlítið að formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, Gunnar Axel Axelsson, lofaði að mæta naglalakkaður á bæjarstjórnarfund næði síðan tvö þúsund lækum á tveimur dögum.
Bærinn okkar greindi auðvitað frá því þegar bæjarfulltrúinn þurfti að mæta og kynna stórbætt lánshæfismat Hafnarfjarðarbæjar naglalakkaður. Það er óhætt að segja að bylting gegn umbúðum hafi slegið í gegn.
Gísli Marteinn, sem hefur stjórnað þjóðmálaþættinum Sunnudagsmorgun með stakri prýði, játar á Facebook-síðunni, að hann klæði venjulega grænmetið úr „pollagöllunum“. Það gerir hann í mótmælaskyni við því að framleiðendur skuli klæða vörur í mengandi umbúðir – sem neytendur eru svo skyldugir til þess að henda í ruslið.
Að lokum er plastinu fargað með tilheyrandi mengun og kostnaði fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, sem og auðvitað, veröldin alla.
Við hvetjum svo fólk til þess að skoða byltinguna: https://www.facebook.com/umbudabylting?ref=ts&fref=ts
Flokkar:Uncategorized